Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hvar er kjarkurinn?

$
0
0

Eftir algert skipbrot ríkisstjórnarinnar í makrílfrumvarpinu hefur sjávarútvegsráðherra gengið skrefinu lengra. Núna á með pennastriki að úthluta makríl með gerræðisvaldi ráðherra.

Reglugerð um makrílveiðar.

Hér að framan er makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra orðið að reglugerð.  Miklum þrýstingi hafði verið beitt til þess að forseti Íslands skrifaði ekki undir lagasetningu á nákvæmlega sömu uppsetningu á lögunum.

http://thjodareign.is/

Krafan frá íslensku þjóðinni var þjóðaratkvæðagreiðsla. Rétt rúmlega 51 þúsund manns hafði skrifað undir. Undirskrifasöfnuninni átti að halda áfram þar til makrílfrumvarpið rataði fyrir þingið aftur. Afleiðingar frumvarpsins eru í grófum dráttum að meirihluti smábátaflotans er frystur undir sultarmörkum.

Úthlutunareglur eru á þann veg að þeir sem hófu veiðar fyrstir fá meginþorrann. Það er uppsjávarútgerðin og í minna mæli frystitogaraútgerð. Vegna þess hvernig göngum makríls er háttað kemur hann yst í lögsöguna fyrst. Þar sást hann fyrst og þar var hann veiddur samhliða síldveiðum og þá sem meðafli. En árið 2010 gerir makríllin vart við sig á grunnslóð í miklum mæli.

Smábátaflotanum var úthlutað örmulsu til tilraunaveiða. Á næstu árum undu þessar veiðar upp á sig. Þá var settur á pottur sem hver sá sem vettlingi gat valdið var heimilað að sækja í. 117 útgerðir sáu tækifæri í makrílsókn smábáta, ýmist línubátar sem voru búnir með kvótann þetta árið eða nýliðar sem sáu sér færi á að hefja útgerð.

En smábátaflotinn fékk aldrei tækifæri til þess að sækja í makrílinn óheft eða með rúmlegum potti. Potturinn var alltaf skorinn svo við nögl að ekki var nægjanlegt magn nema til u.þ.b. tveggja mánaða sóknar.  Veiðireynsla bátanna er eftir því. Núna á að höggva fyrirkomulagið í stein.

Smábátaútgerðin á að fá 5% úthlutað á meðan stærstu 12 útgerðirnar fá u.þ.b. 94%. Til að setja tölurnar í samhengi þá eru þetta 117 gegn 12. Þessar 117 útgerðir sem margar hverjar fóru í gríðarlegar fjárfestingar eiga nú að keppa hver gegn annarri um að kaupa hina út til að fá næganlegan skammt til að veiðarnar borgi sig.

Þess ber að geta að 5% af afla uppsjávarveiða fer í rýrnun. Það er sama tala og þessum 117 útgerðum er ætlað að hafa sín á milli.

Hversvegna þarf þessi búbót fyrir landsbyggðina að hverfa í hendurnar á örfáum byggðarlögum?

Makríllin á grunnslóð var hvalreki fyrir fiskvinnslur um allt landið, hægt var að halda uppi vinnslu á annars dauðum  tíma í kvótaárinu. Kvótaárinu lýkur 31. ágúst. Oft er það á þann veg að minni útgerðir hafa einungis aflaheimildir fyrir hálft kvótaárið og því fellur fiskvinnsla niður um löng skeið. Makríllinn hefði bjargað þessu við að einhverju leyti.

Nú spyr ég  sjávarútvegsráðherra: Hversvegna var þetta ekki lagt fyrir þingið? Hversvegna er þetta ekki lagt fyrir þjóðina?

Hvar er kjarkurinn?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283