Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Traustar heimildir

$
0
0

Fréttamenn geta sér ekki til um andlát barna. Þetta er ekki mjög flókin regla en til er fólk sem ver slík vinnubrögð, líkt og ekkert sé. Alvarlegt slys átti sér stað í síðustu viku. Það er ekki óeðlilegt við slíkar aðstæður að fólki sé brugðið við fréttaflutning þar sem gefið er í skyn að andlát hafi átt sér stað. Það er einmitt það sem gerðist þegar Vísir birti frétt undir fyrirsögninni: „Óttast að börn hafi drukknað í Hafnarfirði.“ Fyrirsögninni var breytt skömmu síðar.

Gagnrýni á fjölmiðla er oft ósanngjörn og erfið fyrir þá sem starfa við fréttavinnslu. Það er hins vegar hollt að muna að fjölmiðlar eru í ríkari mæli samfélagseign en önnur fyrirtæki. Fólk á og má hafa sterkar skoðanir á fjölmiðlum og framsetningu þeirra. Sú sérstaka vernd sem fjölmiðlar njóta í lýðræðissamfélagi er bæði lagaleg og pólitísk en hún er einmitt til komin vegna þess að því fylgir ábyrgð að vera fréttamaður.

Gæði og hraði

Fréttamennska er jafnvægislist hraða og gæða. Það er ákvörðun þeirra sem stjórna miðlunum hvar jafnvægið liggur og almennt er samkomulag um að þetta sé hluti af því frelsi sem fjölmiðlar hafa. Aukinn hraði á kostnað gæða þýðir minna traust. Það er ekkert óeðlilegt við það. Á Íslandi starfa blaðamenn eftir siðareglum sem eru afar opnar. Það er meðal annars vegna þess að fjölmiðlum er sjálfum ætlað að móta sér stefnu og áherslur. Vísir og Fréttablaðið leggja áherslu á stuttar fréttir, einfaldar og í tilviki Vísis, mikinn hraða. Þannig verða gjarnan til fimm til sex fréttir um sama málið á örskotsstundu. Þetta er pólitísk ákvörðun yfirmanna og stefna en ekki náttúrulögmál. Hluti af ástæðunni er að Vísir er auglýsingamiðill. Smellir borga sig og því er fjárhagslegt vit í að gera margar litlar fréttir af málinu frekar en að gera eina langa og ítarlega, sem tekur meiri tíma og er líkleg til að þéna minna. Ekkert af þessu fríar 365 af ábyrgð eða gagnrýni. Módelið er þeirra sköpun ekki meitlað í stein.

Éta kökuna og eiga hana

Á 365 miðlum, sérstaklega Vísi og Fréttablaðinu, er hópur fólks sem virðist vilja þessa sérstöku vernd fréttafólks og fjölmiðla á tyllidögum en er ekki tilbúið að axla þá ábyrgð sem slíkri vernd augljóslega fylgir. Fréttamenn eru ekki varðir fyrir gagnrýni og þeir njóta ekki ótakmarkaðs frelsis án nokkurrar ábyrgðar. Það er hins vegar pólitískt viðkvæmt að gagnrýna fjölmiðla of harkalega sérstaklega t.d. ef um er að ræða fólk í valdastöðu, sökum þess hve mikilvægu hlutverki þeir þjóna. Frelsið til að skrifa og afla upplýsinga og ákveða eigin framsetningu er grundvöllur frjálsrar fjölmiðlunar en hún er ekki ætluð til að kæfa alla aðra gagnrýni eða fría fjölmiðla gagnrýni á þeirra störf. Þetta frelsi fjölmiðla er einmitt liður í verndun frelsis annarra; tjáningarfrelsið þar á meðal. Það er því ef til vill merki um hópeflissálir meðal fjölmiðlamanna að gagnrýni á Facebook, lögreglu og kjörnum fulltrúum á fréttaflutning fyrirtækisins var strax máluð sem histería og viðkvæmni. Að engin efnisleg tilraun sé gerð til að greina nagg og tuð frá gagnrýni. Allt skal bara málað sama lit.

Að mínu mati eru þessi viðbrögð augljós aðferð til að sneiða alltaf framhjá efnislegri umræðu. Frétt Vísis var byggð á veikum heimildum. Það er lélegt og ófaglegt.

Fréttir af andláti barna stórlega ýktar

Persónulega finnst mér reyndar ekkert að því að vera viðkvæmur fyrir fréttum af jafn alvarlegum atburðum og andláti barna – eitthvað sem Vísir sagði að væri að óttast en leiðrétti svo, eða réttara sagt breytti. Samkennd er einfaldlega mannleg tilfinning. Það er því ódýrt, svo ekki sé meira sagt, að blaðamaður Vísis birtist í viðtali í þættinum Harmageddon á X-inu 977 og lýsi sig auman yfir þessu öllu. Krefjist þess svo að Blaðamannafélagið álykti gegn ágætlega þekktri lögreglufígúru sem lýsti yfir að honum þætti ósmekklegt að bíða ekki aðeins. „Fjölmiðlar hafa þjónað hér sem blórabögglar,“ sagði Jakob Bjarnar Grétarsson, fréttamaður Vísis og einn háværasti stuðningsmaður 365, í viðtalinu. Hér er vert að taka fram að það þekkist mjög víða í heiminum að bíða örlítið með svona fréttir. Þetta er ekkert ákvörðun sem tekur sig sjálf. Menn meta hagsmuni og byggja ákvörðun á eigin ritstjórnarstefnu og verja svo ákvörðunina með það að leiðarljósi. Það er hallærislegt að tala eins og fólk sem telji allt í lagi að bíða örlítið vilji ekki frjálsa fjölmiðlun eða „keppist við að lýsa vandlætingu sinni yfir að fjölmiðlar séu að greina frá þessu“.

Vert að taka fram að ég tel persónulega eðlilegt að segja frá svona atburðum um leið og heimildir eru skýrar um hvað er í gangi.

Það hlægilega er auðvitað að Jakob virðist gjörsamlega laus við að sjá hvernig hann gerir ‘internetið’ að blóraböggli fyrir vond vinnubrögð. „Það er skylda blaðamannsins að greina frá því sem gerist, og við verðum að átta okkur á aðstæðum. Við lifum á tímum internetsins og þetta var nánast á almannafæri þetta er þarna fyrir neðan – ég er nú Hafnfirðingur sjálfur – þetta er þarna fyrir neðan bensínstöðina N1 sem margir þekkja,“ sagði hann. „Það var þegar byrjað að senda myndir inn á net af þessum atburði, og þar voru spekulasjónir farnar að stað, og við gerum náttúrulega það sem ábyrgt er.“

Það er hins vegar rangt að Vísir hafi gert það sem ábyrgt er. Heimildirnar voru ekki réttar og fréttin ber þess eðlis. Að óttast sé að einhver hafi drukknað er tæknilega alveg rétt, einhver óttaðist það, og raunar fleiri eftir að fréttin var birt. Spurningin sem fréttamenn, og sérstaklega ritstjórar, spyrja sig er hvort heimildin sé nógu sterk til að standa undir efnislega réttri frétt.

Dæmi um þetta er að það er tæknilega rétt að Víglundur Þorsteinsson segir Steingrím J. Sigfússon hafa svikið þjóðina og kostað milljarða, sem og að sjálfur hafi Víglundur verið settur á dauðalista og fyrirtækið tekið af honum, en ef komast á að því hvort ásakanirnar séu efnislega réttmætar þá þarf að skoða hlutina betur. Það kostar hins vegar tíma og peninga. Það er auðvitað ódýrara að koma fram við heimildir eins og eitthvert póstmódernískt bull og segja bara allt fullkomnlega afstætt. Það framleiðir smelli og kostar lítið.

Þessi sítuggna afsökun að menn séu bara að segja frá er satt að segja þreytt. Þegar ekkert er gert til að kanna réttmæti hluta þá eru menn að dreifa lélegum upplýsingum. Það er ekkert sjálfsagður réttur fjölmiðla að gera slíkt án þess að fá svo mikið sem gagnrýni eða pirring í staðinn.

Blaðamennska snýst um að meta heimildir, ekki að keppa við Facebook. Hvað þá að birta bara hvaða þvælu sem er vegna þess að einhver sagði hana eða vegna þess að á netinu sé miklu verri þvæla komin í gang.

Mannleg upptökutæki

Fréttamenn sem halda að starf þeirra sé ekki flóknara en að taka upp, endurskrifa og setja í gæsalappir ættu að koma sér úr starfi. Þeir eru ekki bara með úreldingarósk um sjálfa sig heldur skemma þeir út frá sér. Starfið felst í að meta réttmæti heimilda og staðfesta því sem haldið er fram. Að dreifa skoðunum annarra sem staðreyndum er starf áróðursmanna. Þeir hafa annað starfsheiti og fá töluvert betur borgað en fréttamenn.

Samkeppnin við Facebook er tæknilegt vandamál sem fylgir nútímanum en ekki grundvallaratriði blaðamennsku. Það er því hörmulegt að horfa upp á blaðamann tala eins og gagnrýni fólks á að miðillinn, sem hann vinnur fyrir, núllist bara út vegna þess að netið sé miklu verra. Þessi hugsunarháttur heitir kapphlaup á botninn og fæstir slá Vísi og Fréttablaðinu við í því kapphlaupi. Það er heldur ekkert náttúrulögmál að fjölmiðlar bíði ekki með að segja fréttir.

Jakob Bjarnar talar á þá leið að um birting fréttar sem byggði á fálmkenndum heimildum og drógu afdrifaríka ályktun hafi tekið sig sjálf. Það sé einfaldlega undir engum kringumstæðum réttlætanlegt að bíða með að segja fréttir. Ekki einu sinni þegar óvissa er um réttmæti heimilda. Kannski er stemmingin á ritstjórn Vísis orðin svo geld. Þetta stenst að sjálfsögðu enga skoðun. Miðlar 365 geta eins og allir aðrir miðlar ákveðið að sýna tillitssemi og bíða í einhvern tíma. Þeim er líka frjálst að bíða ekki og sýna ekki tillitssemi. Í því felst verndin sem fjölmiðlar njóta á Íslandi og víða. Verndin felur ekki í sér að enginn megi gagnrýna miðlana. Gagnrýni er í eðli sínu lýðræðisleg. Hún er grunnurinn að tilvist fjölmiðla.

Ritstjórnir geta um leið ákveðið að í alvarlegri málum þurfi frekari staðfestingu til. Best er þó að ritstjóri ákveði að alltaf þurfi heimildir sem bera eitthvert traust og hafa verið kannaðar betur. Allt er þetta hægt, en erfitt með tilliti til samkeppnissjónarmiða, en aftur eru þau ekki grundvallaratriði blaðamennsku. Það er ekki höfuðábyrgð blaðamanna að vera fyrstir með fréttir. Það loðir svolítið við málflutnings Jakobs að hann vill njóta sérstöðu og verndar sem blaðamaður en eigi ekki að þurfa að taka á sig gagnrýni eða axla ábyrgð. Þetta er satt best að segja orðið frekar þreytandi í hans tilviki en alvarlegast er að þetta virðist vera stemmingin inni á ritstjórn áhrifamestu miðla landsins. Bara ef Fréttablaðið og Vísir hefðu nú betri þjóð og betri lesendur; þá myndi þetta væl hætta. Þessi viðkvæmni og nöldur sem allt er að drepa.

Biggi lögga

„Það að lögregluþjónn skuli með þessum hætti fordæma fréttaflutning sem var í sjálfu sér ábyrgur þótt hann væri vissulega sjokkerandi, það er bara alvarlegt mál,“ sagði Jakob í viðtalinu. Mér er spurn; hvers vegna er það alvarlegt að Biggi lögga gagnrýni fréttaflutning? Hvað var svona ábyrgt við fréttaflutninginn? „Þúsundir manna vaða fram og nefna það án þess að hika að þarna ráði bara mannvonska og siðleysi blaðamanna og fjölmiðla. Þetta eru býsna alvarlegar ávirðingar,“ sagði Jakob í sama viðtali. Aftur velti ég fyrir mér hvers vegna Jakob tekur það svo nærri sér en finnst lítið mál að starfsfólk eigin miðils hafi skellt fram að hugsanlega, mögulega en þó bara kannski hafi börn látist í slysi og finnst það voðalega ábyrgt. Ég skil eiginlega ekki hvaða sjálfsvorkunn og skortur á fagmennsku fær menn til að bregðast svona við gagnrýni.

Heimildavinna 365 er í molum

Fréttaflutningur Vísis af slysinu í Hafnarfirði er hluti af stærra vandamáli fyrirtækisins. Heimildavinna flestra miðlanna þeirra er einfaldlega í molum. Það skortir grundvallargæðaeftirlit á bæði Fréttablaðinu og Vísi, svo ekki sé nú minnst á Bylgjuna – sem ekki kallar sig fréttamiðil þannig að þeir komast upp með meira. Ítrekað koma upp mál þar sem fréttir þeirra standast ekki skoðun. Standast ekki lágmarksheimildavinnu.

Blóðugi drengurinn

Vísir greindi frá því í september árið 2012 að þrír drengir hefðu ráðist á sex ára dreng í Breiðholti. Í fréttinni má finna ítarlegar upplýsingar um árásina og líðan drengsins. „Við skoðun á spítala kom í ljós að drengurinn var bæði handleggs- og kinnbeinsbrotinn. Þórarinn [heimildamaður Fréttablaðsins og Vísis] ræddi við foreldra hans og segist búast við að þeir ætli lengra með málið. Vitað er hver einn árásardrengjanna er og hinna er leitað,“ segir í fréttinni. Þá kemur fram að drengirnir sem réðust á barnið hefðu viljað eignast bolta barnsins. Bæði Fréttablaðið og Vísir gerðu sér mat úr fréttinni. Þar á meðal var frétt um að foreldrar barnanna ynnu nú að sáttum í málinu. Á fréttinni er erfitt að átta sig á því hverjar heimildirnar eru en seinna átti eftir að koma í ljós að fréttin er skáldskapur. Raunar voru drengirnir og allir atburðir skáldskapur. Í millitíðinni hafði Vísir og Fréttablaðið birt frétt eftir frétt af málinu. Barnavernd leitaði drengsins, lögregla gerði leit, skólayfirvöld á svæðinu spurðu starfsmenn sína og foreldrar í hverfinu voru hvumsa yfir stöðunni. Þegar svo Fréttablaðið og Vísir neyddust til að leiðrétta skáldskapinn var skuldinni fyrir fíaskóið skellt á heimildamanninn. Í frétt af málinu sem birtist 5. september, tveimur dögum eftir að Fréttablaðið reið á vaðið og Vísir fylgdi eftir, segir; „Fréttablaðið harmar að hafa fallið í þá gryfju að treysta orðum ósannsöguls heimildarmanns.“ Það eru því ekki bara fjölmiðlar sem þjóna sem blórabögglar. Spurningin er hvers vegna Fréttablaðið ákvað að fara út með frétt sem byggði á einni heimild? Þá spyr maður sig líka hvers vegna Vísir hélt svo boltanum á lofti án þess að ganga úr skugga um að börnin væru til. Áður en málinu var lokið hafði fjölmiðillinn skáldað nokkrar fjölskyldur og fjögur börn. Tækifærin til að komast að hinu rétta voru fjölmörg.

Screen Shot 2015-04-20 at 10.47.37 copy

Fréttablaðið 5. september 2012 eftir að löngu var ljóst að frétt um árásina var uppspuni.

Hafa Fréttablaðið og Vísir lært af málinu?

Ekki Ólafur

Fyrr í mánuðinum var því haldið fram, líkt og að um staðreynd væri að ræða, að sakborningar í Al Thani-málinu hafi verið dæmdir á grundvelli misskilnings. Að símtal sem vitnað er í sé ekki samtal við Ólaf Ólafsson kaupsýslumann heldur Ólaf Arinbjörn, sem er sérfræðingur í kauphallarmálum. Heimildin er eiginkona Ólafs Ólafssonar sem og lögmaður Ólafs. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, varði fréttaflutninginn sem var hreint út sagt lélegur, og gerði gagnrýnendum blaðsins upp þær skoðanir að vilja ekki að fréttir væru sagðar. Aðferð sem hópeflið á 365 virðist sannfært um að rétt sé að beita gegn allri gagnrýni. Jafnvel þegar hún varði gjörninginn sagði hún: „Fréttablaðið tók enga afstöðu í þessu máli, frekar en öðrum, heldur vann frétt upp úr grein Ingibjargar, og reyndi eftir megni að afla gagna um hvort ávirðingar hennar væru á rökum reistar. Svo reyndist vera.“ Þetta er einfaldlega rangt. Ávirðingar hennar eru ekki á rökum reistar og hafa ekki verið. Hefði Fréttablaðið og ritstjórinn aðeins litið í dóminn hefði það einfaldlega blasað við.

Kjarninn gerði málinu skil og lýsti vel. „Það er beinlínis rangt, því augljóslega er verið að ræða hann og engan annan í hluta símtalsins. Þar er verið að tala um hvernig Al Thani-snúningurinn skuli vera teiknaður upp og meðal annars rætt um þann bita kökunnar sem Ólafur Ólafsson átti að fá út úr honum. Um þetta er hægt að lesa í dómi Hæstaréttar og um þetta er enginn vafi. Það getur síðan vel verið að hluti símtalsins snúist um annan Óla. Það skiptir engu máli.“

Í ‘ekki Óla-gate’ stóð því ekki steinn yfir steini en jafnvel gagnrýni var svarað með því að hamra inn ósannindin.

Nóvember 2013

Fréttablaðið og Vísir, ásamt Morgunblaðinu og RÚV að hluta, eru miðlarnir sem skelltu því fram að Tony Omos væri grunaður um mansal. Ásökun sem byggði á skjali úr innanríkisráðuneytinu sem nú er ljóst að var falsað. Ávirðingum var bætt við skjalið. Það muna það ekki margir núna en margir á 365 tóku gagnrýni á fréttina afar nærri sér. Sú var tíðin að Jakob Bjarnar, og aðrir kollegar hans, sóttu afar fast að DV á Facebook, fyrir að rjúfa mörk hlutleysis í málinu. Á meðan tók miðillinn þátt í yfirhylmingu með ráðherra og aðstoðarmönnum hennar, en það var auðvitað allt hluti af hreinræktaðri ást á hlutlausri fjölmiðlun. Það þarf frekar tjúllaða sýn á hlutleysið að míga utan í valdið aftur og aftur og aftur, en það er efni í annan pistil.

Fljótlega tók fyrirtækið og miðlar þess sig til og lugu til að verja eigin hagsmuni. Það er afar mikilvægt að taka hér Harmageddon, á X-inu 977 út fyrir sviga enda átti þátturinn mörg af mikilvægustu innlegg málsins. Þáttastjórnendur Harmgageddon tóku heldur ekki þátt í meðvirkninni með þessum hörmulegu vinnubrögðum.

Við játningu Gísla Freys varð ljóst að Fréttablaðið og Vísir höfðu meðvitað sagt rangar fréttir án áskorunar eða gáfu til kynna að miðillinn vissi betur. Afsökunin er heimildavernd en það er talsvert ‘above and beyond’ í heimildavernd að ljúga beinlínis að lesendum fyrir heimildamenn. Það er erfitt að ímynda sér hvað er gert fyrir góða heimildamenn í slíku umhverfi, tja, eða auglýsendur? Þá þarf engan snilling til að sjá að hér er veikleiki sem góðir spunameistarar kunna að nota. Það þarf bara að gera Fréttablaðið og Vísi meðsekt og þá er veldið til þjónustu reiðubúið.

Fjallað var um málið í Reykjavík vikublaðið, 15 nóvember síðastliðinn. Þar segir Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins þegar fréttaflutningur af Tony Omos hófst, að blaðið hafi verið milli steins og sleggju. „Almennt talað í þessu máli þá held ég að við höfum yfirleitt bara sagt frá því sem fólk var að gefa út í málum. Rétt eins og aðrir fjölmiðlar.“ - Er það nóg, stenst það kröfur um góða blaðamennsku og trúnað við lesendur? „Já, ég lít svo á að það sé þannig. Ef það væri ekki þannig þá gæti heimildamaðurinn ekki treyst því að njóta verndar.“ – Spurningin er raunar hvort það sé eðlilegt að setja fram fullyrðingar sem ritstjórnin veit að er röng og hvort það þýði ekki að ritstjórnin taki þátt í að blekkja lesendur? „Ég er hræddur um að í praktíkinni væri erfitt að koma því fyrir án þess að – ef við ræðum þetta bara hípótetískt – í praktínni er erfitt að koma því fyrir án þess að brjóta trúnaðinn.“ - Og var það svolítið staðan sem þið voruð í? „Ég er dálítið hræddur um það.“

Málið er nú samt að í ‘pratíkinni’ er fullt af fjölmiðlum sem temur sér að setja ekki fram fullyrðingar án nokkurs mats bara vegna þess að lyklaborðin á ritstjórninni bjóða upp á „gæsalappir“.

Álitshnekkir Fréttablaðsins og Vísis vegna lekamálsins eru miklir. Blaðið sagði rangar fréttir, laug að lesendum til að vernda heimildamann og eigin hagsmuni og allt var þetta byggt á skjali sem engin leið var að staðfesta að væri rétt á þeim tíma sem leið frá því að það var afhent og þar til fréttin er birt. Verst er þó að málið hefði aldrei átt sér stað ef stærstu miðlar landsins ynnu ekki duglega að því að réttlæta svona hörmuleg vinnubrögð. Morgunblaðið hefur árum saman verið eins konar færiband fréttatilkynninga og 365 miðlar, Vísir og Fréttablaðið sérstaklega, vinna síendurekið á einni heimild. Vinnubrögð sem nánast um allan heim eru talin óafsakanleg.

Staðreyndatékk í tímapressu

Minnisblað vegna Tony Omos var sent á tölvupóst Gísla Freys Valdórssonar, Þóreyjar Vilhjálmsdóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur klukkan 17.17, þann 19. nóvember 2013. Rannsóknargögn sýna að Gísli Freyr átti í samskiptum við Fréttablaðið klukkan 18.40 og að hann opnaði skjalið 18.45. Þá átti Gísli í samskiptum við Fréttablaðið fjórum sinnum þetta kvöld en blaðið fór í prentun klukkan 22.50. Allt í allt er glugginn því um sex tímar áður en áhrifamesta blað landsins hélt því fram að hælisleitandi væri viðloðinn við mansal.

Í viðtali í Harmageddon á X-inu daginn eftir, við Evelyn Glory Joseph, verður öllum ljóst að engin tilraun var gerð til að hafa samband við Evelyn, þrátt fyrir að fréttin fjallaði að hluta til um hana. Né að talað hafi verið við Tony Omos eða hans lögmann. Þetta er þrátt fyrir að blaðið væri að fara að halda því fram að manninn ætti að senda úr landi vegna gruns um mansal. Tony Omos er ekki nefndur á nafn í Fréttablaðinu en öllum má vera ljóst hvern er talað um. Þá er vitnað til mótmælanna sem boðuð höfu verið utan innanríkisráðuneytisins til stuðnings Tony Omos. Viðtalið við Evelyn á Xinu er afar áhrifaríkt og ég hvet fólk til að hlusta á það. Heimild Fréttablaðsins var því eitt skjal, fengið frá aðila sem hafði pólitískan ávinning af því að kæfa málið og rægja hælisleitendur, endurskrifað gagnrýnislaust.

Að vinna vinnuna sína

Fleiri mál hafa komið upp sem sýna hörmulega heimildavinnu Fréttablaðsins og Vísis og fleiri miðla. Þar má nefna mál Sævars Þórs Jónssonar lögmanns sem skrifaði um einstakling sem var hér á landi og seldi sig. Upphafsheimildin er blogg eftir Sævar. Áður en dagurinn var liðinn hafði fréttin af manninum verið sögð, aftur og aftur, en alltaf var heimildin bloggið. Nú dreg ég ekkert sérstaklega í efa að atvikið hafi átt sér stað en þetta er leti og svona vinna menn ekki. Af sama skapi búum við ekki til börn sem er ráðist á eða getum okkur til að börn séu hugsanlega látin.

Mikilvægast er þó að bregðast ekki við gagnrýni með stælum, væli og forherðingu. Sem er nákvæmlega það sem starfsfólk 365 miðla gera nánast alltaf; kenna öðrum um eða kvarta yfir ofsóknum og pólitískri rétthugsun. Þess vegna eru miðlar 365 flestir jafn hörmulega lélegir og raun ber vitni.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283