Bragi Páll flutti eftirfarandi ræðu á Austurvelli þann 26. maí 2015.
„Góðir Íslendingar.
Ástæðan fyrir því að við erum mætt hérna í dag er að okkur er fullkomlega misboðið. Ég ætla hér að telja upp það sem ég tel vera helstu ástæðurnar fyrir því.
Okkur langar kannski til þess að trúa því að við höfum búið við jöfn kjör, en án þess að ég ætli að fara of langt út í þá sálma hversu handónýtt kerfi hið kapítalíska feðraveldi er, þá hafa kjörin verið allt annað en jöfn.
Íslenskar útgerðir mala gull. Eigendur þeirra fá gefins stærstu auðlind þjóðarinnar, borga ekkert fyrir rentuna og fá að borga eins lítið í skatt og þeim dettur í hug. Útgerðirnar halda að við getum ekki án þeirra verið. En það er akkúrat öfugt. Útgerðirnar gætu aldrei starfað ef það væri ekki fyrir íslenskan almenning. Íslenska sjómenn og fólkið í fiskvinnslunni. En í staðinn fyrir að auðlindin vinni í þágu þjóðarinnar þá er hún einkaeign örfárra moldríkra einstaklinga. Ég segi þjóðnýtum þær. Fáum þennan pening inn á okkar bankareikning. Stöðvum arðránið.
Íslensku bankarnir skila methagnaði ár eftir ár. Þeir ræna íslenskan almenning með ofurvöxtum og okurlánum, allt í skjóli þess að þeir séu okkur ómissandi. En það er akkúrat öfugt. Bankarnir geta ekki án okkar verið! Þeir eiga að vinna fyrir okkur en eru í staðinn að vinna fyrir örfáa ofurríka eigendur sína. Þetta er óþolandi!
Íslenska ríkið er ekki til nema vegna fólksins í landinu. Alþingismenn eiga að vera að þjóna okkur en eru í staðinn að þjóna hagsmunum fjármagnseigenda. Ríkisstjórnin heldur að við getum ekki án hennar verið. Að án þessara vanhæfu þjófa þá færi hér allt á hliðina. En það er akkúrat öfugt. Við réðum þetta fólk. Þau eiga að vinna fyrir okkur. En í staðinn eru þau að vinna fyrir kvótaeigendur og frændur sína. Og það er þess vegna sem við erum að reka þau.
Nú er Bjarni Ben að reyna að laga fylgi flokksins og ímynd sína með því að plata fólk með einhverri diet-útgáfu af stjórnarskránni sem var stolið af okkur.
Sumir segja að nýja stjórnarskráin hafi einmitt verið samin til þess að knésetja Sjálfstæðisflokkinn. Er það svo slæmt? Nasistaflokkurinn var bannaður í Þýskalandi eftir seinna stríð. Það heppnaðist ágætlega hjá þeim.
En Sjálfstæðisflokkurinn, hagsmunasamtök fjármagnseigenda, sá hópur sem ber stærsta einstaka ábyrgð á hruninu 2008, er enn starfandi. Enn mjög öflugur. Enn í óða önn að einkavæða alla helstu almannaþjónustu í hendurnar á auðmönnum. Gefa ríkasta fólki landsins meiri kvóta. Og þetta kýs stór hluti þjóðarinnar.
Lengi skildi ég ekki af hverju Sjálfstæðisflokkurinn fékk alltaf fjórðung atkvæða í kosningum, en núna sé ég það. Að sjálfsögðu vill skynsamt fólk koma sér í mjúkinn hjá þeim sem öllu ráða. Fólk sleikir bláa sjálfstæðisfálkann í ömurlegri undirgefni og von um að nokkrir brauðmolar falli í munn þess þegar hann hristir fjaðrirnar. Lygararnir ljúga því að þeir muni bjarga hér öllu með ábyrgri peningastjórn og frösum eins og frelsi einstaklingsins. Botnlaust kjaftæði.
Mestu auðæfi Íslands eru á örfárra höndum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar síðustu misseri sýna að þær hendur kæra sig ekkert um að þessari staðreynd sé breytt. Auðæfi ganga í erfðir. Fátækt gengur í erfðir.
Leiðrétting Sigmundar Davíðs var jafn ömurlegur brandari í kosningabaráttunni og hún er í framkvæmd. Við erum að fylgjast með auðvaldinu gera allt sem það getur til þess að verja og auka vald sitt. Rústa tekjulitlum fjölskyldum með hækkun matarskatta. Skera sérstakan saksóknara á háls. Gefa ríkasta fólkinu í landinu ávinninginn.
Þegar málningin flagnar, þá skröpum við hana af. Þegar bleian lyktar, þá skiptum við um hana. Ég er ekki með lausnir eða svör við því hvað eigi að taka við, enda er það okkar allra að ákveða. Og er eitthvað meira spennandi en samfélag fólks að rífa niður stéttskipt hreysið sem það fékk í vöggugjöf, til þess að byggja saman upp réttlátt samfélag?
Brjótum upp þennan ömurlega vítahring. Sýnum heiminum. Verum fordæmið. Því þrátt fyrir fámenni og galla erum við mjög framsækin þjóð. Hættum að kóa með lygurum og þjófum. Stöndum upp og tökum okkur í hönd valdið sem réttilega er okkar.
Því ríkisstjórn þar sem Bjarni Ben, maðurinn sem getur ekki borgað í stöðumæli án þess að setja fyrirtæki á hausinn, er fjármálaráðherra er vanhæf ríkisstjórn.
Ríkisstjórn þar sem Sigmundur Davíð er forsætisráðherra, skammar þjóðina fyrir dónaskap og sakar hana svo um að vera veruleikafirrt, er vanhæf ríkisstjórn.
Ríkisstjórn þar sem Gunnar Bragi reynir að hætta með ESB eins og pennavin er vanhæf ríkisstjórn.
Ríkisstjórn þar sem Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar er vanhæf ríkisstjórn.
Ríkisstjórn sem starfar í þágu auðvaldsins en ekki þjóðarinnar er vanhæf ríkisstjórn.“