Það viðraði vel til loftárása á ritstjórn Knúzins í gær. Hildur Guðbjörnsdóttir birti grein á Knúzinu sem augljóslega var svar við minni grein þótt fyrirlitning á skrifum mínum kæmi í veg fyrir að Hildur gæti hugsað sér að nafngreina mig.
Mér leið stundarkorn við lesturinn eins og „Voldemort“ og valdefldist eitt augnablik þótt tilgangur Hildar hafi sennilega verið að reyna að gera lítið úr mér.
Grein þín, Hildur, ég ætla að leyfa mér að ávarpa þig með nafni, er mér að mörgu leyti ráðgáta og það kom mér á óvart hvernig þú og reyndar fleiri gátu misskilið inntak greinar minnar sem fjallaði ekki um fullvaxta konur heldur stúlkur á grunnskólaaldri sem í lagalegum skilningi eru börn. Komum að því aðeins síðar því fyrst þarf að vinda ofan af snældunni.
Þú heldur því fram að í greininni sýni ég „fádæma dónaskap og vanvirðingu í garð kvenna“. Þessu hafna ég alfarið.
Ekkert er fjær mér en að hafa skoðun á því hvað fullráða konur gera við líf sitt. Þær mega fara á handahlaupum kviknaktar niður Skólavörðustíginn ef þeim sýnist fyrir mér.
Aldrei myndi ég tala um fullráða kynsystur mínar á þann hátt að þær hafi ekki sjálfstæða hugsun – þvílíkt rugl! Bæði þær konur sem hugnast að stunda gönuhlaup eins og ég eða feta alfaraleiðir.
Ég reyni aldrei að hafa vit fyrir fullorðnu fólki, mér dettur það ekki í hug og sjálf er ég óráðþægnasta manneskja sem ég þekki. Ég læt engan segja mér fyrir verkum, engan. Ég hef valið í gegnum lífið að ganga frekar á steinveggi heldur en forðast þá og hef alveg sérstaklega gert mér far um það að kasta mér fram af björgum ef einhver svo mikið sem reynir að benda mér á að það kunni að vera óráðlegt og hugsanlega lífshættulegt.
Þetta fjörutíu og fimm ára frjálsa fall hefur ekki alltaf verið alveg auðvelt en – Vá! hvað það hefur verið skemmtilegt!
Unglingsstúlkur
Það kom óþægilega við mig, Hildur, af mörgum ástæðum þegar ég fékk það staðfest úr mörgum áttum að grunnskólanemar hefðu tekið þátt í #freethenipple átakinu. Mér fannst það sorglegt og ef dóttir mín sem er grunnskólaaldri hefði beðið mig um leyfi – sem margar grunnskólastúlkur gerðu víst og fengu hjá forráðamönnum – þá hefði ég ráðið henni frá því.
Og ég skal sitja undir því alla daga ársins að vera kölluð miðaldra, forpokuð gremjubrók til að verja þá skoðun mína.
Og að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég myndi aldrei skamma barn fyrir að birta slíka mynd af sér.
Stúlkur á unglingsaldri ættu ekki að blygðast sín fyrir líkama sinn en þær gera það nú sumar samt og af ýmsum ástæðum. Þess vegna hefði það verið betra ef þær hefðu ekki þurft að lenda í jafningjapressu sem þær sannarlega gerðu byltingardaginn mikla. Það er erfitt að ganga í gegnum kynþroskaskeiðið – sumar eru bráðþroska, aðrar seinþroska. Fjórða hver stúlka á Íslandi hefur verið misnotuð kynferðislega og ég er ekki viss um að allar þær stúlkur sem tilheyra þeim skelfilega stóra hópi hafi fundið löngun til þátttöku í brjóstabyltingunni.
Stúlkur sem verða fyrir misnotkun sem börn og hér tala ég af reynslu upplifa mikinn harm og vanlíðan, líkamlegan og andlegan. Það að vera beittur valdi, notaður og svívirtur kynferðislega sem barn er glæpur sem ekki verður aftur tekinn.
Að vera þröngvað til kynferðislegra athafna löngu áður en maður hefur aldur til hefur skelfilegar afleiðingar. Að vera dreginn inn í heim fullorðinna er mjög svo flókin og erfið staða svo ekki sé minnst á þá skömm sem barnið því miður upplifir. Börn eiga rétt á vernd samfélagsins og okkar sem fullorðin eru og það er þjóðarskömm hversu hátt hlutfall barna af báðum kynjum þarf að þola slíkt ofbeldi!
Það flokkast undir barnaklám samkvæmt íslenskum lögum að dreifa og geyma nektarmyndir af ólögráða börnum. Það hafa fallið margir dómar þar sem fólk sem dreifir eða vistar slíkar myndir af börnum er sótt til saka fyrir. Það gildir einu hvort um er að ræða myndir af drengjum eða stúlkum, lögin fara ekki í bringugreiningarálit svo því sé haldið til haga.
Það er mitt álit að ekki eigi að hvetja börn eða veita þeim leyfi til að bera sig í þágu jafnréttis kynjanna. Bara ekki! – og mér finnst frámunalega ógeðfelld sú tilhugsun að myndir af berbrjósta grunnskólastúlkum – séu nú á hringsóli um internetið um ókomna tíð. Ólögráða stúlkubörn eiga bara að mínu viti ekkert erindi í brjóstabyltingu fullorðinna kvenna eða þátttöku í druslugöngu áður en þær hafa þroska til.
Og það skal skjalfest að aldrei eitt augnablik myndi mér detta í hug að gera lítið úr þátttöku kvenna í druslugöngunni og hafi einhver skilið það svo finnst mér það afar miður. Það sem ég kalla „mína druslugöngu“ í fyrri grein minni og útskýrði svona bölvanlega illa var nefnilega kvenfrelsis- og sjálfstæðisbarátta mín sem ungrar konu, það sem ég áleit frelsi mitt til orðs og athafna. Andóf við því viðtekna. Afleiðingar hennar sem ég hef áður lýst eru bundnar við mig og aðeins mig og þar koma til aðrir þættir.
Þankar um #freethenipple
Hvað varðar brjóstabyltingu fullorðinna kvenna hef ég engar fastmótaðar skoðanir ennþá. En þar sem ég er kona er ég hugsi yfir henni, og það er vonandi í lagi þín vegna, Hildur, að ég hafi sjálfstæðar skoðanir og leyfi mér að hugsa um hluti sem varða jafnréttisbaráttuna og á hvaða göngu við systur erum.
Þú segir í grein þinni t.d. þetta:
„Ef engum fyndust brjóstamyndir skammarlegar, væri ekki hægt að hrella fólk með þeim.“
Ég undrast heiðríkjuna í þessari fullyrðingu. Heldurðu í alvöru að sá dagur renni upp í veraldarsögunni að nekt fylgi ekki einhverstaðar á jarðarkúlunni einhver blygðun? Þú ert bjartsýn, þykir mér.
Þú segir ennfremur: „Ef stelpum er sama þó aðrir sjái á þeim geirvörturnar, geta hrelliklámsníðingar ekki hrellt þær. Í því felst valdeflingin.“
Ég er ekki sannfærð en ég er til í að vera vongóð með þér. Níðingar munu því miður samt alltaf finna nýjar leiðir til að níðast á öðrum, held ég. Skilgreining brjóstabyltingarinnar og tilgangur hennar er enn svolítið á huldu sem í sjálfu sér er í lagi en niðurstaða og merkjanlegur árangur liggur ekki fyrir.
Hvert höldum við næst? Mun okkur takast að af-kyngera líkamann með öllu og svæfa fyrir fullt og allt ‘eðlilegar’ og ‘afbrigðilegar’ langanir mannskepnunnar. Eigum við næst að birta myndir af píkunum á okkur undir merkinu #freethepussy því hrelliklám takmarkast nefnilega ekki við brjóstamyndir? Ég spyr mig? Verður sú ganga til góðs? Ég er ekki sannfærð.
Mun brjóstabyltingin verða til þess að fólk sem hefur kynferðislegar langanir til kvenna hætti að líta á kvenmannsbrjóst sem hluta af kynþokka þeirra? Brjóst eru hluti af kynþokka kvenna, þau eru í það minnsta hluti af mínum kynþokka, og takmarkast vonandi ekki við þau.
Mæður í Kamerún í Afríku þar sem fólk gengur fáklætt velja því miður allt of margar þá leið að misþyrma brjóstum dætra sinna til að reyna með öllum ráðum að fresta sýnilegum kynþroska þeirra til að verja þær fyrir karlmönnum. Þar hefur nektin ekki orðið til þess að karlmenn hætti að girnast naktar stúlkur.
Kvennablaðið
Kvennablaðið birtir greinar eftir konur og karla þar sem ólíkar skoðanir fá að birtast án þess að ég eða aðrir reyni að kúga viðkomandi til að hafa skoðanir sem eru mér eða öðrum þóknanlegar. Ég viðhef engar yfirlætislegar tilraunir til þess að stýra skrifum höfunda eða skoðunum almennings og mér finnst sorglegt og sérkennilega andfemínískt að þú skulir reyna að gera lítið úr þeim höfundum sem í Kvennablaðið skrifa.
Ég viðurkenni að mér finnst heldur leitt að þú skulir halda því fram að afstaða Kvennablaðsins til kvenfrelsis sé eitthvað málum blandin en hugga mig við þá óumdeilanlegu staðreynd að þú eða aðrir hafa ekkert skilgreiningarleyfi á hugtakinu kvenfrelsi.
Um vandlætingartón þinn í minn garð og tilraun þína til þess að búa til úr mér talíbanskan tengdaföður varðar mig ekkert.
Ég virði það að konur leiti ólíkra leiða til að standa vörð um það sem þær telja hagsmuni sína og mig langar að biðja þig í fyllstu einlægni að sýna öllum þeim konum sem eru annarrar skoðunar en þú, þær þúsundir kvenna á öllum aldri sem sannarlega hafa sjálfstæðan vilja en fundu ekki hjá sér nokkra hvöt til að taka þátt í frelsun geirvörtunnar þá virðingu sem þær eiga skilda og fyrir alla muni ekki gera lítið úr framlagi þeirra til jafnréttisbaráttu á Íslandi.