Nýverið birti breska lyfjaverslunin Superdrug samantekt um fjölda greindra kynsjúkdómasmita í Evrópu og Bandaríkjunum. Niðurstöðurnar voru sláandi, en þar eru Íslendingar efstir á lista fyrir þrjá kynsjúkdóma; klamydíu, lifrarbólgu B og C ásamt því að komast í þriðja sætið í tíðni greindra tilfella kynfæravartna.
Eðli málsins samkvæmt voru margir slegnir yfir þessum fréttum og samantektinni var víða deilt inn á samfélagsmiðlum Íslendinga. Ekki er þó allt sem sýnist eins og Kvennablaðið komst á snoðir um er við ræddum við Guðrúnu Sigmarsdóttur, sérfræðing hjá sóttvarnalækni, um niðurstöður samantektarinnar.
Kynhegðun ungra Íslendinga skýrir að hluta tíðni klamydíusmita
Guðrún sagði embætti sóttvarnalæknis meðvitað um háa tíðni klamydíusmita á Íslandi og gekkst við því að Íslendingar væru því miður réttmætir handhafar efsta sætis á tíðni klamydíusmita í Evrópu. Aðspurð hvað valdi því að klamydía reynist svo algeng meðal Íslendinga sagði hún ýmislegt koma til.
Í fyrsta lagi væru Íslendingar duglegri að greina og skrá kynsjúkdóma heldur en flest lönd innan Evrópu, það sama megi reyndar segja um hinar Norðurlandaþjóðirnar sem skýri að stórum hluta hvers vegna Norðurlönd sitja í fjórum efstu sætunum í tíðni klamydíusmita í samantektinni. Hins vegar verði einnig að líta til annarra þátta. Guðrún segir að nýleg rannsókn hafi leitt í ljós að tíðni klamydíusmita hjá eldri konum á Íslandi sé með svipuðu móti og á hinum Norðurlöndunum en að yngri konur greinist þeim mun oftar með klamydíusmit. Þessa niðurstöðu mætti að öllum líkindum skýra með breyttri kynhegðun ungs fólks á Íslandi, en í ljós hefur komið að ungmenni hér eiga að jafnaði mun fleiri rekkjunauta heldur en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum.
Þegar tölfræði sóttvarnalæknis um tíðni klamydíusmita eftir kyni eru skoðaðar má sjá mikinn mun á milli kynjanna. Þannig greinast fjögur til fimm hundruð fleiri tilfelli klamydíu hjá konum heldur en körlum á ári hverju. Guðrún sagði skýringuna á þessum mikla mun að karlar leiti síður til læknis heldur en konur og að konur væru líklegri til þess að gefa þvagsýni sem prófað yrði fyrir klamydíu til öryggis, til dæmis við meðgönguskoðanir. Þá væru karlar líklegri til þess að leita einungis til læknis ef einkenni sjúkdómsins gerðu vart við sig en þau eru alls ekki alltaf til staðar.
Guðrún var ekki meðvituð um sérstaka stefnu eða átak hjá embætti sóttvarnalæknis til þess að stemma stigu við þessum stóra fjölda klamydíusmita en samsinnti því að forvarnir væru vissulega mikilvægur liður í því að stemma stigu við frekari útbreiðslu sjúkdómsins. Henni var ekki heldur kunnugt um neinar rannsóknir sem gerðar hefðu verið um viðhorf ungs fólks til smokkanotkunar hérlendis, nema að því leytinu til að hún hafði heyrt að smokkar þættu „ekki kúl“.
Tölur um lifrarbólgu B villandi
Guðrún sagði tíðni lifrarbólgu B smita mjög lága á Íslandi. Hérlendis væru kannski að greinast tvö til þrjú tilfelli á ári og væri þá venjulega um smitaða einstaklinga erlendis frá að ræða. Hún sagði niðurstöður samantektarinnar um að Íslendingar tróni á toppnum í tíðni lifrarbólgu B smita skýrast af röngum talningaraðferðum sóttvarnalæknis þar til nýverið. Þannig hafi allir sem smitaðir væru af lifrarbólgu B verið taldir sem ný smit á hverju ári. Á meðan hin Evrópulöndin væru einungis að skila inn tölum um ný tilfelli hefðu Íslendingar skilað inn tölum um alla smitaða. Þetta hafi gefið mjög misvísandi mynd af ástandinu hérlendis og nú séu talningar komnar í rétt horf.
Lifrarbólga C herjar helst á sprautufíkla
Lifrabólga C er sjúkdómur sem leggst helst á sprautufíkla hérlendis sem og í annars staðar í heiminum. Guðrún vildi ekki fullyrða um hvort Ísland tróni raunverulega á toppnum í Evrópu án þess að skoða málið betur og niðurstöðum hennar má vænta hvað úr hverju hvað þetta varðar. Hins vegar væri alltaf erfitt að bera saman tölfræði sem þessa milli landa. Fjöldi þátta kæmi til skoðunar, meðal annars aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu, tíðni skimanna fyrir sjúkdómum og gæði þjónustu. Samantekt Superdrug tæki ekki tillit til þessarra þátta og því ekki hægt með góðu móti að sannreyna niðurstöðurnar án frekari rannsókna.
Rannsóknaraðferðir skipta máli
Það er ekki að undra að mörgum hafi verið brugðið við að sjá Íslendinga hljóta þann vafasama titil að vera efstir á lista í tíðni þriggja alvarlegra kynsjúkdóma. Eins og sjá má á þessum pistli ber þó að varast að taka rannsóknir sem þessar of alvarlega. Íslendingar eru vissulega duglegir að næla sér í klamydíusmit og þar hefur viðhorf íslenskra ungmenna til smokkanotkunar eflaust veruleg áhrif þó aðrir þættir spili inn í, eins og tíðni greininga og skráninga en það er dagljóst að við erum engir methafar í lifrabólgu B eins og tíðrædd samantekt vill láta í veðri vaka.
Staða okkar á lifrabólgu B listanum virðist mega rekja til undarlegra talningaraðferða sóttvarnarlæknis framan af en það hefur sem betur fer verið leiðrétt. Efsta sætið í lifrabólgu C gæti hins vegar verið áhyggjuefni þó að Guðrúnu þætti undarlegt að heyra að Íslendingar væru þar fremstir í flokki. Kvennablaðið mun upplýsa lesendur sínar um niðurstöður Guðrúnar um leið og þær berast okkur.