Mannréttindi Annþórs Kristins Karlssonar og Barkar Birgissonar virðast ítrekað hafa verið hunsuð af Fangelsismálastofnun vegna rannsóknar á andláti samfanga þeirra Sigurðar Hólm Sigurðssonar. Sigurður lést á Litla-Hrauni í maí 2012. Annþór og Börkur voru vistaðir á öryggisgangi fangelsisins í 18 mánuði vegna gruns um aðkomu að andláti Sigurðar. Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í samtali við fjölmiðla að réttindum Annþórs og Barkar yrði haldið í „löglegu lágmarki.“ Ummæli sem innanríkisráðuneytið taldi almenns eðlis er Börkur kærði ákvörðun um öryggisvistunina til ráðuneytisins.
Skömmu eftir andlát Sigurðar kviknaði grunur um að Annþór og Börkur hefðu veitt honum áverka sem leitt hefðu til dauða hans. Í kjölfarið voru þeir úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald og einangrun þann 24. maí 2012 og hafa haft stöðu grunaðra síðan. Þeir sættu aðskilnaði frá öðrum föngum og verulegri skerðingu á réttindum sínum á öryggisdeild Litla-Hrauns í 18 mánuði eftir að gæsluvarðhaldi þeirra lauk. Báðir hafa þeir staðfastlega neitað sök. Ákæra var gefin út í maí 2013 en aðalmeðferð málsins er ekki hafin.
Heimild fyrir öryggisganginum er ekki að finna í lögum. Umboðsmaður hefur þegar hafið athugun á málinu. Þetta kemur fram í gögnum málsins sem Kvennablaðið hefur undir höndum.
Sérfræðingar ekki sammála
Sigurður lést vegna innvortis blæðinga sem orsökuðust af rofi á milta. Réttarmeinafræðingurinn sem framkvæmdi krufninguna gat ekki staðfest orsök rofsins á einn veg eða annan en taldi utanaðkomandi högg líklegra en innri orsakir. Þá taldi hún enga leið að fullyrða hvers eðlis ætlað högg hefði verið. Rofið mætti rekja til falls eða höggs á meðan innri orsakir eins og veikindi þóttu ólíklegar.
Grunur lögreglu gegn þeim Annþóri og Berki vaknaði þegar upptökur úr öryggismyndavélum Litla-Hrauns sýndu að þeir höfðu varið um tíu mínútum með Sigurði í klefa hans stuttu áður en komið var að honum í andnauð og miklum uppköstum. Engir sjáanlegir ytri né innri áverkar fundust á Sigurði Hólm við skoðun eða krufningu sem sýndu fram á að Sigurður hefði orðið fyrir ofbeldi fyrir andlátið. Aðilar málsins hafa síðan kallað til þrjá sérfræðinga í réttarmeinafræði til þess að leggja mat á krufninguna en þeim ber ekki saman hvað gæti hafa leitt til þess að milta Sigurðar rofnaði.
Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar fullvissaði almenning um að Annþór og Börkur yrðu ekki vistaðir með öðrum föngum þegar einangrunarvist þeirra lyki. Þeir yrðu vistaðir á sérstökum öryggisgangi á Litla-Hrauni þar sem réttindi þeirra yrðu í „löglegu lágmarki.“
Kærði ákvörðunina
Börkur kærði ákvörðun fangelsismálayfirvalda um að vista hann á öryggisganginum til innanríkisráðuneytisins. Í kæru Barkar kom meðal annars fram að hann teldi reglur um vistun fanga á öryggisgangi hafa verið settar til höfuðs sér og Annþóri. Reglurnar hafi verið settar í kjölfar ummæla sem Páll Winkel lét falla í fjölmiðlum daginn sem þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Ummælin sagði Börkur fela í sér aðdróttanir um hann og sekt hans í máli sem ekki hafði farið fyrir dóm. Að framkoma Páls í fjölmiðlum gerði hann vanhæfan til þess að setja reglur ætlaðar til þess að refsa Berki fyrir meintan þátt hans í andláti Sigurðar Hólms.
Innanríkisráðuneytið taldi Pál ekki vanhæfan í málinu vegna ummælanna sem hann lét falla í fjölmiðlum, enda hafi hann ekki látið í ljós „eindregna afstöðu“ sína til Barkar heldur var „einungis fjallað með almennum hætti um öryggismál.“
Í frétt Vísis frá 25. maí segir: „Öryggisreglum á Litla-Hrauni hefur verið breytt til að betur verði hægt að taka á móti Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni þegar þeir losna úr einangrunarvist eftir nokkrar vikur.“
Jafnframt kemur fram að þeir séu grunaðir um að hafa valdið dauða samfanga síns vikuna áður, sem og að þeir hafi verið úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald og einangrunarvist.
„Við höfum þrjár vikur til að skerpa á öryggismálum hjá okkur og ég get alveg fullvissað þig um að það verður gert,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Vísi.
Þá segir einnig í greininni að: „Vegna plássleysis þá höfum við nýtt öryggisgang á Litla-Hrauni undir afplánun. Ég gaf út fyrirmæli þess efnis í dag [24.05.2012] að það yrði ekki gert aftur. Þannig að öryggisgangurinn á Litla-Hrauni verður nýttur sem slíkur og sé ekki brýn nauðsyn á vistun fanga þar þá mun hann standa auður,“ segir Páll, sem var farinn að búa sig undir að þurfa að hraða breytingunum ef ske kynni að gæsluvarðhaldskröfunni yrði hafnað.
„Það tekur okkur einhvern tíma að tæma þennan öryggisgang, en það verður klárt þegar nýting hans verður nauðsynleg og öll réttindi manna sem þar verða vistaðir verða í löglegu lágmarki.“ Um leið og Annþór og Börkur losna úr einangrun munu þeir fara á öryggisganginn. „Það er frágengið,“ segir Páll. „Þar verða engir aðrir en þeir og ef aðrir fangar hegða sér með einhverju svipuðu móti þá fara þeir þangað inn líka.“ Þá bætir Páll við: „Við verðum bara að athuga það út frá þeim lagalega ramma sem við vinnum eftir hversu mikið við getum lokað þessa menn inni.“
Sama dag ræddi Páll einnig við RÚV. Haft er eftir Páli í óbeinni ræðu að öryggisgangurinn yrði rýmdur í ljósi atburða, „og framvegis eingöngu nýttur undir menn eins og Annþór og Börk.“
„Nú er bara svo komið að við verðum að hafa þessa klefa tilbúna fyrir hrotta og aðra menn sem ákveða að haga sér eins og fífl,“ segir Páll við RÚV.
Ekki um Annþór og Börk?
Fangelsismálastofnun þrætti fyrir að ummæli Páls hafi snúið að þeim Annþóri og Berki í svari sínu til innanríkisráðuneytisins og sagði ummælin Páls hafa verið almenns eðlis. Ákvörðun innanríkisráðuneytisins í máli Barkar vitnar í rökstuðning Fangelsismálastofnunar en þar segir: „Varðandi gagnrýni á forstjóra Fangelsismálastofnunar er því til að svara að þegar umrætt atvik átti sér stað á Litla-Hrauni og Börkur og Annþór Kristján Karlsson voru grunaðir um að hafa valdið samfanga sínum dauða skapaðist mikill ótti hjá föngum sem og aðstandendum þeirra. Taldi forstjóri Fangelsismálastofnunar nauðsynlegt að tjá sig um málið. Hins vegar var sú umfjöllun almenn, þ.e. hann upplýsti um þær aðgerðir sem gripið væri til þegar svo alvarleg mál kæmu upp í því skyni að tryggja öryggi fanga.“
Innanríkisráðuneytið staðfesti ákvörðun fangelsismálayfirvalda rúmum átta mánuðum eftir að kæra Barkar barst ráðuneytinu. Þrátt fyrir ummæli Páls í Fréttablaðinu féllst innanríkisráðuneytið á málflutning Fangelsismálastofnunar og staðhæfði að einungis væri „[f]jallað með almennum hætti um öryggismál Fangelsisins Litla-Hrauni og áætlanir fangelsisyfirvalda um endurskoðun þeirra, sem og hvernig brugðist er við alvarlegum málum sem upp koma.“ Páll hafi því ekki verið vanhæfur til meðferðar málsins á grundvelli stjórnsýslulaga þar sem ekki væri ástæða til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Ráðuneytið féllst því ekki á þau rök Barkar að Fangelsismálastofnun hafi farið út fyrir valdsvið sitt með beitingu reglna um öryggisgang. Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að það telji umræddar reglur í fullu samræmi við lög um fullnustu refsinga og staðfesti ákvörðun forstöðumanns fangelsisins um vistun Barkar á öryggisdeild á Litla-Hrauni. Börkur kærði úrskurð ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis sem hefur málið til meðferðar.
Umfangsmikið mál
Rannsókn á andláti Sigurðar Hólm er afar umfangsmikil en ljóst er við yfirferð gagna að fjöldi spurninga vaknar vegna framkomu yfirvalda í málinu. Kvennablaðið mun á næstunni fjalla ítarlega um málið.