Nanna Kristín Magnúsdóttir leikkona og handritshöfundur leit í spegil að beiðni Kvennablaðsins:
Ég er með tvo spegla heima hjá mér. Annan á baðinu og hinn við útidyrnar, þeir eru báðir litlir og spegla aðeins niður á bringu. Auðvitað get ég staðið uppi á stól og speglað aðra líkamshluta en þess gerist sjaldan þörf. Ég fer reglulega í sund og þá speglast öll heila dýrðin.
Spegilmyndin á baðinu er oftast ég nývöknuð eða ég að leggjast til hvílu. Þá er andlitið yfirleitt frekar þrútið, það hefur sína kosti og galla, bagalegt í kringum augun en bara frekar sexí að vera með þrútnar varir. Ég er heppin með húð, hún er mjúk og glóir. Það eru komnar hrukkur í kringum augun og broshrukkur. Ég las einhvers staðar að það sé merki um þroska, reynslu og gleðilegt líf.
Ég hef nú ekkert endilega verið að springa úr hlátri allt mitt líf eftir misgáfulegar reynslur sem ég var allt of lengi að læra af og því frekar seinþroska, svona í andlegum skilningi. En ef það þarf að réttlæta tilvist hrukknanna þá mega spekingarnir nota þessa skýringu eins og hverja aðra.
Hins vegar eru rákirnar upp af efri vörinni aðeins merki um of margar Capri í gegnum tíðina, hefði mátt hætta þeim ósið fyrr. Ég brosi í spegilinn við útidyrnar þegar ég fer út í daginn, ég er með bjart bros, fallegar og heilbrigðar tennur og þykkt ör á efri vörinni sem gefur munnsvipnum smá karakter.
Í stóra speglinum í sundlauginni er ýmislegt hægt að skoða, spá og spekúlera í. Mikið af fæðingarblettum, meira vinstra megin. Tvö ör á maganum, annað er eftir tvo keisaraskurði en hitt er mun stærra og meira áberandi, eftir botnlangaskurð þegar ég var 10 ára. Djúpur skurður og brussulega gengið frá saumunum. Það eru sýnileg slit. Ekki falleg og dramatísk á maganum eftir barnsburð heldur á lærunum eftir ár sem skiptinemi í USA. Peanut butter and jelly sandwiches á hverjum einasta degi í heilt ár var ekki skynsamlegt.
Ég er með grannt mitti, lendarfögur og efni í kúlurass sem Kim Kardashian yrði stolt af. Fólk segir að ég sé með löguleg brjóst, ég þakka pent fyrir það.
Það sem mætti laga við spegilmyndina er hárið. Það er illa farið eftir aflitanir, heillitanir, miklar túberingar og hárspray fyrir hlutverk í leikhúsi og kvikmyndum síðastliðin ár. Annars er ég bara assgoti sátt við spegilmynd mína, ég brosi breitt, hristi kroppinn og kvenlegu línurnar rokka feitt.