Guðfinna Rúnarsdóttir ríður nú á vaðið að beiðni Kvennablaðsins og skrifar um það sem hún sér þegar hún lítur í spegilinn.
Spegilmyndin
Ég horfi í spegil og brosi. Eða er þetta glott?
Ég horfi á sjálfa mig og finnst ég ekki hafa breyst svo rosalega mikið þó að ég hafi vissulega elst, teygst og togast aðeins til.
Komplexar yfir of stóru nefi og unglingabólum sem prýddu nebbann og andlitið í heild sinni eru liðin tíð.
Hárið á mér hefur verið stuttklippt frá því daginn eftir að ég gekk til altaris tæplega fjórtán ára gömul. Það tók upp á því að dökkna með hraði fyrir u.þ.b. sex árum. Ég lita það ekki en blásarinn fer á loft eftir morgunsturtuna og svo ýfi ég það aðeins með vaxi. Pínu eitís. Ég er sátt við það.
Augabrúnirnar mínar koma hins vegar hvor úr sinni áttinni og gætu þess vegna tilheyrt tveimur ólíkum aðilum. Ég læt laga þær öðru hvoru en of sjaldan.
Stundum hefur hárvöxtur á efri vörinni truflað mig en ég kippi búkonuhárunum í burtu þegar ég sé þau. Ég hef alltaf notað ódýrt en hentugt rakakrem og meiköpp hversdagsins er augnblýantur, maskari og stundum varalitur.
Ég er eiginlega strákastelpa (afsakið, en orðið „strákakona“ bara virkar ekki).
Ég man þegar fullorðin frænka mín hvíslaði því vingjarnlega að mér þegar ég var unglingur að ég fengi karlmannlegan vöxt við það að stunda handbolta. Það gat ég ekki skilið og hélt því áfram að æfa. Mér hefur oftar en ekki þótt ég aðeins of þung og hef misst fáein kíló upp á síðkastið. Ég er ánægð með það.
Hrukkur, litarhaft og aukakíló verða augljós í spegli en hvað ef ég segði söguna á bak við hvert kíló og brandarann á bak við hverja hrukku?
Um daginn las ég um konu sem hafði slegið brosum og hlátri á frest í fjörutíu ár til að forðast hrukkur. Mér þætti eins gáfulegt að taka annan fótinn af við hné til að koma í veg fyrir hælsæri.
Ég er reyndar sátt við brosið mitt. Það sýnir minn innri mann og undirstrikar stundum húmor sem ber vissulega ábyrgð á nokkrum hrukkum. Ég brosi líka til merkis um ást og hlýju og þó að augun sitji víst fremur djúpt í augntóftunum á mér þá brosa þau oft sínu blíðasta og það er bara svo gott að brosa og hlæja.
Ég fyllist engri skelfingu þó þessi 51 árs gamla kona í speglinum sé eldri en hún var. Hún á sér sögu. Hver brosvipra er upprifjun á því sem var eða upphaf að einhverju nýju og það er svo skrýtið að ég virðist þrá nýjar sögur og ævintýri óháð öllu öðru.