Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Uglan hennar Birtu

$
0
0

Fatahönnuðurinn og listakonan Birta Björnsdóttir er búsett á Spáni í bænum Fontpineda sem er uppi í fjöllum í um það bil 40 kílómetra fjarlægð frá Barcelona. Birta er gift Jóni Páli Halldórssyni og eiga þau tvö börn. Á heimili þeirra hjóna eru mörg óvanaleg dýr og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er lítil ugla sem er karlkyns og heitir Uglus. Við forvitnuðumst um ugluhaldið og náðum í Birtu í örstutt spjall.

Nýfæddur og situr pollrólegur.

Nýfæddur og situr pollrólegur.

Hvernig kom það til að þið fenguð ykkur uglu sem gæludýr?

Ja, ég fékk hana í afmælisgjöf frá manninum mínum. Reyndar fékk ég dularfullan kassa í afmælisgjöf frá honum … dró upp úr honum miða sem stóð á: „Ég er pakkinn þinn … það er verið að búa mig til og ég verð ekki tilbúin fyrr en eftir 3 vikur … stundum má geyma mig úti, en bara á Spáni … ég er mochuelo-smáugla og fæðist eftir 10 daga.“

Ég hef alltaf verið dýrasjúk og sérstaklega sjúk í svona óvenjulegri gæludýr. Mér hefur alltaf þótt uglur alveg einstaklega dularfullar og fallegar – en aldrei datt mér í hug að ég ætti eftir að eignast eina. En þar sem við búum hér á Spáni finnst okkur að við þurfum að nýta tækifærið og fá að upplifa að eiga dýr sem við getum ekki átt heima á Íslandi.

Börn Birtu Stormur Björn Jónsson og Ylfa Vár Jónsdóttir með Uglus litla en það heitir hann.

Börn Birtu  og Jóns Páls Stormur Björn Jónsson og Ylfa Vár Jónsdóttir með Uglus litla en það heitir hann.

Eru uglur vinsæl gæludýr á Spáni þar sem þið eruð búsett?

Nei, alls ekki, þetta þykir alveg jafn merkilegt hér eins og á Íslandi. Uglur eru ekki seldar í gæludýrabúðum heldur þarf að kaupa þær hjá löggildum ugluræktanda. Þessi kom alla leið frá Alicante og við fengum hana senda til okkar um mánaðargamla.

Uglus aðstoðar á vinnustofunni.

Uglus aðstoðar á vinnustofunni.

Tengist þetta eitthvað Harry Potter, þar sem krakkarnir eiga allir uglur? Eruð þið Harry Potter-aðdáendur?

Nei, við erum ekki Harry Potter-aðdáendur.

Hvernig annast maður uglu?

Ja, hún þarf að sjálfsögðu að hafa mjög stórt búr. Við erum með stóran garð hér og smíðuðum þar svona hálfpartinn eins og aviary, þar sem hún getur flogið um. Við tökum hana inn oft á kvöldin og leyfum henni bara að fljúga lausri um húsið. Við höfum staðið hana að því að vera að stela mat af matarborðinu hjá okkur eða leika sér með nammibréf. Svo eigum við lítinn uglubangsa sem hún elskar að drösla um!

Með matarafganga í eldhúsinu.

Með matarafganga í eldhúsinu.

Nú eru uglur ránfuglar, eru þær heppileg gæludýr?

Uglur eru ekki talin „gæludýr“ og þeir sem eiga uglur eru nær alltaf fólk sem stundar „Falconry“. Þetta er meira tómstundagaman og sport fyrir þetta fólk, þar sem markmiðið er að temja fuglana. Þess má geta að á Spáni eru yfir 5.000 manns sem stunda Falconry og innan þessa hóps er deilt vitneskju og þekkingu miðlað. Til að vera löglegur eigandi ránfugls þurftum við að fá kennslu frá reyndum Falconer, kaupa fuglinn frá löglegum ræktanda og sækja um sérstakt leyfi frá hinu opinbera. Þessi ugla sem við eigum er ein minnsta uglutegundin. Þessi tegund kallast Little Owl eða Athene Noctua. Stærðin skiptir að sjálfsögðu máli því hún er meðfærilegri svona lítil, borðar minna, skítur minna og er með minni klær. Þetta er rándýr með mjög villt eðli og því þarf að koma þannig fram við hana. Þetta er ekki dýr til að hafa í búri inni í stofu.

Uglus hæstánægður með pylsubita.

Uglus hæstánægður með pylsubita.

Er hægt að temja uglur?

Já, við höfum aðeins verið að temja okkar, við gerum visst hljóð þegar við gefum henni að borða sem hún tengir þá við matinn og hún fær bara að borða á hendinni okkar. Nú er hún farin að fljúga á hendina okkar til að fá að borða. Stærri uglur er hægt að temja til veiða. Þetta byggist mikið líka á því að uglan venjist þér og því sem þú ert að gera.

Hvað borða uglur?

Þær borða t.d. mýs, hamstra, rottur, kornhænur, snigla, eðlur og ýmis skordýr eins og engisprettur. Við eigum einmitt kameljón sem borðar bara lifandi engisprettur, (erum með sér búr fyrir þær … og þær þurfa að fá að borða líka) en uglan okkar elskar að elta þær á stofugólfinu okkar.

IMG_1810

Þið eruð með fleiri dýr fyrir en uglu og kameljón, hvaða? Og hvernig gengur sambýlið við hin dýrin?

Já, við erum einnig með tvo Perúska-naggrísi (þeir eru síðhærðir) og svo einn fisk. Við áttum skjaldböku en hún slapp út hjá okkur og er áreiðanlega að lifa góðu lífi einhvers staðar í þessum paradísargarði. Dýrunum semur vel en við myndum ekki skilja minnsta naggrísinn eftir með ugluna lausa:)

Nagrísirnir.

Nagrísirnir.

Með þessum orðum kvöddum við Birtu og dýraparadísina hennar en við ætlum að heyra í henni fljótt aftur og fá þá að fræðast um hönnun hennar og listsköpun.

unnamed (2)


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283