Tónlistarhátíðin Eistnaflug fór einstaklega vel fram í Neskaupstað um helgina. Veðrið lék hátíðargesti grátt og segja má að tjaldsvæðið hafi verið á floti undir lok helgarinnar. En það segir sitt um stemninguna á Eistnaflugi að hátíðarhaldarar buðu blautum tjaldbúum að gista í Egilsbúð síðustu nóttina, þeim að kostnaðarlausu. Það var afskaplega þægileg stemning á hátíðinni, fólk var almennt í góðu skapi, vinalegt og afskaplega skemmtilegt. Flestir bera því söguna að mantra hátíðarinnar – Ekki vera fáviti – sé svo gott sem algild, þar sem metalhausar hvers kyns virðast njóta þess að skemmta sér fallega.
Umgjörðin um hátíðina var frábær, betri heldur en nokkrar aðrar en undirrituð hefur sótt undanfarin ár hér á klakanum. Fólk hafði aðgengi að rennandi vatni. Bjórinn var viðráðanlegur í verði og ískaldur við kaupin. Aðgengi fyrir fatlaða var í góðum gír og aðgengi fyrir hátíðargesti almennt var mjög gott, engar biðraðir, ekkert vesen.
Dagskráin var þétt og hörð. Undirrituð er lítill metalhaus og hefur því skammarlega lítið vit á því sem fram fór. Líkt og fyrri skipti sem ég hef sótt Eistnaflug hefur tónlistin þó ætíð verið aukaatriði í mínum augum, það er félagsskapurinn og gleðin sem brýst út á Eistnaflugi sem laðar mig að þessari hátíð. Fólkið sem hana sækir eru nefnilega engir fávítar heldur öðlingar með meiru sem láta rigningu og leiðindi ekki trufla gleðina. Metalhausarnir á staðnum sögðu mér að hljómsveitin Behemoth væri stjarna hátíðarinnar og ég gat ekki annað en samsinnt þeim. Þeir voru helvíti flottir á sviðinu, höfðu vindvélar sér til halds og taks og buðu áhorfendum sínum upp á rokk-óperu þar sem hvert skref á sviðinu hafði verið samhæft og æft til fullkomnunar.
Þá vöktu gamalkunnir gestir hátíðarinnar einnig mikla lukku en þar má nefna Brain Police, HAM og Sólstafi sem allir stóðu sig með prýði í að trylla mannskapinn. Auk þess má nefna Enslaved og Kvelertak sem afbragðs atriði sem ég hafði einstaklega gaman af að fylgjast með.
Allt í allt verður að segjast að Eistnaflug sé uppáhalds útihátíðin mín á Íslandi. Neskaupstaður er gullfallegur í alla staði, heimafólk vinalegt og skemmtilegt og gestir hátíðarinnar alveg frábærir líka. Umgjörðin öll er ótrúlega vel unnin og greinilegt að mikil vinna hefur farið í það hjá hátíðarhöldurum að það fari vel um alla sem á hátíðina mæta. Fimm stjörnur. Þið þurfið ekkert að trúa mér – Sjáiði bara þessar mögnuðu myndir sem Hafþór Sævarsson tók fyrir Kvennablaðið á meðan hátíðinni stóð!

Tónleikagestir nutu hljómgleðinnar