Við fórum í bíltúr á dögunum hjónin og bóndinn ók um sín eftirlætishverfi aðallega til að fussa yfir framtaksleysi þeirra sem ekki eru jafn garðsinna og hann sjálfur:
„Sjáðu til Steinunn, það var alveg rétt hugsað hjá mér að byrja framkvæmdirnar í byrjun apríl því núna, þegar sumarið virðist LOKSINS vera að koma, þá er garðurinn okkar að verða tilbúinn.“ Að þessu sögðu smellti hann í góm og brosti hróðugur út um bílgluggann og hélt áfram:
„Hvað er þetta, hvers vegna er ekki búið að þrífa þessi beð fyrir lifandis löngu? – og sjáðu hvernig fólki er nákvæmlega sama um grasblettina sína … það er ekki hægt að hafa þetta bara svona brunnið og … ætlar fólk að fara klippa hekkin NÚNA, núna þegar þau eru að eyða allri sinni orku í brumið! Þetta er bara ofbeldi!
Sálarlíf plantna hefur verið bóndanum hugleikið að undanförnu og nú kveður svo rammt að þessu að umræðuhefðir eru að leggjast af á heimilinu því hann talar orðið að mestu við plönturnar sem hann gróðursetur í gríð og erg, svo ekki sé minnst á fræin.
Vel eftir miðnætti heyrði ég hann í hrókasamræðum við bambusfræ sem hann er nýbúinn að sá – mig langaði nú til að benda honum á að sennilega skildu þau hann illa þar sem þau eru langt að komin en vildi ekki trufla andaktina sem fylgdi þessu hjali.
Undanfarnar vikur hafa verið að berast hingað undarlegir bögglar frá Asíu, merktir Craft beads eða föndurperlur. Í pökkunum eru alls engar föndurperlur og ég skal ekki segja hvers vegna þeir eru svo merktir en innihaldið er allt annað en umbúðirnar segja til um.
Í þessum smápökkum eru nefnilega fræ hvaðanæva úr heiminum og söluaðilanum sem mér virðist vera í Kína er greinilega umhugað um að vel gangi hjá þessum æsta kaupanda því í gær fylgdi sendingu peningaseðill og óskir á bjagaðri ensku um gott gengi.
Vorhreingerningin fór fyrir lítið því nú eru hér sáðbakkar um alla veggi og í öllum gluggakistum. Við hlið sófans er poki með grús og annar með vikri, undir hjónarúminu er hann að láta kartöflur spíra því gott hjónalíf segir hann hafa góð áhrif á vöxt væntanlegra móðurkartaflna.
Utan á ofnanna hefur hann hengt sáðbakka með fræjum sem þurfa alveg sérstakt atlæti. Hann sat andspænis mér fyrir nokkrum dögum og tilkynnti mér að þessi fræ þyrftu helst að fara í gegnum meltingarveg fíla til að ná að spíra og að í fílaskítnum sjálfum færi spírunin (ef það er orð) fram.
Ég velti því fyrir mér hvað hann væri eiginlega að fara? Datt honum í hug að ég hefði tök á að útvega honum fílaskít? Þá kom næsta spurning: Áttu naglaþjöl?
Ég sagði að því miður væri ég tæp á fílaskít en naglaþjöl ætti ég og honum væri velkomið að fá hana lánaða. Svo settist hann við að sverfa ysta lagið utan af fræunum og lagði þau svo í einhvern dularfullan lög … ég spurði einskis.
Hann er líka að reyna að koma til Síberíubambus en hann þolir víst 15-20 stiga frost og vex ekki svo við vitum hér á landi. Hver veit nema honum takist að koma fræjunum til og reisa bambusvegg í garðinum. Bambusinn er náttúruhljóðfæri, segir Stefán, og fullyrðir að þytur í bambuslaufum hafi róandi áhrif á menn og dýr.
En núna þegar júní gengur í garð … hahaha … er garðurinn aldeilis að taka á sig mynd og með aðstoð trjáa nágrannanna sem eru öll í óða önn að fylla krónur sínar og veita nýja garðinum meira skjól þá er þetta smátt og smátt að verða algjör paradís.
Ég hef aðeins fengið leyfi hjá eiginmanninum – undir eftirliti auðvitað – til að gróðursetja smávegis og varð undarlega hamingjusöm þegar mér tókst að finna hostur og stóraburkna til að setja í skuggabeðin.
Í sömu verslun voru seldar begóníur sem komu fram á mér tárunum. Amma mín sem aldrei var kölluð neitt annað en Lína ræktaði alltaf begóníur og þær voru risastórar og blómstruðu hjá henni án afláts yfir sumarið. Hún amma hafði yndi af gróðri og blómum og brúðarslör átti hún svo mikilfenglegt að fólk gerði sér ferð til að heimsækja það sérstaklega. Nú bíð ég eftir því að ég finni rétta litinn af begóníum og þá mun ég eins og amma leggjast í begóníuræktun.
Ég veit fátt skemmtilegra en að gróðursetja og það að setja eitthvað niður í jörðina, og sjá það vaxa og dafna er eiginlega það eina í heiminum sem mér finnst meika fullkomlega sens.
Ég var búin að lofa að sýna ykkur meira úr garðinum og hér eru blómapottarnir úr bíldekkjunum sem skreyta húsið að framanverðu.
Það er erfiðisvinna að búa þessa potta til en þeir eru níðþungir og sniðug lausn á því að nýta dekk sem eins og við vitum eru óendurvinnanleg.
Þetta útiborð smíðaði Stefán úr gamalli útihurð og felldi í það fjalir héðan og þaðan. Það er feikna sterkt og kostaði ekki krónu.
Að byggja utan um grillið var snilldarhugmynd í þessari rokreykjavík og smíðaefnið áfram pallettuviður sem fékkst gefins.
Hér er svo grænmetisgarðurinn og hér erum við að rækta salat og kálhausa og ýmislegt ætilegt.
Ekki eru allir smíðisgripirnir mér að skapi og þetta fatahengi verður gefið á næstu tombólu!
Meira síðar og njótið dagsins!
p.s
Hér má sjá myndband þar sem eiginmaðurinn herðir plöntur.