Þegar ég sá á föstudaginn var að hinn merki heimildarmyndagerðarmaður Albert Maysles væri látinn þá fékk ég örlítinn sorgarsting í hjartað. Fyrir nær sjö árum síðan höfðum við nokkrir vinirnir orðið þess heiðurs aðnjótandi að sitja með honum að spjalli sem skildi eftir sterkar minningar hjá okkur öllum.
Forsaga þess var að við höfðum frétt að Albert myndi koma til landsins sem heiðursgestur á heimildarmyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirði sem var mikill fengur í ljósi áhrifa Alberts og bróður hans, Davids, á heimildarmyndagerð. Maysles-bræðurnir voru nefnilega með mestu áhrifavöldum á sköpun formsins sem kallast „cinema verité“ þar sem myndavélinni er aðeins ætlað að fylgjast með fólki og atburðum gerast líkt og fluga á vegg án afskipta heimildarmyndagerðarmannsins með spurningum og sviðsetningum hvers konar. Það var því tekin sameiginleg ákvörðun í vinahópnum, sem hafði ástríðu fyrir heimildarmyndum, að fara á hátíðina og ekki nóg með það heldur tókst okkur að fá að taka útvarpsviðtal við hann fyrir þáttinn Kviku sem Sigríður Pétursdóttir var með á gömlu Gufunni.
Morguninn eftir að fullur bíósalur af fólki hafði horft á eina þekktustu mynd Maysles-bræðranna: Gimme Shelter og hlýtt á Spurt og svarað við hann þá mættum við vinirnir á lítið, vinalegt gistiheimili til að taka viðtalið sem okkur hafði verið tjáð að við fengjum bara takmarkaðan tíma fyrir þar sem hann þyrfti að ná flugi upp úr hádegi. Við settumst inni í stofu með þessari goðsögn sem hafði nýlokið við morgunmat og var frekar afslappaður í hægindastól.
Viðtalið sem slíkt hófst með spurningum út frá lífshlaupi Alberts frá upphafi. Albert hafði verið í lok seinni heimsstyrjaldar í skriðdrekahersveit eftir uppvaxtarár sín í Boston og eftir stríð lærði hann sálfræði. Það nám leiddi til þess að hann fór til Rússlands þar sem hann tók upp stutta heimildarmynd um geðlækningar þar og fékk kvikmyndagerðarbakteríuna í kjölfarið.
Þetta leiddi til þess að þeir bræðurnir ákváðu að gera mynd saman þar sem þeir ferðuðust á tímum kalda stríðs og kommagrýlu austur fyrir járntjaldið á mótorhjóli og tóku viðtöl við ungt fólk þar í gegnum ævintýralega ferð sem endaði í Moskvu. Afraksturinn varð svo myndin Youth in Poland sem sýnd var í sjónvarpi og átti sinn þátt í að Maysles-bræðurnir fengu stóra tækifærið, þeir fengu að vera hluti af hóp heimildarmyndagerðarmanna sem var að fara að taka upp útnefningu demókrata á forsetaefni sínu árið 1960 þar sem John F. Kennedy átti eftir að verða sigurvegari.
Heimildarmyndin Primary sem til varð upp úr því er minnst sérstaklega fyrir tvennt: útbúnar voru léttari tökuvélar en áður þekktist þannig að tökumenn gátu gengið með þær og fylgt eftir fólki sem leiddi til hins atriðisins þ.e. að myndin varð nánari en áður þekktist þar sem „cinema verité“-forminu var beitt.
Nokkrum árum síðar stofnuðu Maysles-bræðurnir fyrirtæki saman og hófust handa við að gera myndina Showman sem var ágætlega tekið og vakti athygli þótt bræðrunum hafi fundist hún þá vera fulldýr fyrir sig sem atvinnuauglýsingu þar sem tilboðin streymdu ekki beint inn í kjölfarið. Einn daginn hringdi síminn á skrifstofu þeirra og David tók símann sem miðað við lýsingar Alberts innihélt mikið af einsatkvæðisorðum af hálfu Davids þar til að hann setti höndina yfir símann, sneri sér að honum og spurði:
„Who the fuck are the Beatles and are they any good?“
Í kjölfarið á þessu símtali fylgdu þeir bræður eftir Bítlunum í Bandaríkjunum með skömmum fyrirvara og unnu þar heimildarmynd sem sýnd var í sjónvarpi þar vestra. Eftir það fylgdu þó nokkrar stuttar myndir í kjölfarið um fræga einstaklinga s.s. Marlon Brando, Orson Welles og Truman Capote. Þeir bræður náðu þó að vekja talsverða athygli fyrir myndina Salesman þar sem þeir fylgdu eftir farandsölumönnum sem voru að reyna að selja rándýrar Biblíur til fólks sem hafði ekki mikið á milli handanna.
Næst kom svo myndin sem átti eftir að verða önnur af þeirra þekktustu myndum og umdeildustu verkum fyrir ýmsar sakir: Gimme shelter um Rolling Stones-tónleikana í Altamont þar sem Hell‘s Angels, sem sáu um öryggisgæsluna, myrtu mann og atvikið náðist á filmu úr fjarska. Hörð gagnrýni kom fram á að þeir bræður sýndu það í myndinni og af hverju tökumenn komu ekki til aðstoðar en eins og Albert sagði þá var ekkert hægt að gera, tökumenn voru í talsverðri fjarlægð og það áttaði sig enginn á því hvað var að gerast. Aftur á móti töldu þeir sig ekki geta sleppt þessu úr myndinni enda var þetta atvik það sem innsiglaði ímynd ljótleikans við þessa tónleika Rolling Stones líkt og þeir sjálfir innsigluðu í raun endalok sakleysis blómabarnatímabilsins.
Reyndar sagði Albert það á sviði Skjaldborgarbíós og ítrekaði við okkur vinina að þó að það hafi verið dregin upp allt önnur mynd af þessu tímabili í myndinni sem gerð var um Woodstock þá sagði hann að sömu hlutir hafa verið í gangi þar og í Altamont: fólk ráfandi um eða liggjandi útúrdópað og drukkið án þess að vita í hvaða heimi það væri og ýmiss konar annar ljótleiki sem var sleppt að sýna því það stemmdi ekki við ímyndina sem hafði skapast í kringum Woodstock.
Við gátum þó ekki hætt að tala um Gimme shelter fyrr en við fengjum svar við einni spurningu og það er hvernig hefði það nú verið að vinna með ungum manni þar sem hét George Lucas. Þá glotti nú Maysles aðeins þegar hann sagðist nú hafa voðalega lítið að segja um hann, hann hefði nú bara verið einn tökumaðurinn og þegar farið var að skoða afraksturinn hans þá kom í ljós að nær allar tökurnar hans hefðu verið meira og minna ónothæfar vegna þess að George hefði klúðrað hlutunum allrækilega. Þó var ein sena nothæf frá honum og það varð að einni frægari senu myndarinnar í lokin þegar tónleikagestir taka saman föggur sínar og ráfa nær rænulausir á brott í skjóli nætur þar sem birtan frá tónleikasvæðinu gefur þeim svipbragð uppvakninga sem segja við mann að tímabilið sé búið líkt og þegar Peter Fonda sagði í Easy rider:
„You know Billy, we blew it.“
Hin af tveimur frægustu myndum (og einnig umdeild) Maysles-bræðra var svo myndin Grey gardens þar sem fylgst var með tveimur, vægast sagt, sérvitrum frænkum Jackie Kennedy sem bjuggu saman í niðurníddu húsi umkringdar rusli og sóðalegheitum. Þar var þeim frænkum fylgt eftir með hætti „flugu á vegg“-aðferðarinnar og myndin sem varð til var átakanlegur vitnisburður um manneskjur sem búa saman í sérkennilegri sambúð þar sem þær báðar láta sig dreyma um löngu liðna fortíð sem er á skjön við niðurníðsluna í núinu. Grey gardens var vel tekið þrátt fyrir að bræðurnir fengju einhverja gagnrýni á sig og voru sagðir vera að misnota sér veikar manneskjur sér til frægðar, nokkuð sem þeim fannst ekki á rökum reist í ljósi þess að þeir nálguðust þær með ákveðinni virðingu fyrir umfjöllunarefninu. Seinna meir átti Grey gardens eftir að verða að söngleik og svo sjónvarpsmynd þar sem Jessica Lange og Drew Barrymore léku frænkurnar.
Þeir bræður áttu svo eftir að gera fjölmargar myndir saman og taka upp fullt af efni saman s.s. tökurnar um boxbardagann fræga í Zaire milli Muhammed Ali og George Foreman sem var notað svo í myndinni When we were kings og þó nokkrar myndir um listamanninn Christo sem skapaði landslagslistaverk. David lést árið 1987 og Albert sneri sér þá meira að framleiðslu og tökum heldur en að gera myndir sjálfur.
Eftir að viðtalið hafði teygst langt yfir gefinn tíma þá vorum við búnir með spurningar og ætluðum að gera okkur ferðaklára en þessi gamla goðsögn heimildarmyndageirans var nú ekki á því að hætta að spjalla við okkur heldur hélt hann áfram eftir að búið var að slökkva á hljóðnemanum. Að sumu leyti má segja að hlutverkin hafi snúist við þar sem hann spurði okkur út í ýmislegt s.s. áhugann á heimildarmyndum, kvikmyndagerð og fleira með tilheyrandi skemmtilegu spjalli þar sem hann kom með ráðleggingar og vangaveltur um gerð heimildarmynda.
Hann sagði okkur svo frá því að hans helsta verkefni núorðið væri að koma ungum og áhugasömum heimildargerðarmönnum á kortið, var sjálfur nýbúinn að koma af stað styrktarsjóði í Harlem fyrir slíka og sagðist vilja reyna gera sitt til að ýta undir gerð mynda sem honum þótti áhugaverðar og hæfileikar á bak við. Tiltók hann dæmi um mynd sem hann hafði aðstoðað við og heitir On common ground um þýska og bandaríska hermenn sem börðust í Normandí og hittust svo þar rúmum 50 árum síðar. Hann varð reyndar nokkuð hissa og maður skynjaði ánægju af hans hálfu þegar kom í ljós að við höfðum séð þessa mynd sem fór ekki mikið fyrir þó góð væri.
Þegar spjallinu vatt meir áfram þá varð manni þó sífellt ljósara að þarna var á ferð maður sem hafði áhuga á og ást á fólki og öllu tengt hegðun þess, nokkuð sem mann grunar að hafi leitt hann út í sálfræðina á sínum tíma. Það varð kannski bersýnilegast þegar hann hóf að segja okkur frá verkum sem hann var með í vinnslu þar sem hann tiltók tvö verk af nokkrum. Önnur myndin sem hann hafði í huga átti að reyna að fanga einlægustu hugrenningar og gullkorn barna sem þau láta út úr sér ótilneydd. Hann tjáði okkur að þetta verk yrði tímafrekt því hann væri þegar búinn að eyða þó nokkrum skemmtilegum klukkutímum við það að sitja með tökuvél í barnahópi í von um að ná kannski örfáum setningum.
Hin myndin sem hann sagði okkur frá að hann væri byrjaður að gera var ferðamynd þar sem hann talaði við fólk í lestum þvert yfir Bandaríkin um för þeirra og söguna á bak við. Þar sagðist hann vera nýhafinn við tökur og hefði náð að taka upp áhugaverðar sögur um manneskjur og mannlíf sem gerði þetta að spennandi verkefni þar sem fólk virtist tilbúið til þess að opna sig á margra klukkustunda lestarferðalagi við ókunnugar manneskjur um ýmislegt. Sú mynd, sem fékk heitið In transit, varð að hans síðustu en hún verður frumsýnd á Tribeca-kvikmyndahátíðinni á þessu ári.
Stuttu síðar kvöddumst við nær tveimur tímum seinna og komnir í raun langt fram úr þeim tíma sem hafði verið ætlaður okkur af hans hálfu. Þessar tvær stundir skildu eftir hjá okkur öllum sterkar minningar um nokkurs konar afa margra heimildarmyndagerðarmanna sem fylgdu í spor þeirra bræðra en umfram allt minningar um mann sem hafði djúpan áhuga og ást á fólki líkt og samferðafólk hans hefur sagt um hann.
Hvíl í friði, Albert Maysles.