Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Dr Jekyll and Mr Hyde

$
0
0

Kvennablaðið birtir hér þýðingu á ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands sem hann flutti á litháíska þinginu þann 11. mars sl. í tilefni af 25 ára sjálfstæðisafmæli Litháen. Í sjálfsupphafinni ræðu fer forsetinn mörgum orðum um stuðning Íslendinga í sjálfstæðisbaráttu Litháa en minnist ekki orði á störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hefur hlotið æðstu viðurkenningar litháísku þjóðarinnar fyrir að hafa fyrstur erlendra ráðamanna tekið stöðu með baltnesku löndunum gegn ægivaldi Rússa. 

Ólafur dásamar í ræðunni hinar sjálfstæðu þjóðir Evrópu og aldingarða Evrópusambandsins, sem er sannarlega óvænt í ljósi þess sem allir vita að hann er harður andstæðingur sambandsins, hefur gert núverandi utanríkisráðherra að bréfdúfu sinni og á heimavelli sýnist hann helst vilja treysta böndin við stórveldi og umdeilda einræðisherra.

„Á óróatímum komum við saman til að staðfesta frelsi okkar, frjálsræði okkar, lýðræðislegt gildismat okkar; til að fagna því hvernig vilji fólksins sigraði að lokum járnhnefa harðstjórnar og kúgunar; til að lýsa yfir þeim staðfasta vilja að heiðra, nú og um eilífð, minningu þeirra sem báru vonarbálið í brjósti sér, þeirra sem öllu fórnuðu, jafnvel lífi sínu, til að færa þjóðinni sjálfstæði.

Þegar nær dró lokum aldar tveggja styrjalda og einræðisstjórna varð saga Litháens og Eystrasaltsríkjanna á síðasta áratugnum svo sem leiðarbál lýðræðislegrar byltingar, vettvangur þar sem þjóðhreyfingar, nærðar af menningu og minningum fyrri tíma, hófu til vegs nýtt tímabil í Evrópu og hinum vestræna heimi.

Þessi sögulega barátta, dagarnir dramaþrungnu í höfuðborg ykkar, í bæjum ykkar og héruðum, munu um eilífð lifa í hugum okkar og í minningu fólks hvarvetna sem sönnun þess að ekkert veldi er nógu sterkt til að sigra vilja sameinaðrar þjóðar, þess að hugsjón lýðræðis og frelsis mun að lokum fara með sigur af hólmi.

Atburðirnir við þessar krossgötur munu áfram bera þau boð sem Vytautas Landsbergis tjáði á svo snjallan hátt fyrir tuttugu og fimm árum þegar honum var boðið sem æðsta fulltrúa þjóðar ykkar að heiðra setningu Alþingis, íslenska þjóðþingsins, elstu löggjafarsamkundu heims.

Screenshot 2015-03-21 17.12.02

Aldrei fyrr í ríflega þúsund ára sögu hafði Alþingi boðið slíkum gesti að taka þátt í árlegri setningu sinni, en hann gekk með okkur sem íslenska þjóðin hafði kosið frá þinghúsinu að dómkirkjunni eins og venja er í landi mínu – fólksfjöldinn sem safnast hafði saman á torginu fagnaði hlýlega og af festu og lýsti með því þjóðarvilja sem síðan leiddi til þess að Ísland varð fyrsta landið til að viðurkenna algjört fullveldi Litháens, staðfesta fullt sjálfstæði ykkar; þjóðarvilja sem leiddi til þess fáeinum árum síðar að Ísland tók höndum saman við önnur Norðurlönd og Bandaríkin og studdi heilshugar aðild ykkar að NATO, stefna sem tryggði öryggi til frambúðar og aðeins fáeinar þjóðir innan Atlantshafsbandalagsins mæltu fyrir á þeim tíma.

Einhvern veginn hefur það gleymst að ekki voru allir fylgjandi þessum athöfnum, að margir hvöttu til varkárni og þolinmæði, en við gengum djarflega fram og síðar ákváðu aðrir að gera eins.

Þessar ákvarðanir sýndu gildi þess boðskapar sem Vytautas Landsbergis setti fram fyrir tuttugu og fimm árum í ávarpi sínu til íslensku þjóðarinnar, boðskapar sem er jafnsannur nú og hann var þá.

Hann lýsti því yfir að hann ætti sér draum, rétt eins og Martin Luther King, draum um að litlar þjóðir kæmu saman í virku bandalagi til mótvægis við yfirráð stærri velda. Smærri þjóðir gætu bjargað heiminum með því að rétta hver annarri hjálparhönd, því þær byggju yfir siðferðisstyrk, hugjóninni um lýðræði og frelsi allra, þær gætu látið til skarar skríða þegar aðrar væru fastar í neti landsyfirráða og tálsýninni um ævarandi heimsveldi.

Litlar þjóðir sækja innblástur í sameinaðan vísdóm kynslóðanna sem varðveittu loga frelsisins, í menningu sína og arf tungunnar, eiginleika sem lifðu af stríðsátök og erlenda kúgun.

Screenshot 2015-03-21 17.09.59

Eins og Landsbergis fullyrti varð draumur hans að veruleika með aðgerðum Íslands, minnstu Evrópuþjóðarinnar, á meðan aðrar létu áhyggjuefni hafa áhrif á sig sem stærri lönd vekja oft hvert hjá öðru.

Draumurinn leiddi litháísku þjóðina einnig áfram ásamt hinum Eystrasaltsþjóðunum í viðleitni ykkar til að tryggja örugga stöðu innan evrópufjölskyldu sjálfstæðra ríkja og að lokum aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Þegar aðrir fylgdu dæmi ykkar urðum við vitni að nýju tímabili í langri sögu Evrópu. Aldrei áður hafa svo margar smáar og meðalstórar þjóðir myndað mósaík meginlands sem áður þjáðist vegna átaka milli stórvelda, en hefur nú verið mótað af sameiginlegum vilja smærri þjóða, sem flestar mynduðu síðan NATO, þar sem Ísland hafði áratugum saman sem stofnfélagi tilheyrt yngri armi bandalagsins ásamt nokkrum öðrum.

Á þessari nýju öld hefur Evrópa í fyrsta sinn orðið að samveldi þar sem meirihluti ríkja eru litlar eða miðlungs stórar þjóðir, þar sem margbreytileiki er grunnurinn að vel heppnaðri framtíð; vonandi ekki skipulagt sem miðstýrt kerfi hraðbrauta, heldur sem lystigarður með mörgum lundum og flötum sem hver um sig skartar sínum eigin plöntum og blómum.

Ákvörðunin sem Ísland tók og hin vel heppnaða þróun Litháens og annarra Eystrasaltsríkja, ferðalag ykkar frá því þið fögnuðuð sjálfstæði til fullrar aðildar að NATO og Evrópusambandinu ber vott um það hvernig smærri þjóðir heims geta haft áhrif á sameiginlega framtíð sína, vísað veginn til umbreytinga og fært öllum lýðræði, frelsi og að lokum hagsæld og velferð.

Í Norður-Evrópu eru Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðirnar átta nú tengdar nánum böndum í gegnum margvíslegar stofnanir, svæðisbundin og alþjóðleg samtök og vinna á uppbyggilegan hátt að friði, öryggi framförum og löggæslu.

Fyrir okkur hefur þetta orðið að lifandi og hagnýtu norður-evrópsku bandalagi sem byggist á sögulegum tengslum okkar, sameiginlegum stuðningi okkar við mannréttindi, umburðarlyndi og virðingu fyrir mismunandi siðum og sannfæringu, og öðrum hefur það jafnt orðið fyrirmynd og áminning um að sannarlega geta þjóðir tekið höndum saman og leitað inn á nýjar brautir, innblásnar af norrænum arfi og afrekum Eystrasaltsbúa.

Því færi ég ykkur í dag staðfestingu á vináttu okkar, boðskap um samstöðu frá íslensku þjóðinni, fullvissu þess að bandalag okkar mun að eilífu eiga sér rætur í þeim sögulega tíma þegar viljinn til sjálfstæðis færði þjóðir okkar saman.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283