Össur Skarphéðinsson skrifaði færslu á facebook þann 24. maí 2015 og gaf Kvennablaðinu leyfi til að birta hana lesendum.
„Í aðdraganda mestu verkfallsátaka í áratugi er það fréttnæmast af ríkisstjórn Íslands að frá henni heyrist hvorki hósti né stuna. Þó verkfall BHM sé búið að vera á sjöundu viku lætur fjármálaráðherra einsog sér komi það ekki við. Hjúkrunarfræðingar eru á leið í verkfall með svakalegum afleiðingum fyrir spítalana og öryggið í landinu. Eina viðbragðið er að heilbrigðisráðherrann segir í fréttum að staðan sé grafalvarleg!
Á sama tíma er ríkisstjórnin að undirbúa að færa sægreifunum 150 milljarða í formi makrílkvóta. Á sama tíma græðir útgerðin á tá og fingri á nýtingu auðlinda sem hún á ekki. Á sama tíma undirbýr ríkisstjórnin enn eina lækkun veiðigjalda áður en þingi slotar. Á sama tíma búa bankarnir við ofsagróða.
Við þessar aðstæður eru það helstu skilaboð forsætisráðherrans til þjóðarinnar að hún skilji ekki hvað hún hafi það gott. Svo bítur hann höfuðið af skömminni með því, að hóta láglaunaþjóðinni að það sem hún gæti náð í kjarasamningum kunni að verða tekið af henni aftur í gegnum skattahækkanir!
Eru þessir menn ekki með öllum mjalla? – Eru ráðherrarnir kannski komnir í verkfall?“