Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þrusufundur 8. mars í Iðnó

$
0
0

Feminismi gegn fasisma var yfirskrift árlegs baráttufundar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti sem haldinn var í Iðnó í gær. Fundurinn var vel sóttur og þótti almennt öflugur og skemmtilegur. Þær Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir og Drífa Snædal fluttu framsögu um umræðuefni ársisns – „Feminismi gegn fasisma“ – hver með sínum hætti. Hljómsveitin Eva spilaði stórskemmtileg lög, meðal annars um sjálfstæðar sjarmerandi konur, við frábærar viðtökur fundargesta. Að tónlistaratriðinu loknu stýrði dr. Gyða Margrét Pétursdóttir fjörugum pallborðsumræðum með ræðukonunum þremur ásamt Guðbjörgu Sveinsdóttur og Margréti Steinarsdóttur.

Þórhildur Sunna hóf máls og ræddi um veikleika stjórnkerfisins gegn fasískum elementum og nefndi dæmi um ólýðræðislega tilburði núverandi valdstjórnar. Hún varaði við því að fasísk öfl beittu í auknum mæli fyrir sig meintum feminisma sem yfirskin til þess að dreifa út hatursboðskap sínum. Þá vildi hún meina að þörf væri fyrir sterkari lagalegar og hugmyndafræðilegar varnir gegn fasisma á Íslandi:

„En eyjan okkar stendur berskjalduð frammi fyrir hugmyndafræði hatursins. Við höfum ekki lært af biturri reynslu hvaða ömurð fasisminn hefur í för með sér og höfum þar af leiðandi ekki komið okkur upp sterkum vörnum gegn alræðisstjórn líkt og löndin sem fengið hafa að kenna á hatrinu í sinni sterkustu mynd.

Teikn eru á lofti, sagan endurtekur sig og hatur, hræðsla og fordómar ryðja sér braut í hugum jarðarbúa á ný. Þar er Ísland engin undantekning. Þegar þannig er ástatt er fátt mikilvægara en sterkar hugmyndafræðilegar og lagalegar varnir gegn alræði ótta og haturs.“

Sólveig Anna taldi misskiptingu auðs vera rót vandans og baráttuna við auðvaldið því nauðsynlega til þess að vinna gegn uppgangi fasisma. Þá taldi hún hefðbundna nýfrjálshyggjuflokka hafa brugðist almenningi sem leiti i í auknum mæli á náðir popúlískra fasistaflokka til þess að fá úrlausn sinna mála:

„Örvæntingarfullir kjósendur í Evrópu og víðar gefast upp á falslýðræði nýfrjálshyggjunnar, þar sem kapítalistarnir hafa í raun tekið sér einræðishlutverk, treysta ekki lengur loforðum hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka, sem hafa enda svikið öll loforð aftur og aftur. Í sjúkri veröld nýfrjálshyggjunnar verður til sjúkt samband á milli óöruggra kjósenda, fasista og plútókrata. Í sjúkri veröld gerast ömurlegir hlutir, örvænting fær fólk til að taka ömurlegar ákvarðanir.

Það er ekkert sjálfsagt við það að fasismi njóti vinsælda eða sé óumflýjanlegur. En ef aðstæður halda áfram að versna, ef auðvaldið heldur áfram á sinni glæpaför og samfélög halda áfram að hnigna er ekkert ólíklegt að kapítalistarnir snúi sér í auknum mæli til fasískra afla til að tryggja hámörkun gróðans.“

Drífa Snædal ræddi um hin ýmsu verkfæri sem feminisminn hefur upp á að bjóða til þess að berjast gegn fasisma. Þar nefndi hún sérstaklega hugmyndafræði sem auðveldaði okkur að greina misskiptingu og ójafnrétti og aðferðafræði femínismans til þess að berjast gegn því. Hún ræddi einnig auknar vinsældir Svíþjóðardemókratanna í Svíþjóð sem hún kallaði götustráka í jakkafötum.

Pallborðið tók síðan við spurningum og athugasemdum úr salnum og meðal annars var rætt um að æskilegt væri að taka yfir Útvarp Sögu, að róttæk stéttabarátta væri nauðsynleg til þess að verja fasisma, að valdstjórnin og stjórnsýslan þyrftu nauðsynlega á símenntun í mannréttindum að halda og að feminisminn hefði yfir upp á fjölda verkfæra að bjóða í baráttunni við fasismann.

Ræðu Sólveigar Önnu má nálgast hér og ræðu þeirra Þórhildar Sunnu má finna hér að neðan. Þess er vænst að ræða Drífu birtist á vefnum Knuz.is næstkomandi miðvikudag. Fundurinn var tekinn upp og upptökur verða aðgengilegar á netinu fljótlega.

Ræða Þórhildar Sunnu 8. mars í Iðnó

Ræða Sólveigar Önnu 8. mars í Iðnó


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283