Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Páskar í faðmi fjölskyldunnar

$
0
0

Ég samþykkti fyrir páska að kaupa margrellaða Playstation fyrir börnin og við hjónin fórum í tækjaverslun af því tagi sem manninum mínum finnst einhverjir skemmtilegustu staðir á jörðinni. Hann verður fertugur í sumar og ég er að hugsa um að bjóða honum að eyða deginum t.d. í Elko í tilefni afmælisins. Kannski get ég fengið að slá upp borði með veitingum, t.d. við þurrkaraganginn, og við getum þá boðið gestum að heilsa upp á hann þar.

Kornungur afgreiðslumaður var að aðstoða okkur í tækjabúðinni og ég spurði hann með þjósti og kvenrembu hvort hann gæti gefið mér gilda ástæðu til að ég – 45 ára gömul – þyrfti að eiga Playstation. Honum varð orða vant en muldraði eitthvað um að það væru alveg leikir líka til fyrir … konur (lesist gamlar konur) og skotraði augunum til eiginmannsins. Það stóð ekki á stuðningi frá feðraveldinu:

„Heyrðu, Steinunn mín, láttu nú ekki svona! Þú finnur sippuböndin í næsta gangi!“

Föstudagurinn langi rann upp og við höfðum ákveðið að fara ekkert af bæ, vera bara inni og leika okkur. Stefán, maðurinn minn, eyddi bróðurparti dagsins í að tengja Playstation tölvuna með tilheyrandi erfiði, hann reifst við fólk á spjallvefjum og bölvaði Sony-Ólafi hástöfum. Mér blöskraði þegar ég áttaði mig á því að við höfðum keypt græju sem á eftir að koma okkur á framfæri hins opinbera. Það er ekkert grín hvað leikirnir í þetta dót eru dýrir.

Ég reyndi að baka köku sem misheppnaðist gjörsamlega. Hún bakaðist ekki hvernig sem ég reyndi og þegar ég gerði mig líklega að henda henni bað Steini litli sem er sárt um sætindi um leyfi til að smakka.

Oj, þetta er eins og vonda brauðið sem þú kaupir stundum, sagði hann og fussaði.
Hentessu strax!

Ég settist þá niður með innkaup úr Tiger. Fjaðrir, dúska, augu og pípuhreinsara og hugðist föndra með krökkunum. Ég starði á þetta drasl. – Guð minn góður, hvað er hægt að búa til úr þessu?

Ég veit ekki hvað það er, en af og til dreymir mig um að vera algóð, bakandi og föndrandi móðir og þegar þetta hellist yfir mig þá er það af þvílíkri ákefð að börnin mín verða hálfhrædd við mig.

– Komiði krakkar, nú skal föndrað! Við föndrum þar til hann pabbi ykkar fær þessa Playstation til að virka – ef sú stund rennur einhverntímann upp! Hahahahaha!

Börnin settust full hlutekningar við borðstofuborðið og Steini minn sex ára ranghvolfdi í sér augunum yfir pastellitaða föndurdraslinu, strauk mér um vangann og lét sig leka hægt af stólnum og undir borð með i-paddinn sinn. Júlía sjö ára sat hjá mér meira af meðaumkun en vilja og spurði mig hvað mig langaði að búa til.

– Ég veit það ekki! Ég er búin að gúggla og gúggla og finn ekkert!

– Þú verður bara að gúggla betur!

Það varð litlu dömunni til happs að þegar hér var komið sögu tókst manninum mínum eins og fyrir kraftaverk að fá báðar fjarstýringarnar til að virka og gátu börnin því hafið tvíliðaleik í FIFA 15 undir stjórn eiginmannsins sem hafði óþægilega oft á orði að hann hefði verið knattspyrnudómari hér á árum áður.

Ég sat alein við borðstofuborðið, bjó til fingrabrúður, kanínur og páskaunga og hlustaði á útvarp Sögu. Áræddi svo að spyrja Stefán hvort hann nennti að búa til eins og eina páskakanínu með mér.

Hann lék það eitt augnablik að hann væri áhugasamur, velti lillabláum pípuhreinsara á milli fingra sér eins og hann væri að semja sína páskakanínu í huganum, setti svo aðeins í brýnnar yfir útvarpsdagskránni og sagðist fyrst ætla að spila svolítið á píanóið. Hann gekk upp á efri hæðina og stuttu síðar heyrði ég að hann hafði leitað huggunar í tónsmíðum hinna sárþjáðu Bee Gees-bræðra.

Gleðilega páska!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283