Þýðingar heimsbókmennta á íslensku eru jafnan hvalreki enda gegna þær mikilvægu hlutverki fyrir tungu okkar og menningu. Bandalag þýðenda og túlka (thot.is) hafa frá árinu 2005 efnt til árlegra verðlauna fyrir bestu þýðingu á erlendu skáldverki. Þriggja manna nefnd les þýðingar hvers árs og velur fimm bestu, samhliða tilnefningum til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þýðingarverðlaunin eru afhent í Gljúfrasteini á afmælisdegi Laxness sem jafnframt er dagur bókarinnar, 23. apríl nk. Í ár eru þrjár þýðingar úr ensku, ein úr spænsku og ein úr japönsku (reyndar þýtt úr ensku).
Eftirtaldir þýðendur eru tilnefndir 2014:
Jón St. Kristjánsson er tilnefndur fyrir þýðingu sína á Burial Rites eftir Hannah Kent. Á íslensku nefnist bókin Náðarstund og segir frá síðustu dögum í lífi Agnesar Magnúsdóttur sem dæmd var fyrir morð og tekin af lífi í Húnavatnssýslu, 12. janúar 1830. Hannah Kent er áströlsk og sá strax söguefni í dramatísku lífshlaupi Agnesar. Þýðingin er afbragðsgóð, íslenskum veruleika 19. aldar er komið firnavel til skila á kjarnyrtu máli sem er eiginlega betra en frumtextinn. Jón var tilnefndur til þýðingarverðlaunanna 2011 fyrir Reisubók Gúllívers.
Gyrðir Elíasson er ekki bara listaskáld sjálfur heldur einnig afkastamikill ljóðaþýðandi undanfarin ár, þaulvanur að fást við orð og merkingu, túlkun og stemningu. Hann er tilnefndur fyrir undurfagrar þýðingar sínar á völdum ljóðum hins heimsfræga Shuntaro Tanikawa sem skrifað hefur um 60 bækur af margvíslegu tagi á sinni löngu ævi. Japönsk samtímaljóðlist á íslensku hljómar eins og fjarlægur draumur sem Gyrðir gerir að veruleika. Bókin ber heitið Listin að vera einn og er bæði falleg og djúp, þrungin ljóðrænni lífspeki og léttleika. Gyrðir hreppti verðlaunin 2012 fyrir Tunglið braust inn í húsið.
Kanadíski rithöfundurinn Alice Munro er nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum 2014. Hún semur frumlegar smásögur sem fjalla m.a. um konur, ást, firringu, vanrækslu og ofbeldi. Verk hennar hafa ekki áður verið gefin út á íslensku. Sögur Munro eru flóknari og margræðari en virðist við fyrstu sýn. Silja Aðalsteinsdóttir er þaulreyndur þýðandi með einstaklega gott vald á bæði frummáli og íslensku og í þessu smásagnaúrvali, Lífið að leysa, fer hún á kostum.
Hermann Stefánsson þýðir Uppfinningu Morels eftir Adolfo Bioy Casares, argentískan rithöfund (d. 1999). Þessi saga er þekktasta verk Casares en ekki hefur verið þýtt eftir hann áður.Sagan birtist í tímaritinu 1005. Hermann var tilnefndur til þýðingarverðlaunanna fyrir Laura og Julio (2009) en hann hefur frábært vald á tungumálinu. Hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því Uppfinning Morels er ekkert áhlaupaverk, heimspekileg vísindaskáldsaga um ást og ódauðleika.
Út í vitann (1927) er eitt af þekktustu verkum ensku skáldkonunnar Virginiu Woolf. Helga Kress þýddi frægasta verk Woolf, Sérherbergi, á íslensku 1983 en þýðing Vitans er frumraun Herdísar Hreiðarsdóttur sem stimplar sig nú rækilega inn. Woolf, sem var hörkufemínisti og langt á undan sinni samtíð, gerði margvíslegar tilraunir með módernisma í verkum sínum, .s.s. með að láta hugsanir persónanna flæða fram, söguþræði var gefið langt nef og atburðarásin hæg og óljós með þungum undirtóni. Stíllinn er lotulangur og flókinn og er þýðing Herdísar einstaklega vel af hendi leyst, vönduð og nákvæm.
Hremmið þessar þýðingar í næstu bókabúð og fylgist með á fimmtudaginn þegar tilkynnt verður hver hlýtur þýðingarverðlaunin 2014.