Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ástarbréf frá Pírötum til fylgismanna sinna

$
0
0

Fréttatilkynning:

Píratar þakka fyrir

Píratar eru djúpt snortnir og þakklátir yfir þeim stuðningi sem mælst hefur við flokkinn í skoðanakönnunum undanfarna daga. Það er magnað og óvænt að mælast allt í einu vinsælasti flokkurinn á Íslandi og áhuginn hefur skilað sér á áþreifanlegan hátt. Skráningar í flokkinn hafa rokið upp með þvílíkum krafti að við höfum vart undan að skrá nýja félaga.

Píratar hafa frá upphafi stefnt að því að vera lifandi og virkt lýðræðisafl sem er opið öllum sem styðja við grunnstefnu okkar og gildi og vilja koma upp á dekk með okkur. Höfuðstöðvar Pírata við Fiskislóð 31, Tortuga, iða af lífi og fjöri og framundan eru alls konar fundir og uppákomur sem nýliðar eru boðnir sérstaklega velkomnir á.

Virkt lýðræði byggist á virku fólki sem ræðir hlutina opinskátt og vinnur saman á málefnalegan og lýðræðislegan máta. Við viljum breyta stjórnmálunum á varanlegan hátt og stokka upp kerfin. Við viljum að það komi skýrt fram að við erum þriðja kyns flokkur sem staðsetur sig hvorki til hægri né vinstri.

Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru og hjá okkur er pláss fyrir fólk með alls kyns skoðanir en fyrst og fremst er það fólkið sem venur sig á að hugsa út fyrir kassana sem finnur sig best hjá okkur. Píratisminn er og verður píratismi og það er ánægjulegt að sjá hversu margir virðast fatta hann og kunna að meta hann.

Einn liður í þankagangi okkar og starfsemi er að vera óhrædd við að setja fram okkar hugmyndir og vangaveltur og taka okkur síðan tíma í að ræða þær og melta, bæði okkar á meðal og við almenning og önnur stjórnmálaöfl. Hugmyndin um einhvers konar stjórnarsáttmála eða leikreglur sem gengist er við fyrir kosningar var sett fram í þeim anda. Grunnstefna Pírata felst í að vernda borgararéttindi og efla lýðræðið og Píratar munu halda áfram að starfa með öllum almennt að því marki á sínum forsendum.

Við erum ennþá rótföst og jarðtengd og gerum okkur grein fyrir að við erum glæný og með smá vaxtaverki en viljum beita athyglinni sem við fáum til að knýja fram breytingar. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að flokkarnir vinni að því að endurheimta traust kjósenda með því að fara eftir skýrum og gagnsæjum leikreglum á heiðarlegan og opinn hátt. Við lítum ekki á flokka sem heilagar stofnanir, heldur verkfæri til að koma vilja grasrótar okkar á framfæri. Ykkar er að forgangsraða með okkur hverju þið mynduð vilja sjá Alþingi einbeita sér að.

Ófrávíkjanleg grundvallarstefna okkar verður alltaf lýðræðisumbætur og þar byrjum við heima hjá okkur. Við höfum búið til verkfæri fyrir alla sem heitir Öryggisventilinn (www.ventill.is), þar sem almenningur getur veitt þingheimi aðhald með því að gefa álit sitt á þingmálum. Þetta verkfæri, sem önnur, nýtist ekki almennilega nema fólk noti það. Við búum til verkfæri handa öllum óháð því hvaða stórnmálaskoðanir fólk hefur eða hvaða flokka það styður.

Við lítum á bylgjuna sem er með okkur sem lýðræðisbylgju fyrst og fremst – brennandi áhuga stórs hluta Íslendinga á heiðarlegum stjórnmálum sem almenningur getur verið með í á sínum forsendum. Hvernig sem fylgi okkar þróast og hver söguleg örlög okkar verða er ljóst að þessi flóðbylgja er komin til að vera og verður ekki stöðvuð.

Við hefðum ekkert á móti því að nýir valkostir við fjórflokkinn kæmu fram á næstunni sem og skýr almennur vilji til alvöru breytinga. Píratar lofa að breytast ekki í hrokafulla valdastofnun, heldur halda áfram að gera tilraunir, gera mistök, læra af reynslunni og fikra sig áfram en umfram allt leyfa öllum að vera með sem elska Píratakóðann. Vertu með!

Ást og friður,

Píratar

Grunnstefna: http://www.piratar.is/stefnumal/grunnstefna/
Píratakóði: http://www.piratar.is/stefnumal/piratakodinn/
Öryggisventill: https://www.ventill.is/
Betra Ísland: https://www.betraisland.is/
Hvað á að fara á dagskrá Alþingis: https://piratar.betraisland.is/


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283