Fyrsta bókauppboð ársins fer nú fram á vefnum Uppbod.is en Gallerí Fold og Bókin ehf. Klapparstíg 25-27 standa sameiginlega að því. Boðnar eru upp um 130 bækur að þessu sinni og kennir þar ýmissa grasa. Gott úrval er af myndlistarbókum á uppboðinu, m.a. gömlu myndlistarbókunum um Kjarval, Jón Stefánsson og Jón Þorleifsson. Þá eru góð eintök af fallegu bókunum sem Franz Ponzi tók saman, Ísland á nítjándu öld og Ísland á átjandu öld á uppboðinu en báðar bækurnar prýða mikill fjöldi einstakra samtímamynda. Báðar bækurnar hafa verið ófáanlegar um langt skeið.
Mikið er af þjóðsagnatengdu efni, meðal annars þjóðsagnasett Ólafs Davíðssonar og Jóns Árnasonar auk fleiri rita með þjóðsögum og skyldu efni.
Gott úrval ljóðabóka er á bókauppboðinu, meðal annars Illgresi eftir Örn Arnarson og fágætar ljóðabækur eftir Jónas Svafár, Dag Sigurðarson, Jón Helgason, Matthías Jochumsson og fleiri.
Úrval er af sögubókum og bókum um sögu landsins, auk bóka með héraðslýsingum. Þar á meðal eru fágæt verk í frumútgáfum eftir Halldór Laxness og Þórberg Þórðarson.
Merkilegt bókverk og einstaklega fágætt eftir Einar Braga, Í hökli úr snjó sem Dieter Roth hannaði verður boðið upp. Einnig útgáfa af Gunnlaugs sögu Ormstungu sem út kom hjá nefnd Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn 1775 og er bókin í upprunalegu bandi. Þá má nefna öll tölublöð Birtings, tímarits Einars Braga. Bækurnar á bókauppboðinu eru margar bundnar inn af íslenskum bókbandsmeisturum.
Uppboðinu lýkur 3. maí.