Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Eurovisionkveðja frá grafarbakkanum

$
0
0

Bæði er það nú að maður eldist og svo þegar maður hefur fylgst með Eurovision frá því að Dana söng „All Kinds of Everything“ þá finnur maður að áhuginn dvínar smátt og smátt.

Fyrir mína parta þá er ég ekki músíkalskur maður en ég hef samt haft gaman af því að sjá og heyra hvernig hinar mismunandi þjóðir hafa mætt til leiks gegnum tíðina – sumar fullar einlægni að flytja eitthvað sem mannskapnum heima þótti rosalega skemmtilegt – aðrar veraldarvanari og reynandi að reikna út einhverja formúlu fyrir því sem gæti gengið í sem sem flestar þjóðir – og svo þeir sem sáu að eitthvað gerði lukku í fyrra og halda að svipað númer muni þá gera aftur lukku í ár.

Ég hef haft ánægju af því að sjá mismunandi lög og mismunandi flutning og mismunandi smekk frá hinum ýmsu þátttökulöndum, en núna er fjölbreytnin minnkandi, og fólk frá endimörkum Evrópu flytur lög sem gætu flestöll verið samin í London og eru sungin á mismunandi góðri ensku.

Hin glæsilega útsending sem verður flóknari og flottari með hverju ári gerir keppnina líka einsleitari, ljósasjó og eldsúlur, reykjarský eða rigningardemba sem gestgjafalandið baðar hvern einasta þátttakanda upp úr svo að gervöll Evrópa megi sjá hversu tæknivædd gestgjafaþjóðin er, hugmyndarík og smekkvís við uppsetningu og framleiðslu á sjónvarpsefni. Þessar miklu eldglæringar, ljósaskipti, litadýrð og reykjarmekkir yfirskyggja það litla af sérkennum sem þjóðirnar koma með að heiman.

Hér talar sem sé maður sem hefur lengi fylgst með þessari uppákomu og hefur haft gaman af því að sjá þessar mörgu þjóðir koma saman í friði og reyna með sér í söng og dansi og gleðskap og er þakklátur fyrir þá skemmtan alla – en annaðhvort er sjónin og heyrnin farin að dofna svo mjög að mér finnst þetta allt orðið voðalega líkt hvað öðru eða þá þetta er allt að verða sama hugmyndasnauða meðalmennskugutlið – nú nenni ég ekki að horfa meira á Eurovision, þetta er að verða eins og að horfa upp á gamlan vin fara hægt en örugglega í hundana.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283