Ég hef óskaplega gaman að því að bæði lesa og fara á fyrirlestra um heilsutengd málefni. Það sem mér finnst allir vera sammála um, er að við þurfum að borða töluvert mikið af grænmeti. Nú gæti einhver haldið að ég ætlaði að fara að fræða og predika um mataræði og ég teldi mig vera einhvern heilsugúrú. Það ætla ég ekki að gera og það er mjög langur vegur frá því að ég sé gúrú. Er “bara„ venjuleg húsmóðir. Þó reyni ég að borða það sem ég tel hollt og mér finnst gott.
Ein leið til að fá nóg af grænmeti í einni máltíð er að skella í kúrbítspitsu. Það er ekki bara að hún sé stútfull af grænmeti, mér finnst hún líka virkilega góð. Hrafntinna, litla barnabarnið okkar, 17 mánaða, gerði pitsunni líka góð skil.
Ef einhver afgangur verður af pitsunni er um að gera að skella henni í nestisboxið og taka með í vinnuna daginn eftir.
Kúrbítspitsa
Áætlað fyrir fjóra fullorðna.
Hitið ofninn í 200°C
Innihald í botninn:
- 2 stk. kúrbítur
- 1 stk. brúnt egg
- 200 g rifinn ostur
- Ég notaði rifinn mozzarella-ost
- 1 bolli hveitikím
Aðferð:
- Notið frekar stóra skál
- Rífið niður kúrbítinn með rifjárni
- Bætið egginu, ostinum og hveitikíminu saman við
- Hnoðið öllu saman með höndunum
- Klæðið ofnplötu með smjörpappír
- Þjappið blöndunni á ofnplötuna
- Bakið við 200°C í 20 mínútur.
Næsta skref er þegar botninn er bakaður.
Ofan á pitsuna
Ég nota að þessu sinni tómat og basilikupestóið sem ég hef áður verið með í blogginu en þá ofan á brauð.
Tómat og basilikupestó
Innihald:
- 1 bolli sólþurrkaðir tómatar
- 1 bolli fersk basilika
- ½ stk. rautt chili
- 1 stk. geiralaus hvítlaukur
- 4 msk. möndlur
- Flögusalt og pipar
- Ólífuolía eftir þörfum
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið í matvinnsluvélina nema ólífuolíuna.
- Byrjið að mauka.
- Bætið olíunni smátt og smátt út í og látið vélina ganga.
- Magnið af olíunni fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa pestóið.
Smekksatriði er hversu gróft fólk vill hafa pestóið. Mér finnst gott að hafa hneturnar svolítið grófar.
Þegar botninn er bakaður smyrjið þá pestóinu jafnt yfir hann og raðið álegginu á.
Áleggið sem ég notaði:
- 1 askja steiktir sveppir
- Nokkrar sneiðar hráskinka
- Hægelduð paprika
- Uppskriftin er á blogginu undir speltbrauði og bollur.
- 100 g rifinn mozzarella-ostur
- ½ rauðlaukur
- Notið endilega bara það sem ykkur líkar best.
Raðað á botninn og bakað áfram í 10 mínútur.
Þegar pitsan er bökuð dreifi ég yfir hana ¼ úr öskju af brokkóli/smára spírum.
Áferðin á kúrbítspitsunni er allt önnur en á brauðpitsu. Botninn er frekar mjúkur en ofboðslega góður.
Með pitsunni hafði ég ofnbakaðar franskar úr sætum kartöflum.
Ofnbakaðar sætar kartöflur
Ég miða við ½ sæta kartöflu á mann fyrir fjölskylduna mína. Við erum sjúk í sætar. Þið þekkið ykkar heimafólk með magn.
- Skerið sætu kartöflurnar í strimla.
- Ég hef hýðið á.
- Dreifið jafnt yfir ofnskúffu.
- Bakið við 200°C í ca 50 mínútur.
- Þegar kartöflurnar er tilbúnar hellið ólífuolíu yfir þær og saltið með flögusalti.
Fólkið mitt vill nánast sósu með öllu.
Köld hvítlaukssósa
Innihald:
- 1 dós sýrður rjómi
- 2 stk. hvítlauksrif
- 1- 2 tsk. akasíu-hunang
- salt og pipar
- Hrærið öllu saman.
Mér finnst mjög gott að útbúa sósuna áður en ég byrja á pitsunni og læt ég hana þá standa á borðinu þar til við borðum.
Njótið.