Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Meðvirkni íslenskrar alþýðu

Guðmundur Guðmundsson skrifar:

Á heimilum þar sem neysla eða obeldi er viðvarandi um áratuga skeið myndast vel þekkt munstur. Þetta er heilkenni þar sem heimilið lagar sig að absúrd aðstæðum. Í meðvirknismóki sínu líta fjölskyldumeðlimir að lokum á ástandið sem meira eða minna eðlilegt.

Í ferlinu lagar svo allt heimilið sig að ofbeldinu og/eða neyslunni. Það myndast þögult samkomulag um að varðveita leyndarmálið. Og fjölskyldan heldur í gangi sápuleikriti út á við. Þar er allt í lukkunnar velstandi.

Ofangreint heilkenni má vel yfirfæra á íslenska húsnæðispólitík síðustu áratuga, alveg aftur að stríðsárum. Almenningur er þá í hlutverki fjölskyldumeðlima og lögaðilar í hlutverki gerenda.

Ísland er með allt á hælunum efnahagslega. Gjaldmiðillinn er ónýtur. Kaupmáttur almennings er einn sá lakasti í Skandinavíu. Engu að síður er talið eðlilegt að bankar skili myljandi hagnaði. Og tveggja stafa prósentutala er talin eðlileg hækkun á fasteignaverði árlega. Leynt og ljóst er litið á hækkandi fasteignaverð sem eins konar heilbrigðismerki í hagkerfinu. Þá snúast „hjól atvinnulífsins“.

Banki allra landsmanna sendi frá sér fréttatilkynningar á síðasta ári og tíundaði að húsnæðismál á Íslandi væru í góðum farvegi, og lítil þörf á að breyta því sem virkar vel. Húsnæðiskostnaður væri með lægra móti í samanburði við nágrannalöndin, og almennt ekki yfir 16 til 17% af ráðstöfunartekjum. Bankinn spáði upp undir 30% verðhækkun fasteigna á næstu þremur árum. Þetta taldi bankinn fullkomlega eðlilegt, og allt í velstandi.

Ekki fylgir sögunni hvaða Excel-forrit var notað í þessa útreikninga. En samkvæmt þeim gæti húsnæðiskostnaður (leiga) hjá láglaunafólki verið einhverjir tugir þúsunda á mánuði. Þessi fréttatilkynning og fleiri svipaðar úr glerhvelfingum greiningardeildanna birtast svo athugasemdalaust í fjölmiðlum landsins. Í þau fáu skipti sem fasteignaverð er rætt í fjölmiðlum eru yfirleitt fulltrúar frá tveimur hagsmunaaðilum kallaðir til. Annars vegar fasteignasali, og svo fjármálastofnun/banki. Þannig var það mitt í 2007-bólunni, og þannig er það enn 2015.

Rétt eins og í ofbeldisdæminu að ofan er svo veruleikinn annar fyrir þá sem horfa inn í gullfiskabúrið. Staðreyndin er að húsnæðispólitíkin á Íslandi snýst ekki lengur um að koma almenningi í húsaskjól. Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er vettvangur fyrir skammtímaávöxtun lífeyrissjóða, banka og milliliði þeirra sem hugsa í ársfjórðungum. Húsnæðispólitíkin var sett í aftursætið, og bankar og verktakar tóku við stýrinu. Vaxtaofbeldi og framganga þessara stofnana er nú komin á það stig að ungt fólk getur hvorki keypt eða leigt húsnæði. Þessi ríkisstjórn á heiðurinn af því að læsa heila kynslóð endanlega úti í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. Og henda lyklunum.

Ofbeldisheilkennið sannaði sig einna best í síðustu kosningum. Fjölskyldufaðirinn fór á langt fyllerí fyrir nokkrum árum og missti allt ofan af fjölskyldunni. Samt tók hún á móti honum opnum örmum, þegar hann birtist á tröppunum og lofaði bót og betrun. Hann lofaði líka að bæta skaðann með stórri ávísun. Þetta var svo gúmmítékki þegar á reyndi, sem fjölskyldan leysti út. Upphæðin rann óskipt inn á reikning gerandans og neyslufélaga hans.

Núverandi staða í húsnæðismálum landsins er afleiðing meðvirkni íslenskrar alþýðu. Tillögur til lausna á húsnæðisvanda virðast samdar af almannatenglum. Þær eru notaðar fyrir kosningar. Sömu tillögur eru svo skoðaðar í nefndum út kjörtímabilið. Staða íslenskra húsnæðismála í dag er líka birtingarmynd um fullkomna endurreisn Íslands. Eins og það var fyrir hrun. Íslensk húsnæðispólitík er nefnilega nákvæmlega sú sama og fyrir hrun. Það var enginn lærdómur dreginn af bólunni sem sprakk.

Er ekki bara tímaspursmál hvenær ÍLS fer inn í Landsbankann, með meðgjöf frá ríkinu? Í kjölfarið yrði svo banki allra landsmanna einkavæddur? Í „opnu og gegnsæju ferli“?

Velkomin til „Nýja Íslands“ (núll núll sjö, taka tvö).


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283