Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Tvítyngi er fjarsjóður, hálftyngi er vanmáttur

Grein þessi birtist fyrst í Reykjavík Vikublað 18. apríl 2015 og er birt hér með leyfi ritstjóra.

Sabine Leskopf skrifar:

Fjölmenningarlegt samfélag er orðið að veruleika í Reykjavík og á landinu öllu. Hlutfall grunnskólanemenda í borginni með annað móðurmál en íslensku er í kringum 10%. Niðurstöður úr málkönnunarprófinu „Milli mála“ sem var lagt fyrir u.þ.b. 1.400 börn af erlendum uppruna eru sláandi.

Hátt upp í 400 börn eða tæplega 25% hafa náð góðum tökum á íslensku og eru ekki í vandræðum að takast á við námið sitt. Tæplega 200 börn eða 15% þurfa markvissan stuðning en nánast 60% eru á rauðu – með svo takmarkaðri íslenskukunnáttu að þau geta engan veginn tekist á við námið sitt. Á bak við þessi 60% eru sem sagt yfir 800 börn í Reykjavík sem eiga sér ekki möguleika á frekara námi, að taka virkan þátt í samfélaginu, að njóta sín til fulls.

Miðað við þróun í innflytjendamálum á Íslandi er stærsti hluti barna af erlendum uppruna á grunn- og leikskólaaldrinum. Tíminn til þess að við stöndum okkur betur en önnur lönd, til þess að eiga einfaldlega enga „næsta kynslóð“ heldur samfélag sem býður öllum börnum sömu tækifærin er naumur.

Íslenskan er eins og við öll vitum, móðurmálið okkar og það ber okkur að varðveita hverja stund. En við eigum líka að bera virðingu fyrir öllum erlendum tungumálum og skilja að þau eru jafn dýrmæt og íslenskan er okkur.
– Vigdís Finnbogadóttir

Helstu sérfræðingar í þessum málefnum þ.á m. Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við HÍ, telja að virkt tvítyngi sé mikilvæg undirstaða náms í íslensku og jafnframt góðs námsárangurs, jákvæðrar sjálfsmyndar og virkrar þátttöku í samfélaginu. Hins vegar getur úrræðaleysi í þessum efnum leitt af sér svokallað neikvætt tvítyngi þar sem nemandinn hefur við lok grunnskóla hvorki nægilegt vald á íslensku né móðurmálinu og má fullyrða að slíkt neikvætt tvítyngi útiloki barn frá frekari menntun auk þess sem það getur dregið verulega úr velgengni þess í samfélaginu.

Enginn lærir einfaldlega nýtt tungumál ef hann er ekki með móðurmálið á hreinu.

Fjöldi þeirra lagaatkvæða, reglugerða og tilmæla sem mæla með aukinni áherslu á virkt tvítyngi og stuðning við móðurmálið er feikilegur, þ.m.t. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögin, drög að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda (lögð fram í des. 2014), ályktun íslenskrar málnefndar frá 2013, Hvítbók og stefna SFS um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf.

Skóla- og frístundaráðið samþykkti á síðasta fundi sínum að koma á tilraunaverkefni til tveggja ára um að ráðnir verði tveir tvítyngdir grunnskólakennarar (farkennarar). Hlutverk kennaranna verður annars vegar að kenna móðurmál nemenda og hins vegar að styðja við nemendur sem ekki hafa náð fullum tökum á íslensku máli. Jafnframt verður unnin innleiðingaráætlun að frekari tillögum til stuðnings við þennan hóp. Sérstök áhersla verður þar lögð á hlutverk foreldra til þess að gera skólann að inngangi í íslenskt samfélag.

Ljóst er að mikið verk er að vinna.

 

Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283