Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Nei takk, engar fatlaðar konur í lokahóf

$
0
0

Ellen Calmon formaður ÖBÍ skrifar:

Fimmtudaginn 16. apríl síðastliðinn var boðið í lokahóf í mynda- og myndabandakeppni meðal ungmenna. Hófið var auglýst á vef og haldið á vegum Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Hófið var haldið í Bíó Paradís sem er ekki aðgengileg bygging og því gátu ekki hreyfihamlaðar stúlkur og konur eða nokkur annar hreyfihamlaður einstaklingur sótt lokahófið.

 

Þér, eins og mér, hlýtur að þykja óásættanlegt að viðburðir sem tengjast mannréttindabaráttu séu haldnir í óaðgengilegu húsi. Húsi sem er bara boðlegt fyrir suma en ekki alla.

Blásið er til sóknar í mannréttindamálum fyrir suma

Á vef framkvæmdanefndarinnar segir að Alþingi hafi samþykkt þingsályktunartillögu þann 11. mars 2013 um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningaréttar og kjörgengis íslenskra kvenna þann 19. júní 2015.

„Forsætisnefnd var falið að kalla saman til undirbúningsfundar fulltrúa sem flestra samtaka kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla, til þess að safna saman hugmyndum og gera tillögur um hvernig minnast skuli tímamótanna, auka jafnréttis- og lýðræðisvitund og blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum“.

 

Að lokum var kosið í framkvæmdanefnd sem var falið að annast frekari undirbúning fyrir afmælisárið 2015. Hefur þessi nefnd nú verið að störfum og staðið fyrir fjölda verkefna á árinu og eru mörg hver eftirtektaverð.

Fatlaðar konur láta til sín taka

Verkefnið er því fjármagnað af ríkissjóði. Sérstaklega er fjallað um að auka eigi jafnréttis- og lýðræðisvitund og blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum. Telur Alþingi ekki mikilvægt að fatlaðar konur séu einnig þátttakendur í þeirri sókn? ÖBÍ er með virka kvennahreyfingu sem er hópur fatlaðra kvenna sem er mjög virkur í jafnréttis- og mannréttindamálum, nú síðast fóru þær fremstar í flokki í Druslugöngunni. Þetta eru konur sem láta svo sannarlega til sín taka.

Það er gríðarlega mikilvægt að leitað sé til fatlaðra kvenna og þær séu hafðar með í ráðum þegar verið er að ræða jafnréttis- og mannréttindamál eða koma af stað verkefnum þeim tengdum.

Samkvæmt 6. grein Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að fatlaðar konur og stúlkur séu þolendur margþættrar mismununar. Þau ríki sem eru aðilar að samningnum eiga að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundavallar frelsis til jafns við aðra.

Þess ber einnig að geta að samkvæmt rannsóknum þá standa fatlaðar konur fjárhagslega og félagslega verr en fatlaðir karlar og aðrar konur.

Ætti því markmið Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna að blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum með allar konur í sókninni, ekki bara sumar.

Stuðlum að mannréttindum fyrir alla, ekki bara suma.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283