Madame Ruth Dreifuss, fyrrverandi forseti og innanríkisráðherra Sviss hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands, 23. maí 2015 sem er framúrskarandi góður. Hann á erindi við alla sem kjósa að svipast um eftir gæfulegri leiðum en stríði gegn ungu fólki og sjúku. Madame Dreifuss er glæsilegur fulltrúi mannúðar og mannréttinda í heiminum.
Eftir fyrirlesturinn sátu dr. Helgi Gunnlaugsson, dr. Helga Sif Friðjónsdóttir og Borgar Þór Einarsson, formaður nefndar heilbrigðisráðherra um endurmat á stefnu Íslands í fíkniefnamálum, í palllborði og svöruðu fyrirspurnum úr sal, ásamt Madame Dreifuss.
Fundurinn var samstarfsverkefni GCDP, Félags- og mannvísindadeildar HÍ og Snarrótarinnar - samtaka um borgaraleg réttindi.
Madame Dreifuss kom til Íslands, ásamt aðstoðarmanni sínum, dr. Khalid Tinasti, sem sendifulltrúi The Global Commission on Drug Policy, til viðræðna við ráðherra, aðra stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðla og umfram allt almenning á Íslandi. The Global Commission greiddi allan kostnað við ferðina, en Snarrótin naut þess heiðurs að skipuleggja dagskrána.
Á næstu dögum mun Snarrótin greina nánar frá heimsókn Madame Dreifuss og setja inn tengla á fréttir er henni tengjast.