Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fjalla-Halla og kvennaveturinn mikli

$
0
0

Margir tautuðu (mishátt) í upphafi leikárs þegar hulunni var svipt af verkefnavali vetrarins og í ljós kom hversu mikill fjöldi leikverka þetta árið er af íslensku bergi brotið. Bæði gömul leikrit og ný segja leikhúsgestum sögu sína og flest eiga það sameiginleg að vera eftir íslenska rithöfunda og leikritaskáld.

Kannski hljómar það einhæft og ófrumlegt að hefja til leiks gamlar sögur af Fjalla-Eyvindi og Bjarti í Sumarhúsum, sem rataði á sömu fjalir fyrir alls ekki svo löngu (í það minnsta hafa þessi 16 ár liðið furðulega hratt og sjálfri finnst mér ég hafa verið að klappa fyrir þeim Arnari og Ingvari í fyrradag).

En tímarnir breytast (þótt þeir líði eins og örskotsstund) og sú nýbreytni að fá hið glögga auga gestsins okkar frá Sviss, Stefan Metz, sem leikstjóra, skilar að mér finnst tvöföldum árangri í að endurvekja hina rómuðu sögu um Fjalla-Eyvind (1714), og ekki síst konu hans Höllu, sem um þessar mundir fagna 300 ára afmæli sínu. Sean Mackaoui hannar leikmynd og búninga en leikritið sjálft er eftir Jóhann Sigurjónsson. Leikgerðin á uppfærslu Þjóðleikhússins í ár er eftir leikstjóra verksins.

Leikritið á vissulega vel við í nútímasamfélagi enda er mannssálin alltaf að kljást við sömu tilfinningarnar. Í dag erum við jafn skuldum vafin og þá, en kannski er okkur ekki úthýst af samfélaginu lengur, eða hvað? Frelsishugtakið er líka eitt af lykilhugsjónum verksins, og mætti áhorfandinn kannski spyrja sig, hvenær erum við frjáls? Halla og Eyvindur bjóða öræfum Íslands birginn í nafni ástarinnar, en er það frelsi? Getur ástin þrifist í ómögulegum aðstæðum?

Ljósmynd Eddi Jóns.

Ljósmynd Eddi Jóns.

Fengu ekki að unnast í byggð og flýðu til fjalla

Í grunninn er þetta saga um kærleika og hina algjöru fórn annars vegar, samúðina með ofsóttum lítilmagnanum og grimmd yfirvalda hins vegar. Eftir situr spurningin, hefur eitthvað breyst í dag, þremur öldum síðar?

Frá því hreppstjórar og sýslumenn höfðu algjört gerræðisvald. Það var nóg að ljúga upp á mann glæp svo hann yrði ofsóttur. Á Íslandi ríkti sannkölluð ógnarstjórn þar sem menn voru afhöfðaðir og hengdir án dóms og laga. Þess vegna er svo auðvelt að skilja flótta þeirra Höllu og Eyvindar. Lífið á fjöllum var langtum betra en lífið í siðmenningunni.

Það er líka auðvelt að sjá Hróa hött í Eyvindi, sem stal aðeins frá þeim ríku og af lífsins bráðu neyð. Margar sagnir sameinast um að Eyvindur hafi aðeins tekið sauði og hross frá þeim sem reyndust honum sérstaklega grimmir en lét eignir annarra í friði. Eins átti hann að öllum líkindum skjól hjá Jóni bróður sínum og hafðist mögulega við í felum hans í einhverja vetur.

Enginn maður var svo hraustur að hann næði Eyvindi nokkru sinni á flótta og fór hann gjarnan ferða sinna á handahlaupum. Höllu var auðveldara að hlaupa uppi, sérstaklega þegar hún var þunguð. Eyvindur fann hana þó jafnóðum aftur og frelsaði með sér til fjalla á ný.

Halla og Eyvindur eignuðust sem vitað er þrjú börn. Ólöfu þurftu þau að yfirgefa að Hrafnsfjarðareyri en Guðrún er sú eina sem komst lífs af og er eina útilegubarnið sem vitað er um. Tólf ára gamalli var henna komið í fóstur á Vestfjörðum. Líklegt þykir að börnin hafi verið mun fleiri og dáið ýmist úr kulda, hungri eða verið borin út. Flestar sagnir herma að Halla hafi séð um útburðinn og að Eyvindur hafi snúið sér undan á meðan.

Í leikritinu er hann vitni að því þegar Halla kastar Tótu í fossinn og verður hennar áminning um það alla ævi. Hún er jafnframt hans áminning um þjófnað hans og lagabrot. Eftir því sem árin líða verður biturðin meira og meira sjáanleg sem og vansældin, hungrið og ósýnileg ástin sem virðist vera að slökkna í vetrarhörkunni.

Gaman er að geta þess að í heimildum er Höllu lýst sem svipmikilli og ógeðslegri, meðan Eyvindi er lýst sem glóbjarti á hár og miklum ljúflingi. Bæði neyttu þau mikils tóbaks sem kemur fram í leikritinu og sjálfsagt þeirra eina nautn, fyrir utan ástina sem hélt í þeim lífinu eins og ósýnilegri skikkju. Nína túlkar Höllu þó fallega og geðþekka bústýru sem allir hafa dálæti á. Í einsemd sinni girnist Arnes hana líka og sú sena er bæði átakanleg og sár.

Í mínum huga er leikritið að mestu leyti saga Höllu. Hún er í grunninn miklu sterkari en Eyvindur, enda kastar hún sér út í aðstæður algjörrar óvissu. Hann fremur glæpinn og hefur því ekkert val. Hún fer sjálfviljug frá því að vera ráðsett húsfreyja yfir í auðnina og fjöllin, með ástinni sinni. Það hlýtur að krefjast hugrekkis, þótt deila megi um skynsemina sem býr þar að baki. Sjálf held ég að skynsemi eigi sjaldnast við þegar ástin er annars vegar, þá ræður frumhugsunin ein.

Enginn vafi er á því að leikritið eigi fullt erindi til leikhúsgesta samtímans. Sýningin er með ráðum gerð tímalaus, bæði í leikmynd og búningum. Jökullinn sem trónir yfir fátæklegri leikmyndinni minnir okkur ekki bara á ískaldan raunveruleika og klakakennda náttúruna heldur ber hann staðsetningu verksins fagurt vitni, því undir jöklinum höfðust þau hjónin við um talsverðan tíma. Búningarnir trufluðu mig lítillega, en skotapils og leðurjakki Höllu fannst mér tímaskekkja þó ég sé hlynnt aðlögun að nútímanum. Búningar annarra fóru minna í mig þótt fótabúnaður Eyvindar hafi sjálfsagt verið talsvert fátæklegri í raun og veru.

Allir leikarar fóru vel með textann, sem er auðvitað flaggskip sýningarinnar. Skemmtilegar lausnir á vindáttum og glímubrögðum, hestum og kindum þóttu mér kostulegar og lokaatriði sýningarinnar sannkallað listaverk. Uppklappið vakti þvílík hughrif að ég átti erfitt með að halda aftur af tárunum. Fram að því fannst mér sýningin hverfast um Höllu, hugrekki hennar og frelsisþrá. Eftir að sýningunni lauk fannst mér hún bera þessum föllnu börnum fallegt vitni. Í nokkrar mínútur sameinuðust leikhúsgestir í hugsuninni um öll þau börn sem borin hafa verið út fyrr á öldum. Á einhvern undarlegan hátt fannst mér það fallegt, og þau ættu það skilið, með þjóðsagnararfinum. Einhvern veginn hefur hlutur þeirra farist fyrir.

Ekki er vitað með vissu um örlög þeirra hjóna en flestar sagna eru sammála um að þau hafi komið til byggða eftir 40 ár í útlegð og fengið að eyða ævikvöldinu á Hrafnsfjarðareyri þar sem þau hittust fyrst.

Screenshot 2015-03-28 10.19.55

Útilegumenn í Ódáðahraun eru kannske að smala fé á laun

Útilegumannasögum er gjarnan lýst sem óskastöðu fátæklingsins sem bjó við ömurleg lífsskilyrði og hafði litla stjórn á örlögum sínum. Í fjallasalnum lifðu þeir óháðir valdaþyrstum yfirráðaseggjum en hófu í staðinn óblíðum náttúruöflunum stríð á hendur.

Þessar sögur eiga það sameiginlegt að vera ævintýralegar, rétt eins og þjóðsögur álfa og trölla. En þær eru um leið fullar af von um betra líf í frelsi fjallanna þar sem (virðist sem svo) að ekki hafi þurft meira en lækjarnið og þokuspón til að lifa af í grösugum huldubyggðum.

Sagnirnar bera forfeðrum okkar fagurt vitni um dugnað og þrautseigju þar sem þeir lifa af með ekkert milli handanna, fótgangandi í besta falli á sauðskinnsskóm um þær ómælisvíðáttur sem nú á tímum hafa verið vel kortlagðar fyrir safari-ferðir ævintýragjarnra ferðamanna og jeppafólks á fyrsta flokks gönguskóm, auk nokkurra óbyggðardýrkenda og vélsleðakappa með orkudrykki og vitamínsprautur í vindheldum bakpokum.

Kynslóð okkar tíma ímyndar sér sveitarómantík með augum Mugison sem syngur um lambasteik og lítinn foss en auðvitað er það ekki raunin, þótt Ísland sé fallegasta land í heimi og allt það. Það að lifa af ískaldan íslenskan vetur, sandfok, eldgos, langvarandi hungur og snjóhörku hlýtur að hafa sett varanlegan svip á þau Eyvind og Höllu og hreint út sagt sturlað að þau hafi lifað 40 ár á flótta í óbyggðum Íslands þótt leikritið spanni aðeins 15 af þeim árum.

Í heildina má segja að rauður þráður þessa mjög svo íslenska leikárs sé sjálfstæðisbarátta sterkrar smáþjóðar og einna helst sterkra kvenna sem fórna öllu fyrir sjálfstæði sitt og hugsjón.

Barnlausar mæður setja líka stórt strik í leikhúsreikning vetrarins. En allar eiga þær Karítas eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Herborg, í Konan við 1000 gráður, eftir Hallgrím Helgason, Sjálfstæðishetja Laxness og Guðfinna, seinni kona Bjarts, það sameiginlegt með Fjalla-Höllu að missa barn eða börn sín með vofveiflegum hætti og burðast með þann erfiða kross alla ævi. Nú síðast bætist nafna mín Íris úr sýningunni Er ekki nóg að elska? við hópinn auk ekkjunnar Katrínar úr sama verki.

Ekki hætta að anda, eftir Auði Övu Ólafsdóttur, fjallar hins vegar um óskabörnin og þrá mæðra að eignast barn með nútímatækni. Barnsmissir og þráin eftir barni virðist þannig vera allt um lykjandi í íslenskum skáldskap þetta leikárið.

Greinina langar mig að enda á fallegustu, en um leið þeirri allra sorglegustu, vögguvísu sem vitað er um. Ljóðið er eftir Jóhann Sigurjónsson og var frumflutt við frumsýningu Fjalla-Eyvindar árið 1912.

Sofðu unga ástin mín,
– úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,
– minn er hugur þungur.
Oft ég svarta sandinn leit
svíða grænan engireit.
Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun best að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283