Það er stundum sagt að maður geti ekki sagt frá sínum tilfinningum og hugarferli nema að vera stilltur inn á þá tilfinningu. Að geta bara almennilega útskýrt þunglyndi þegar maður er þunglyndur. Þetta er bara alls ekki rétt að mínu mati. En hvað aðskilur vanlíðan frá þunglyndi?
Vanlíðan sem hrjáir okkur á stundum er eins og einstaka leiðinlegur gestur sem kemur í kaffi klukkan 3 og fer svo klukkan 6, eða rétt fyrir kvöldmat svona eins og eðlilegt þykir.
Þunglyndi er hins vegar eins og leiðinlegi frændinn sem á enga peninga og treður sér upp á mann. Hann verður að fá gistingu því annars liggur hann á götunni. Yfirþyrmandi, óþolandi og niðurdrepandi.
Eða kannski er þunglyndið örninn sem nartar í líffæri Prómeþeifs, sem bundinn er við bjargsklöpp. Þunglyndið líkt og annað hugarástand er hlaupkennt og sífellt að taka á sig ný form og nýjar dramatískar myndir.
Svartir fuglar, hrafnar, svartir hundar og úlfar. Myndmálið er mjög sterkt og ástandið fegrað, vegna þess að margir vilja fela ástandið með orðavali sínu.
Þunglyndi er ekki aumingjaskapur, það er ekki heimska og síðast en ekki síst þá er þunglyndi ekki eitthvað sem maður getur bara hrist af sér eða bara „hætt“ því.
þar að auki er þunglyndi mjög persónubundið og hvernið það lýsir sér. Þegar ég upplifi þunglyndi, samhliða geðshæðum, þá er oft lítill sem enginn aðdragandi. Ég er kannski á góðu róli í eina viku, virkilega ánægður með lífið og tilveruna og svo einn daginn í vikunni á eftir, þá langar mig ekki til þess að hitta fólk, þá kallar rúmið og sængin á mig. Ég vil læst herbergi með nægar birgðir af mat svo ég þurfi ekki að mæta heiminum þann daginn. – Það er tilfinningin, það er hvötin.
Það hefur tekið mig langan tíma að öðlast færni til þess að fylgja minni rútínu, þrátt fyrir þessar andfélagslegu hvatir. Að heilsa fólki, að brosa og hlæja að fyndnu sjitti vegna þess að ég veit með vissu að heilinn er bara eitthvað að klikka tímabundið. Að viðhalda rútínunni bjargar mínum heimi frá glötun.
Hvernig læt ég þegar ég er gripinn og togaður ofan í djúpið? Þegar nógu margar litlar blóðsugur sjúga úr mér allann lífsþrótt þá er ég holdgerving orðsins „Aðgerðarleysi“. Þetta ástand hræðir mig, vegna þess að þá fyllist ég þeldökkum ranghugmyndum um eigin tilvist. Framtíðin verður fjarlæg.
Ég er ömurlegur, ég er ljótur, ég er feitur, ég er ekki í formi, allir hata mig, enginn vill mig, lítil sem engin kynhvöt og síðast en ekki síst þá tekur síþreytan við. Það eru hreinir líffræðilegir þættir sem eiga sök á þessu.
Þegar maður sefur marga klukkutíma á dag og er samt þreyttur í þunglyndislotu þá er líkaminn í rauninni á fullri keyrslu. Þrátt fyrir að maður sé ekki að gera neitt, sem er helvíti magnað!
Þetta skýrir kennari við Stanford-háskóla, sem heitir Robert Sapolsky betur í fróðlegum fyrirlestri um þunglyndi. Sjá hér.
Þó svo að neikvæðnisengillinn segi manni að þegja um sín vandamál eins og þunglyndið og stoltið gerir þá er alltaf betra að tala við einhvern, að láta einhvern vita. Því svo lengi sem við sköðum okkur ekki eða aðra og tölum opinskátt um hlutina er von um hjálp og betra líf.
Grein þessa má ekki birta í öðrum fjölmiðlum nema að gefnu leyfi höfundar.