Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sambúð eða hjúskapur?

$
0
0

Í mínu starfi rek ég mig oft á að fólk heldur að réttarstaða sambúðarfólks og hjóna sé sú sama. Ég átta mig ekki alveg á því hvað veldur þessum langlífa og útbreidda misskilningi en svona er staðan alls ekki. Gift hjón búa yfir mun meira réttaröryggi en sambúðarfólk.

Í hjúskap skulu aðilar eiga allar eigur að jöfnu, burtséð frá skráningu þeirra, nema um annað sé sérstaklega samið með kaupmála. Sérstakar reglur gilda um form og gerð slíks kaupmála og sé ágreiningur við skilnað, eða eftir atvikum andlát, er eins gott að rétt sé að slíkum samningi staðið. Við upphaf sambands ætlar vissulega hvorugur aðilinn að skilja eða falla frá á undan hinum en við stjórnum framvindu lífsins ekki allskostar sjálf. Þannig er það bara. Þess vegna verðum við að vera meðvituð um stöðu okkar og rétt.

Kaupmála er eingöngu hægt að gera á milli hjóna, en ekki á milli sambúðarfólks. Skuldir skulu fylgja þeim sem til þeirra stofnaði en eignir skulu vera jafnar.

Þessu er ekki fyrir að fara hjá sambúðarfólki. Þar á sá sem skráður er fyrir eign þá eign nema hinn aðilinn geti með bersýnilegum hætti sannað að svo sé ekki. Hefur margsinnis reynt á þetta fyrir dómstólum. Þannig geta skipti milli sambúðarfólks reynst þrautinni þyngri hafi sambýlingar að hluta til fléttað fjármunum sínum saman.

Deilt er um hver sá um að reka heimilið og hver keypti eignir. Hver greiddi fyrir hvað og með hverju? Slík spurning kemur oftar en ekki upp þegar skipta á milli sambúðaraðila og þá reynir á að geta sannað hver greiddi fyrir hvað. Það verður að viðurkennast að við skilnað eða sambúðarslit er fólk oftast ósátt að einhverju leyti, ella stæði það varla í þessum sporum. Þá spyr fólk iðulega hvort það hefði skipt einhverju máli að vera í hjúskap og svarið er einfalt. Já, það skiptir máli því réttarstaðan er önnur.

En það er ekki bara við skilnað sem hjúskaparstaða skiptir máli. Tökum dæmi af venjulegu íslensku sambúðarfólki sem á hvort sitt barnið úr fyrri sambúðum og eitt saman. Þau eiga saman fasteign og innbú og eru bæði skráð fyrir fasteigninni. Það skal tekið fram að ég tala um þau til einföldunar þó að vissulega geti verið um að ræða þær eða þá eins og gengur.

Við andlát annars þeirra erfir sambúðaraðili ekki neitt. Hinn látni einstaklingur arfleiðir börn sín tvö að öllum veraldlegum eigum sínum. Þannig stendur sambúðaraðilinn eftir með hálfa eign, hafi þau bæði verið skráð fyrir eigninni.

Hafi hinn látni aðili einn verið skráður fyrir eigninni erfa börnin tvö alla eignina og sambúðaraðilinn er upp á náð og miskunn þeirra kominn með áframhaldandi búsetu á eigin heimili. Barn þess látna, eða eftir atvikum foreldri þess ,sé barnið ólögráða, getur þannig farið fram á að búið verði gert upp. Þannig getur hinn eftirlifandi þurft að þola það að heimilið verði gert upp, skipt í öreindir svo ekkert er eftir af fyrra heimili bara við það að sambúðaraðilinn fellur frá.

Séu aðilar í hjúskap erfir maki þriðjung eftir maka sinn og börnin 2/3 saman. Eigi hjón börn fyrir hjúskap og vilji  koma í veg fyrir að hinum eftirlifandi maka verði gert að skipta búinu við andlát hins, er ráðlegt fyrir þau að gera með sér erfðaskrá. Í erfðaskránni er mögulegt að það eitt standi að við andlát fái hið eftirlifandi að sitja í óskiptu búi. Þannig getur hinn eftirlifandi maki fengið áfram að búa á heimili sínu og þarf ekki samþykki barns hins látna eða eftir atvikum foreldris þess. Slíka erfðaskrá getur sambýlisfólk ekki gert sín á milli enda ekki litið svo á að um sameiginlegt bú þeirra sé að ræða.

Mýtunni um að réttarstaða hjóna og sambúðarfólks sé sú sama verður að koma fyrir kattarnef því hún kemur oft og tíðum verulega niður á hagsmunum einstaklinga sem eru nógu erfiðar fyrir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283