Ég var svo heppin að vera boðið á forsýningu nýjustu kvikmyndar Dags Kára Péturssonar, Fúsi. Ég vissi ekki við hverju var að búast en myndin kom mér skemmtilega á óvart. Myndin verður frumsýnd föstudaginn 27. mars.
Fúsi er fertugur maður sem býr ennþá heima hjá mömmu sinni. Hann vinnur hefðbundinn vinnudag og ver frítíma sínum helst í að leika sér með dót úr seinni heimsstyrjöldinni. Dagar Fúsa eru fremur tilbreytingarlausir þangað til að inn í líf hans rata tvær manneskjur, annars vegar lítil stúlka sem flytur í blokkina hjá honum og hins vegar Sjöfn sem hann kynnist á dansnámskeiði.
Þessar tvær manneskjur opna augu Fúsa fyrir því að það er meira í boði í henni veröld heldur en það sem honum var áður kunnugt um.
Fúsi er án efa með betri íslenskum kvikmyndum sem ég hef séð.
Fúsi er ekki bara falleg afþreyingarmynd heldur fjallar hún líka um mikilvæg málefni eins og einelti, staðalímyndir, fordóma og geðsjúkdóma.
Gunnar Jónsson, betur þekktur sem Gussi, fer algerlega á kostum sem hinn dásamlegi Fúsi. Ég hef í raun ekki séð hann leika svo mikið áður en hann stóðst klárlega allar mínar væntingar og meira til.
Ilmur Kristjánsdóttir leikur Sjöfn sem snýr lífi Fúsa á hvolf. Hún skilar þessu hlutverki frá sér eins og öllum hlutverkum sem ég hef séð hana í – algjörlega 100%. Henni tekst á áreynslulausan hátt að hrífa mann með sér. Ég fann til með Sjöfn, varð reið út í hana og á ákveðnum augnablikum þá varð ég meira að segja smávegis skotin í henni. Ilmur er bara með þetta, það er ekkert flókið.
Ekki má svo gleyma stúlkunni sem leikur litlu vinkonu hans Fúsa í stigaganginum. Hún var algjörlega dásamleg og á framtíðina fyrir sér í þessum bransa.
Ljúfsár,kómísk, falleg, einlæg og umfram allt tilgerðarlaus bíómynd. Ég naut hverrar mínútu.