Í hvert skipti sem íslenska lögreglan kemst í fréttirnar fyrir hitt eða þetta klúður fæ ég nokkurs konar afturhvarf til grunnskólaáranna.
Í grunnskóla var ég nefnilega lagður í einelti. Það var kannski ekki eins grimmilegt eða langvinnt og hjá mörgum öðrum, enda hef ég fyrir löngu fyrirgefið öllum og ber engan kala, en þessi reynsla hefur hvað mest mótað viðhorf mitt og traust til yfirvalda. Sérstaklega eftir að ég eltist og sá söguna endurtaka sig undir augum sama fólks og sagðist hafa lært af mínu máli.
Gagnrýni á lögregluna er að flestu leyti eins og eineltið sem ég varð fyrir. Því öll klúðrin eru eins:
Löggan gerir eitthvað af sér – fólk verður reitt og gagnrýnir – annað fólk kemur á móti og hrósar lögreglunni í bak og fyrir – litið er á málið sem einsdæmi og að ekki megi mála stofnunina út frá svona afmörkuðu dæmi – allir gleyma þessu og halda áfram að dásama krúttlegasta gengi Íslands.
Svo tekur við næsta kynslóð gerenda og fórnarlamba.
SJALDAN VELDUR EINN ÞÁ TVEIR DEILA
Þau skipti sem ég reyndi að koma vanlíðan minni á framfæri fékk ég reglulega spurninguna:
„Ókei, en hvað varst *þú* að gera sem fékk þau til að láta svona?“
Það var örugglega skrýtið hvað ég kvartaði oft undan því að vera lagður í einelti og liði illa. Hinir krakkarnir voru ekki að kvarta undan einelti, og þeim leið ágætlega. Hví að rjúfa þann frið? Vandamálið hlaut að liggja hjá mér.
Ég þurfti bara að hafa stjórn á skapi mínu og leika mér á öðrum stöðum. Og ef ég lenti í útistöðum með hnefalögmálum við þá sem píndu mig? Þá var auðvitað best að taka mig úr umferð. Því enginn annar var að kvarta.
Eins með fréttir af lögreglunni. Það er látið eins og ekkert hafi nokkurn tíman áður gerst í sögu hennar, að aldrei hafi stofnunin eða starfmenn hennar gert neitt af sér fyrir þetta atvik. Svo verða báðir aðilar að vera jafn sekir í þessu afskaplega afmarkaða máli, ef gerandinn var þá sekur yfirleitt.
Vinsælt dæmi er atvikið þegar drukkin kona var notuð sem gólfmoppa á götur Reykjavíkur fyrir að veitast að hugrökkum lögreglumanni með lífshættulegum hráka. Segjum að ekkert myndband hefði náðst af atvikinu og að málið farið fyrir dóm. Hefði konan verið sakfelld? Mjög líklega. Hefði lögreglumaðurinn hugrakki verið sakfelldur fyrir sitt framferði?
Ég myndi setja inn kaldhæðnislegan hrossahlátur en slíkt lítur illa út á prenti svo þið þurfið bara að ímynda ykkur. Röddin mín er stráksleg og stríðin með kvenlegu yfirbragði (rétttrúnaðarleiðin til að segja „hommaleg“).
Og gleymum ekki að handtakan, dæmd sem líkamsárás, var varin af lögreglunni.
Einelti er lýðræði
Einelti þrífst ekki bara í gegnum líkamlegt vald. Einelti er mikið lúmskara og erfiðara því það þrífst í gegnum samþykki fjöldans. Hrekkjusvín eru ekki eins og Nelson í The Simpsons, vinafá og bara hnefinn. Hrekkjusvín eru vinsæla fólkið, þau sem eru góð í að safna um sig fólki og stjórna. Félagslegt vald þeirra er svo staðfest gagnvart öllum með því að velja þann neðsta í goggunarröðinni og tæta rólega í sundur.
Þið sem hafið lent í einelti þekkið þetta:
Vinir forsprakkans dásama hann. Viðurkenna kannski að einhvern tímann sé gengið aðeins of langt en það er bara þetta eina skipti… sko. Og þau sem þú hélst að væru félagar þínir standa á hliðarlínunni og kóa með; hann/hún er alveg fín manneskja fyrir utan þetta „atvik“, svo það er óþarfi að vera með leiðindi og festa sig í þessu.
Mikilvægasta forvörn eineltis er að ná til þeirra sem standa á hliðarlínunni og telja sig stikkfrí með því að taka ekki afstöðu. Eins hræðilega leiðinlegt og svarthvítur hugsunarháttur er, sá hugsunarháttur sem ég forðast mest, þá er enginn hlutlaus í einelti. Þetta er vítt félagslegt vandamál sem byggir á skeytingarleysi.
Þetta þekkist í hestastóðinu, fjárhúsunum, allt frá leikvellinum og upp í stjórnmálin. Blóraböggullinn er notaður til að sameina hópinn og sýna fólki hvað gerist stígi það út fyrir ramma forsprakkans.
Það sem eflir lögregluna í sínu ofbeldi er því þegar fólk er stolt af því að styðja hana þrátt fyrir afglöpin. Þegar það telur einhver önnur verk lögreglunnar bæta upp fyrir níðingsverkin.
You can‘t be neutral on a moving train. – Howard Zinn
Þess vegna er svo vont að sjá fólk lýsa yfir skilyrðislausri ást á íslensku lögreglunni. Blekkja sjálft sig í að halda að aldrei hafi neitt gengið á áður, og að ekkert muni ganga á aftur.
Rétt eins og hvað félagi þinn er fyndinn og skutlar þér stundum bætir upp fyrir að hann barði konuna sína í klessu um daginn. Bara þetta eina skipti samt, sko, og hann lofaði að gera það ekki aftur.
PÍSKRIÐ
Með því óþægilegra í einelti er baktalið. Á sinn hátt getur það verið verra en beina ofbeldið. Þú veist hvenær barsmíðar hefjast og hvenær þær enda. Þú veist hins vegar ekki hvenær eða hver baktalar, eða hvað er sagt. Þú hefur bara ímyndunaraflið.
Baktalið er tól siðmenntaðra fólks; unglinga, fullorðinna og stelpna. Og auðvitað lögreglunnar líka.
Það var lögreglan sem kallaði mig óvin sinn löngu áður en ég fór að heyra af valdníðslu hennar. Í kolólöglegri skýrslu hennar í anda Sovétríkjanna er ég þó ekki nafngreindur, ólíkt mörgum öðrum, en þarna er skýlaust komið fram við ákveðinn hóp sem óvini. Eins leiðinlegir og merkimiðar á ismum eru þá hef ég vissulega daðrað við hugmyndafræði anarkisma. Og ef þú hugsar „ohh, en þeir meina ekkert anarkisma þannig skoh, þeir bara meina einhver sem skemmileggur“ þá ímyndaðu þér þetta í skýrslunni:
„Konur eru byrði á samfélaginu. Þeim þarf að sýna sérstaka tillitsemi og umönnun enda veikari fyrir en aðrir íbúar.“
Móðgandi fyrir meira en helming landsmanna, ekki satt? Rangt. Því þegar ég sagði „konur“ þá meinti ég það ekki *þannig*. Þegar ég sagði konur þá meinti ég bara „fólk með kvíða og þunglyndi“ og „þeir sem veikjast oft“. Ekkert beint gegn kvenkyninu sko.
En þó ég sé ekki endilega nafngreindur á einhverjum lista hennar núna þá verð ég það líklega eftir þennan pistil.
Það er staðreynd að lögreglan safnar upplýsingum um fólk. Upplýsingum sem þeim koma ekkert við. Og við vitum ekkert um hver annar fær þessar upplýsingar, eða hvort upplýsingarnar séu sannar yfirleitt.
En hvar ætlar löggan að fá upplýsingar um fólk sem ekki mætir á mótmæli eða skrifar óþarflega leiðinlega pistla?
Hleranir eru samþykktar í 99% tilvika. Ímyndaðu þér að einhver hefði 1% líkindi á að giska ekki á facebook-lykilorðið þitt. Og ímyndaðu þér að þú sért í 8. bekk og að þessi viðkomandi sé flissandi hópur af skinkum.

„A-ha-ha! Hann hringdi fimm sinnum í fyrrverandi kærustu klukkan fjögur á laugardagsnóttu! Svo hvað segiði, húsleit?“
OFBELDIÐ
Mótmælendur barðir fyrir að sletta skyri á bíl, Helgi Hóseasson reglulega handtekinn fyrir bókstaflega ekki neitt, brotist inn á heimili og fólk barið með byssum og piparúða, leitað á fólki að ástæðulausu, listinn er sorglega langur og útskýrir sig og tengsl sín við einelti sjálfur. Sérstaklega er listinn sorglegur þegar við hugsum um að aðeins brot af gjörðum lögreglunnar komast í fréttir.
Og eins og í einelti er hópurinn sem verður verst fyrir barðinu á löggunni utangarðsfólk. Einhverjir ekki alltof vinsælir, fólk sem litið er niður á og þeir sem minna mega sín hvort sem það er í almenningsáliti, félagsstöðu eða sjúkdómum. Þeir sem almenningi er í raun sama um eða hafa ekki áhuga á.
Lögreglan smyglar meira að segja vopnum til landsins. Ég man vel eftir öllum þeim dögum sem hrekkjusvínin mín komu með hnífa í skólann. Ekki samt af því að öryggistilfinning mín var svo sterk í þá daga.
EN – EN KRÚTT!
Öll þessi dæmi um félagslegt og líkamlegt ofbeldi! Hvernig er þetta mögulegt þegar gerandinn eyðir öllum öðrum stundum í að krútta sig í botn? Á Instagrami íslensku lögreglunnar eru engar myndir af ólöglegum líkamsleitum, harkalegum handtökum eða hótunum. Sérðu einhvers staðar mynd af Ómari Ragnarsyni hangandi á milli lögregluþjóna þar sem þeir bera hann burt frá löglegum mótmælum, sem vekja áttu athygli á ólöglegum framkvæmdum? Er einhver klausa um að hjálpa leigusölum að ræna frá leigjendum? Auðvitað ekki. Þetta eru krúttsprengjur. Kúl krakkarnir. Þau gera ekkert af sér, við hin sem ekki erum vinir þeirra erum bara afbrýðisöm eða eitthvað.
Þetta er eins og barnið þitt. Það er sætt. Aldrei gæti það gert flugu mein.
AÐ TILKYNNA LÖGREGLUNA
Og hvernig geta öll þessi dæmi um afbrot staðist án þess að neinn svari til saka? Eru það ekki jú bara glæpamenn sem lenda í útistöðum við lögregluna?
Lögreglan meira að segja hvetur fólk til að tilkynna misferli lögreglunnar!…
… til lögreglunnar.
Að tilkynna lögregluna fyrir brot í starfi er eins og að fara til eldri bróður eða besta vinar hrekkjusvínsins og ætlast til að þess að sá aðili lagi ástandið. Þannig er skólakerfið betra en lögreglan þegar kemur að einelti. A.m.k. í skólakerfinu fær maður tugguna „Já, ég er búinn að tala við viðkomandi“ eða „Já, viðkomandi er búinn að tala við skólastjórann“. Hjá íslensku lögreglunni fær maður „Já, viðkomandi ætlar að tala við sjálfan sig“.
Það er svo enn skemmtilegra þegar verðir landsins neita að tjá sig (þau skipti sem þeir ekki bara ljúga). Því þá þurfum við að borga fyrir þögnina. Það er eins og að stríðandinn neiti snúðugur að fara til skólastjórans, og svo þurfir þú að kaupa handa honum bland í poka.
16 kærur af 302 árin 2002-2013 leiddu til ákæru. Þar af þrjár með sakfellingu. Þetta eru sömu dómstólar og heimila allt baktalið – ég meina njósnirnar – afsakið þetta ég meinti forvirkar hleranir eða hvað svo sem þetta á að kallast.
Almenningur heyrir bara af broti þess sem á gengur. Það fer nefnilega að hljóma holt þegar Herra Brottfall Atvinnuleysisson kvartar undan þriðju ólöglegu húsleitinni í þessari viku. Jafnvel þó hann hafi hlotið sína reglulega áverka þegar honum var haldið niðri meðan einhver vaskur laganna vörður fór í gegnum nærbuxnaskúffuna. Það er enginn áhugi sýndur í fjölmiðlum.
Ekki frekar en þegar einhverfi nördinn kemur niðurlútur inn úr frímínútum.
SÆTTIR
Manstu eftir mest niðurlægjandi stundum skólagöngunnar? Mín er kannski ekki svo niðurlægjandi miðað við það versta sem gæti hafa gerst, en það brennur samt. Það voru stundirnar þegar ég þurfti að biðja hrekkjusvín afsökunar á því að ég stóð upp á móti þeim.
„Takist nú í hendur og biðjið hvort annað afsökunar“.
Eitt skiptið neitaði ég að taka í höndina og segjast fyrirgefa því ég þekkti alveg viðkomandi. Ég vissi vel að aðilinn sá ekki eftir neinu og að ekkert myndi breytast. Ég sagði því ekkert og tók ekki í neinar hendur.
Og fyrir það var ég skammaður sérstaklega.
BARA REIÐUR UNGUR MAÐUR
Margir munu afskrifa þennan pistil sem „reiður ungur maður þykist vera edgy uppreisnarseggur“. Það er þægilegt að afskrifa allt sem ég segi því ég er svo bitur yfir örlitlu saklausu einelti í grunnskóla. Það er líka þægilegt að hugsa að ég sé að ímynda mér þetta því ég sé fúll yfir einu afglöpum lögreglunnar í sögu Íslands; þarna fyrir viku þegar einhver lögga sagði það ólöglegt að búa til myndbönd um rútur.
Þau sem hugsa það eruð væntanlega ekki búin að lesa alla leið hingað. Líklegast hafa þau lokað glugganum, hreinsað history og eytt vafranum þegar þau föttuðu þemað. Nema þá að þau hafið verið nógu snjöll til að fatta lúmskan og óljósan titilinn og bara ekkert opnað síðuna.
En sannleikurinn er að mig langar ekkert að vera hræddur við lögregluna. Ég væri mikið öruggari og ánægðari ef ég gæti búið hérna óhræddur við ofsóknir. Það er ekkert gaman að eyða púðri í að rakka niður vinsæla krakkann. Það er ómögulegt. Það væri allt auðveldara ef ég gæti líka verið eins og hinir og litið til svörtu stakkanna með öryggistilfinningu.
Það er leiðinlegt að halda lista yfir öll afglöpin. Því enginn listi er nógu langur eða grófur til að þóknast þeim sem ekki hafa orðið fyrir barðinu á íslensku lögreglunni.
Ég hefði átt að halda lista yfir öll þau skipti sem mér var strítt í skóla. Þá hefði ég kannski sloppið við athugasemdir eins og „ó, manstu ekki? Ertu ekki bara að ljúga?“ eða „er þetta allt saman? Allt sem var gert?“ eða „vá, þetta er nú ekki neitt“. Það er nefnilega ekki gaman að leita aftast í dimmu skúmaskotin þar sem maður geymir þessar leiðinlegu minningar. Oft erfitt.
En sama hvað maður taldi upp mörg atriði þá virtist það aldrei vera nógu krassandi til að neinn sýndi áhuga.
GLEYMIÐ ÞESSU
Ég veit að í lögreglunni starfar upp til hópa gott fólk sem vill bara gera hið besta fyrir landið. Eins og í mínum skóla voru samnemendur og starfsfólk almennt góðhjartað fólk. En það breytir því ekki sem gerst hefur.
Það er mjög einfalt að hunsa valdníðslu löggunnar. Gerðu það bara. Hættu að lesa núna og hugsaðu aldrei um það aftur. Það er svo einfalt.
Ég veit að það er einfalt því ég veit hversu einfalt það er að líta framhjá einelti. Ég hef séð fólk líta undan mínu einelti, einelti sem vinir og ættingjar mínir urðu fyrir, og ég hef sjálfur litið undan einelti. Það er svo hrikalega einfalt, og ég skammast mín líka mest af öllu fyrir það.