Sendiherra Tyrklands á Íslandi, Esat Şafak Göktürk, hefur óskað eftir fundi með flutningsmönnum þingsályktunartillögu sem ályktar að þjóðarmorð Tyrkja á Armenum verði viðurkennt af Alþingi. Efni fundarins verður „Armeníu-málið“ og er sendiherrann líklegur til þess að reyna að leiðrétta þingmennina um tilvist þjóðarmorðsins.
Samkvæmt heimildum Kvennablaðsins barst umræddum þingmönnum tölvupóstur þar sem fram kom að sendiherrann óskaði eftir fundi við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar að loknum fundi hans með forseta Alþingis næstkomandi mánudag. Fulltrúar allra flokka eru flutningsmenn tillögunnar en það eru þau Halldóra Mogensen, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal, Óttarr Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.
Allt er þegar þrennt er
Tillagan er reyndar ekki ný af nálinni heldur er hún endurflutning á þingsályktunartillögu sem Margrét Tryggvadóttir flutti í tvígang á síðasta kjörtímabili. Í bók sinni, Útistöður, segir Margrét frá viðbrögðum tyrkneska sendiherrans á Íslandi í kjölfar þess að hún flutti tillöguna í fyrsta sinn:
„Ég fékk svo formlegt bréf frá sendiráði Tyrklands í Ósló með „leiðréttingum“ á tillögunni minni. Þetta var greinilega ekki fyrsta svona bréfið sem sent var til „villuráfandi“ þingmanna víða um heim því fyrsta síðan var prentuð á vandaðan pappír, bréfið stílað á mig og fjallaði um tillöguna á Alþingi en næstu síður voru ljósrit á venjulegan ljósritunarpappír en sendiherrann kvittaði á þau öftustu.“
Tyrkir líða ekki viðurkenningu
Tyrkir hafa löngum brugðist ókvæða við þegar önnur ríki gera sig líkleg til þess að viðurkenna þjóðarmorð þeirra á Armenum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Skemmst er að minnast að þeir kölluðu sendiherra sinn heim frá Vatíkaninu vegna viðurkenningar Frans páfa á þjóðarmorðinu. Einungis um 20 lönd hafa viðurkennt þjóðarmorð á Armenum sem sagnfræðingar telja að hafi orðið allt að einni og hálfri milljón Armena að bana á árunum 1915–1923. Tyrkir neita staðfastlega að viðurkenna að atburðurinn hafi átt sér stað og sækja þá til saka er halda öðru fram innanlands. Á sama tíma heiðra þeir þá er báru ábyrgð á þjóðarmorðinu með minnismerkjum og götunöfnum.
Tyrkir eiga þó æ erfiðara með að afneita raunveruleikanum enda verða gagnrýnisraddir sífellt háværari í Tyrklandi sem og heiminum öllum. Enda á Aghet – eða hörmungarnar eins og Armenar kalla þjóðarmorðið – fullt erindi við heimsbyggðina. Útrýmingin sem átti sér stað er talin fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldar og það var framið á ótrúlega grimmilegan og hrottafenginn hátt.
Aðferðirnar sem bræðurnir Enver og Talaat Pasha fyrirskipuðu fólu í sér nauðungaflutninga, helfarir og hungurmorð armensku þjóðarinnar. Grimmdin og miskunnarleysið sem rak áfram þjóðarmorð Armena er skjalfest í smáatriðum í þjóðskjalasafni Þjóðverja en þeir voru bandamenn Tyrkja í seinni heimsstyrjöld og sátu aðgerðarlausir hjá á meðan armenska þjóðin var þurrkuð út. Í bréfum frá þýskum sendiherrum, hermönnum og læknum til heimalandsins má finna óhugnanlegar lýsingar af aðförum Tyrkja að Armenum sem síðar urðu innblástur aðferðanna sem stríðsherrar þriðja ríkisins notuðu við útrýmingu sína á gyðingum í seinni heimsstyrjöld.
Ísland – Tyrkland?
Óvíst er hvað verður um stjórnmálasamstarf Íslands og Tyrklands verði þingsályktunartillagan samþykkt. Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, hefur lýst nýlegri viðurkenningu Evrópuþingsins á þjóðarmorðinu sem „óvinveittri aðför að Tyrklandi“ en hann heldur því staðfastlega fram að þjóðarmorðið hafi aldrei átt sér stað enda séu Tyrkir ekki þjóð sem framið gætu slíkan verknað. Þá hefur hann ítrekað notað stöðu Tyrklands sem hernaðarlega mikilvægur bandamaður þjóða til þess að stöðva opinbera viðurkenningu á þjóðarmorðinu. Til dæmis hættu Bandaríkjamenn við að viðurkenna þjóðarmorðið þegar Tyrkir hótuðu að loka bandarískri flugherstöð í Tyrklandi og slíta stjórnmálasamstarfi við Bandaríkjamenn, skyldi fyrirhuguð viðurkenning Bandaríkjaþings ná fram að ganga. Nýlegt dæmi afturköllunar tyrkneska sendiherrans til Vatíkansins sýnir að Tyrkir eru til alls líklegir þegar þjóðarmorð á Armenum ber á opinbera góma.
Flutningsmenn hljóta þó að standa á sínu og láta ekki yfirvofandi reiðilestur sendiherrans á sig fá. Texti þingsályktunartillögunnar er enda skýr um mikilvægan tilgang þess að viðurkenna þjóðarmorð á Armenum:
„Áhrif þjóðarmorðsins á Armenum eru ekki bundin við hina eiginlegu atburði. Sem dæmi má nefna að fræðimenn hafa leitt að því líkur að hópmorðið á Armenum, og það refsileysi sem gerendur þess nutu í kjölfar þess, hafi haft áhrif þegar kom að framkvæmd þjóðarmorða og annarra voðaverka af hálfu þriðja ríkisins.
Það er gríðarlega mikilvægt að heimsbyggðin viðurkenni þau voðaverk sem framin voru á armensku þjóðinni sem þjóðarmorð. Þótt langt sé um liðið var þetta glæpur gegn mannkyni – gegn okkur öllum. Þau voðaverk sem framin eru í öllu hernaðarbrölti heimsins, í nútíð og framtíð, byggjast nefnilega á því sem áður hefur verið gert. Það er löngu tímabært að Ísland viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–17 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni.“