Guðmundur Guðmundsson skrifar:
Á þessu ári eru liðin fimmtíu ár frá upphafi „Milljónaverkefnisins“ í Svíþjóð. Verkefnið, sem kallast Miljonprogrammet á móðurmálinu, var eitt viðamesta húsbyggingarverkefni síðustu aldar á Norðurlöndum. Framkvæmdin hófst árið 1965 og lauk áratug seinna. Á þessu tímabili voru byggðar yfir milljón leiguíbúðir um alla Svíþjóð. Talan milljón þótti táknræn og í almannarómi festist það á framkvæmdinni. Í reynd varð þó endanlegur íbúðafjöldi um 1,3 milljónir að tölu.
Ráðist var í þetta stórvirki til að taka á miklum uppsöfnuðum húsnæðisvanda. Ástæðurnar voru margþættar. Stór „Baby boom“-kynslóð eftirstríðsáranna var að flytja úr foreldrahúsum. Fólksflutningar stóðu yfir frá dreifbýli til borga. Erfitt var að manna verksmiðjur vegna skorts á búsetuúrræðum fyrir verkafólk. Afleiðingin var búseta í heilsuspillandi húsnæði ásamt óöryggi og okri á leigumarkaði í þéttbýli.
Lausn stjórnvalda á vandanum var að sveitarfélög landsins sæju um að reisa leiguíbúðir sem væru ódýrar og hagkvæmar í byggingu og rekstri. Engu að síður vandaðar og vel skipulagðar til búsetu fyrir alla aldurshópa. Það sérstaka við hugmyndafræði milljónaverkefnisins var að íbúðirnar voru ætlaðar öllum þjóðfélagshópum.
Sænsk sveitarfélög litu sömu augum á þak yfir höfuðið og hverjar aðrar lífsnauðsynjar. Svo sem vatn og orku, vegakerfi og brýr ,skóla o.s.frv. Því var einnig talið í verkahring viðkomandi sveitarfélaga að hafa ávallt á boðstólum gott úrval af hentugum íbúðum í ýmsum stærðum fyrir þá sem kjósa leigu sem búsetuform.
Almenna reglan var að leigan á hverri íbúð færi ekki yfir fjórðung ráðstöfunartekna viðkomandi fjölskyldu. Stærri fjölskyldur fengu því húsnæðisstyrk sem var reiknaður út frá heildartekjum, fjölda barna og fermetrafjölda viðkomandi íbúðar. Með stöðluðum einingum, magninnkaupum og fjöldaframleiðslu var einingaverðum náð verulega niður. Þörfin á íbúðafjölda var metin út frá fólksfjölda á viðkomandi svæði og greiningu á framtíðarþörf.
Viðkomandi sveitarfélag lagði til lóðir undir byggingarnar og sá síðan um rekstur og viðhald húsakostsins. Til lengri tíma litið var þetta hagkvæmt fyrir sveitarfélögin. Þau höfðu hóflegar en stöðugar tekjur af rekstri íbúðanna og fengu þannig upphaflegt lóðarverð til baka með hagnaði. Lífeyrissjóðir landsins fjármögnuðu framkvæmdina. Íbúðirnar voru upphaflega ekki ætlaðar sérstaklega fyrir láglaunafólk, eða aðra afmarkaða þjóðfélagshópa. Þess vegna mynda milljónir leigjenda íbúðanna í dag þverskurð af þjóðfélaginu. Yfir heildina eru félagsleg vandamál almennt svipað hlutfall og í fjölbýlishúsum með öðrum búsetuformum.
Með þessu framtaki slógu Svíar margar samfélagsflugur í einu höggi: Milljónaverkefnið hefur gegnum tíðina verið eins og sveiflujafnari á húsnæðismarkaði landsins. Alla tíð hefur hefðbundinn húsnæðismarkaður (séreign) þrifist við hliðina á sænskum leigumarkaði. Alþýðan átti kost á ódýru og öruggu húsnæði, og gat því myndað sparnað og eign t.d. á hlutabréfamarkaði. Þess vegna greiddu Svíar hærri skatta en í öðrum löndum þar sem almenningur var illa aflögufær vegna sligandi húsnæðiskostnaðar. Hóflegur húsnæðiskostnaður bætti kaupgetu almennings, sem var efnahagslega jákvæð.
Milljónaverkefnið er líka skólabókardæmi um að eðlilegur „not for profit“-leigumarkaður útilokar ekki á neinn hátt húsnæðismarkað fyrir sérbýli. Algengt var að sænsk sveitarfélög byggðu leiguíbúðir þegar efnahagur landsins var í lægð. Þannig fengust lág einingarverð og hiti á byggingarmarkaði hélst yfir frostmarki. Leiga á nýbyggðum íbúðum var innann velsæmismarka. Þetta fyrirkomulag dró úr ýktum sveiflum á íbúðamarkaði, sem er þjóðhagslegur skaði þegar fasteignabólur springa.
Upphaflega var þverpólitísk sátt um þetta stórvirki, og fram undir lok síðustu aldar var haldið áfram uppbyggingu á leiguhúsnæði eftir sömu formúlu. Upp undir aldamót var enn tiltölulega auðvelt fyrir almenning að komast í öruggt leiguhúsnæði, jafnvel í þéttbýlustu borgum landsins.
Kringum aldamótin síðustu urðu straumhvörf í sænskri húsnæðispólitík. Nýlíberalisminn hélt innreið sína eins og víðast um vesturlönd. „Frjáls markaður“ átti að útvega almenningi ódýrt húsnæði. Milljónaverkefnið var talið tákn gamalla tíma og tók á sig mynd skötulíkis. Tveimur áratugum síðar eru afleiðingarnar af þessari stefnubreytingu komnar í ljós. Fasteignabóla geisar í stórborgum landsins. Íbúðarverð er komið upp úr öllu valdi. Leigusamningar fyrir íbúðir í miðborgum eru seldir fyrir offjár á svörtum markaði. Ungt fólk býr í foreldrahúsum fram undir fertugt.
Í stórborgunum heyrast nú æ háværari raddir ungs fólks og annarra sem eru úti í kuldanum í húsnæðismálum.
Þeirra krafa er að stjórnvöld byrji á nýju milljónaverkefni. Rök þeirra er reynsla síðustu áratuga. Hún sýnir að markaðurinn útvegar ekki almenningi ódýrt húsnæði af sjálfsdáðum.
Meðan uppbygging milljónaverkefnisins í Gautaborg stóð sem hæst gerði BBC stutta heimildarmynd um milljónaverkefnið. Hana má sjá hér: