Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Kapteinn Svartsýniskeggur og kosningaaldurinn

$
0
0

Svo, Píratar eru stærstir í skoðanakönnunum núna? Þetta eru einhverjar bestu fréttir sem ég hef heyrt af íslenskum almúga síðan álfatrúin fór að lækka niður í fimmtíu prósentin. Ekki af því að ég er einhver sérstakur stuðningsmaður Pírata heldur af því að þetta sýnir fram á hið ómögulega: Íslendingar eru farnir að þora að skipta um skoðun.

Allavega í skoðanakönnunum.

Ég ætla samt að leyfa smá neikvæðni hérna. Heldur í alvörunni einhver að þetta verði niðurstaðan 2017? Píratar jafn stórir Sjálfstæðisflokknum með restina af fjórflokknum skríðandi undir sér?

Tölfræðiskeggur

Lof mér, tvítugum og að mestu ómenntuðum í félagsfræði, að leika spámiðil í smástund:

2017 fær Samfylkingin 15% atkvæðanna, út á þeirra slynga áróður: „Sko, við erum ekki Sjálfstæðisflokkurinn!“

2017 fær Sjálfstæðisflokkurinn 25–30% atkvæðanna. 20% fá þeir út á það að vera Sjálfstæðisflokkurinn með sína hjörð, og 5–10% í viðbót út á áróðurinn: „Sko, við erum ekki Samfylkingin!“

2017 fær Framsóknarflokkurinn 15–20% atkvæðanna. 10% þeirra atkvæða er út á það að vera Framsóknarflokkurinn með sína hjörð, og 5–10 í viðbót út á kosningaloforðin þeirra… bíddu, síðast var það að gefa sjálfum sér frían pening frá nágrannanum til að borgar skuldirnar sínar… núna munu þeir lofa endurkomu Krists eða eitthvað. Já, eða Sigmundur lýsir því yfir að hann sé sjálfur Kristur endurfæddur.

2017 fær Björt framtíð 10% atkvæðanna. Ég sé tvær hliðar á Bjartri framtíð. Góða hliðin er sú að ég hef ekkert á móti þeim. Vonda hliðin er sú að… ég hef ekkert á móti þeim!

Nákvæmlega ekkert. Þau eru svona manneskjan sem þið hittið alltaf á djamminu eða í partíi eða sjáið í skólanum og svona „heeey, þú ert alveg í lagi?“ en þekkið annars ekkert og mynduð aldrei muna eftir að bjóða í ykkar eigin partí (takið samt eftir að ég er hálf-pólitískur pistlahöfundur á Kvennablaðinu, og því líklegast ekki manneskja með reynslu af því að halda samkvæmi).

2017 fá Vinstri grænir 10% atkvæðanna. 5% út á áróðurinn þeirra: „Sko, við erum ekki Sjálfstæðisflokkurinn!“ 2% út á áróðurinn „HÉR VARÐ HRUN“ og 3% vegna þess að það er hægt að plata einhverja í að halda að VG skipti enn máli.

2017 fá Píratar 10% prósent atkvæðanna. Og þetta er bjartsýni hjá mér í þeirra garð. Þau munu rífa kjaft og togast á við kattahjörðina sína en þegar allt kemur til alls þá er þetta Ísland. Hérna er pólitík ekki hugsuð. Hún erfist.

Þið megið tala eins og þið viljið um að henda fjórflokknum og bylta kerfinu en í alvörunni, þegar þú segir „Burt með fjórflokkinn!“ meinarðu „Burt með fjórflokkinn fyrir utan fjórðunginn sem ég kýs!“ Sama hversu mikið ný framboð eru málefnaleg og í tengslum við almenning þá munum við árið 2017 enn þá sitja við einhvers konar stjórn D, B eða S.

Hvað eiga þessar þrjár myndir sameiginlegt?

Hvað eiga þessar þrjár myndir sameiginlegt?

Henni hefur oft verið líkt við enska boltann, íslenskri pólitík. Og það hefur alltaf verið að sýna sig betur og betur. Sömu liðin áratug eftir áratug, sömu gömlu gráhærðu andlitin í stjórnarstöðunum ár eftir ár meðan litlir leikmenn koma og fara. Stuðningurinn er erfður í beinan karllegg og bara lattetottandi hippalarfar skipta um lið.

Munurinn er hins vegar sá að enski boltinn er meinlaust áhugamál sem sameinar fólk, en íslensk pólitík rándýrt sundrungarafl.

Hinir ginnkeyptu

Upp dúkkaði nýlega frumvarp Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um að lækka kosningaaldurinn um tvö ár. Þetta kom svolítið upp úr þurru og strax var fleygt fram lagersvörunum „Þau eru óreynd!“, „Þau eru ginnkeypt!“, „Þau eru auðmótuð!“ „Þau vita ekkert um málefni sem skipta máli!“ Það er alveg rétt hjá ykkur sem tókuð eftir þessari smáfrétt sem ekki fór hátt. Sextán ára krakkar eru óreyndir í lífinu, þau er hægt að kaupa fyrir ýmislegt og þau vita ekkert um hagfræði. En veistu hvað? Ekki heldur þú.

Ég mana þig. Farðu til ömmu þinnar. Horfðu djúpt í augu hennar og segðu: „Ég veit hvernig tollakerfi ESB virkar.“ Ljúgðu blákalt að henni að þú hafir fullmótaða skoðun á fjármagnshöftum og fattir afleiðingar þess að fjölga seðlabankastjórum. Brjóttu hjarta hennar með því að segja ósatt um að þú þekkir til allra fríverslunarsamninganna og þekkir muninn á verðtryggingu og myntkörfu. Þú sem alltaf tvístígur við að skila skattaskýrslunni.

Eru þau auðmótuð? Þú hefur augljóslega aldrei átt sextán ára barn. Eða hitt sextán ára manneskju. Eða verið sextán ára. Það sem þú ert að hugsa um eru „heimilin“. Þið vitið hvaða heimili ég er að tala um. Þessi „heimili“ þar sem allir vita að ákveðinn flokkur er kosinn. Svona eins og Liverpool-húsið í götunni og Arsenal-húsið í götunni (ég myndi minnast á Manchester United, en United-menn eru bara ekki nógu glataðir til að passa inn í íslenska pólitík). Einhvern veginn heldurðu að öll heimili landsins verði að svona „heimili“ þar sem Flokkurinn er innleiddur í heila barnanna. Samt ekki þitt heimili sko. Öll önnur.

Og allir munu krakkarnir taka eftir og hlýða foreldrum sínum, eins og allir gerðu þegar þeir voru sextán ára.

Svo er það sem mér næstum sárnar að sextán ára séu sökuð um. Það að vera „ginnkeypt“. Jú, flokkar hafa mútað mér með áfengi löngu fyrir lögaldur, og líka með pennum og kaffi, en það er oft ekki nóg til að beygja mig þegar flokkurinn sjálfur tjáir sig eins og grasasni í fréttum. Líka, ekki gleyma því hvernig þið eruð. Ekki gleyma kosningasigrinum 2013. Þar voru Íslendingar keyptir fyrir hreina og beina peninga. Þeir voru ekki keyptir af hugsjónum eða tillögum eða óbeinum greiðslum. Nei, fjórðungur kosningabærra manna lét kaupa sig af feitum tékka. Og núna þegar komið er í ljós að tékkinn er þynnri en áður var talið og hreinlega logið til um upphæðina, hvað er gert? Jú, alltof margir hinna ginnkeyptu neita að viðurkenna að þeir hafi verið keyptir og sviknir.

tumblr_mzxhkh9vbE1t7lixko1_500

Þessi líking er kannski auðveld, en hún virkar.

Farðu upp að næstu sextán ára manneskju, best ef það er barnið þitt. Lofaðu henni tíu fingur upp til guðs að þið farið til Danmerkur næstu helgi eða að viðkomandi fái bíl á morgun. Nei, fjandinn hafi það, lofaðu einhverju smáræði eins og að krakkinn fái að ráða hvað verði í matinn í kvöld. Svíktu það svo blákalt.

Sjáðu hvort viðkomandi treysti þér eftir það.

Og berðu það svo við traust hinna þroskuðu einstaklinga sem kjósa fá í dag.

Unglingar eru falir fyrir nýjum hugmyndum, hugsjónum og heitum tilfinningum. Hinir fullorðnu eru falir fyrir bleðla.

Hin ömurlega umræðuhefð „Sko fyrri ríkisstjórn“ og „sko hinir“ er ekki gerð fyrir unga fólkið. Hinn barnalegi sandkassaslagur og smjörklípuaðferð er ekki gerður til að lokka að nýja kjósendur. Ungum kjósendum finnst ekkert að gjörðir Þorgeirs Ljósvetningagoða á Alþingi árið 1000 afsaki spillingu í dag.

Allt þetta „Palli meig í buxurnar í gær svo ég má kúka á mig í dag“ er ekki gert fyrir unga fólkið. Það er gert fyrir þig. Maður rífur svona kjaft á tveimur tímapunktum í lífinu: leikskóla og á þingi.

Hinn þroskaði málefnalegi Íslendingur. Falur fyrir fé og smjörklípur.

Þú sérð þessa kynslóð sem pakkaða inn í bómull og áhyggjuleysi. En veistu hvað? Kynslóðin fyrir ofan þig sér þína kynslóð þannig.

Hvað sérðu að sextán ára kynslóðin hafi gert fyrir Ísland? Eina sem þér dettur í hug er #freethenipple (jess, mér tókst að troða því einhvern veginn inn!)

En hvað gerði þín fyrir Ísland? Fleiri bíla? Stærri hús? Fleiri skuldir og skrikandi banka? Kvótagreifa, hrun og menningarlega stöðnun?

Það er enn í mannsandanum að bylta samfélaginu og frelsa. Þessi „börn“ þora að bjóða samfélaginu birginn og standa upp fyrir sig. Þau læra, skipta um skoðun og eru á þeim aldri sem þörfin fyrir sjálfstæði og gagnrýna hugsun nær hámarki. Ekki gera lítið úr þeirri þörf nýliðunar.

Hverjir börðu á trumbur heilu veturna og hrópuðu á nýtt Ísland og að læra af hruninu en ákváðu síðan 2013: „Jæja, búin að læra af hruninu. Tími fyrir sama gamla?“ Voru það krakkarnir, unga fólkið, börnin, hinir óþroskuðu og ómálefnalegu?

Mér er stundum hugsað til ellilífeyrisþega. Það er ekki oft, en það kemur fyrir. Fólkið sem er að krókna peningalaust viljugt/óviljugt á heimilum hér og þar við niðurlægjandi aðstæður. Þá verður mér gjarnan hugsað til þess að allt þetta fólk, allt saman, hefur haft heila ævi til að kjósa stjórnvöld sem bæta kjör eldri borgara. En… hafa greinilega sleppt því af einhverri ástæðu.

Svo ef þú heldur að unga fólkið hafi engan áhuga á málefnum eins og ellilífeyrisþegum þá ekki gleyma því að það hefur þú ekki heldur. Og ekki heldur ellilífeyrisþegar. Tja, allavega ekki fyrr en það er orðið of seint.

Merkimiðar, ættartengsl og hefðir skipta ykkur meira máli en lifibrauð nokkurn tímann.

Amma þín, rétt eftir að þú laugst um að skilja gjaldeyrismál og Tryggingastofnun tók af henni kvöldmatinn.

Amma þín, rétt eftir að þú laugst um að skilja gjaldeyrismál og Tryggingastofnun tók af henni kvöldmatinn.

Svo þess vegna styð ég þetta frumvarp Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að lækka kosningaaldurinn. Ekki af því að það er góð hugmynd (hún er það ekki) heldur af því að íslensk pólitík er almennt slæm hugmynd.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283