Hugsanlega veistu hitt og annað en líklegra er að þú vitir engin ósköp um þetta fjórða fjölmennasta ríki heims frekar en ég, höfundur þessa greinarkorns, áður en ég sótti landið heim í fyrsta sinn fyrir aðeins einu og hálfu ári.
Það er ekki ólíklegt að þú hafir vitað að Indónesía er fjölmennasta múslímaríki heims en það er þó ekki víst að þú vitir að þar búa hvorki meira né minna en um 255 miljónir manna. Aðeins Kína, Indland og Bandaríkin geta státað af hærri íbúafjölda.
Það vita heldur ekki allir að til Indónesíu teljast 17.508 eyjar, nokkrar þeirra gríðarstórar en aðrar ósköp smáar, og að samanlagt flatarmál þeirra er hátt í tvær milljónir ferkílómetra. Eyjaklasinn er allur á lengdina og teygir sig svo að segja eftir miðbaugnum röska fimm þúsund kílómetra frá vestri til austurs, frá Súmötru rétt undan meginlandi Asíu til Papúa Nýju Gíneu í Kyrrahafi skammt frá norðurströnd Ástralíu. Þetta er svipuð vegalengd og frá Íslandi til Egyptalands.
Eldvirkni á þessum slóðum er einhver sú mesta í veröldinni og sjaldgæft að ekki sé eitthvert fjallið að gjósa. Ég var á ferð um Norður Súmötru nú í apríl og virti fyrir mér af svölum hótels míns við Toba-vatn fagurt og meinleysislegt keilulaga eldfjall að nafni Sinabung í um 25 km fjarlægð. Þar hefur síðan gosið tvisvar, fyrst í júni og síðan aftur fyrir fáeinum dögum, rétt eftir að íbúum úr fjallshlíðinni var leyft að halda heim í sveit sína. Tugir manna týndu lífi og þúsundir misstu allt sitt. Og ég flaug í maí frá Súrabæja á Austur-Jövu yfir sundið til Balí. Flugsamgöngur á þeirri leið hafa nú truflast undanfarna daga viku vegna goss í fjallinu Raung sem ég dáðist að út um gluggann á flugvélinni. Það gos stendur enn.
Jarðskjálftar eru líka tíðir á þessum slóðum og valda þeir stundum miklum hörmungum. Náttúruhamfarir eru svo samofnar lífi fólks á eyjum Indónesíu að það hlýtur óhjákvæmilega að móta viðhorf þess til hlutskiptis mannsins og örlaga.
Íbúar eyjanna sem tilheyra Indónesíu eru af býsna margvíslegum uppruna, um 300 aðgreinanlegum kynstofnum. Þeir tala meira en 700 mismunandi tungumál og aðhyllast ólík trúarbrögð, menningu og siði. Meirihluti indónesísku þjóðarinnar býr á vestustu eyjunum tveimur, 50 milljónir á Súmötru og 143 milljónir á Jövu, en sú síðarnefnda er ekki nema þriðjungi stærri en Ísland. Þær eyjar eru með eindæmum frjósamar því þar renna margar og stórar ár frá háum fjöllum um dali og sléttur, hiti er stöðugur kringum 30 stig árið um kring og síðast en ekki síst er gróðursældin að þakka gosefnunum í jarðveginum.
Java hefur verið ein rómaðasta matarkista veraldar í mörg þúsund ár. Hún er langþéttbýlasta eyja heims. Vestanvert á norðurströndinni stendur höfuðborg Indónesíu, og þaðan er öllu þessu víðfeðma og sundurleita eyríki stjórnað, oft af talsverðri hörku.
Sú spurning hlýtur að leita á þig, lesandi góður, hvernig á því standi að öll þessi fjarlægu og ósamstæðu eyjasamfélög hafi lent saman í einu ríki, þ.e. hvernig þetta stærsta lýðveldi Suðaustur Asíu sé eiginlega til komið. Svarið er ofur einfalt. Þetta fólk sameinaðist um að hrinda af sér kúgun Evrópumanna sem höfðu mergsogið eyjarskeggja öldum saman. Fólkið var orðið þreytt á að lúta ofurvaldi útlendinga með framandi viðhorf sem fluttu burt allar verðmætustu framleiðsluvörur og skömmtuðu innfæddum skít úr hnefa. Þeir vildu fá að ráða sér sjálfir og njóta afraksturs síns erfiðis.
Næstum allar þessar eyjar höfðu öldum saman verið nýlendur Hollendinga þegar Japanir hernámu þær í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir ósigur Japana gripu samtök sjálfsstæðishreyfinga á stærstu eyjunum tækifærið og lýstu yfir stofnun lýðveldis sem nefnt var Indónesía. Íbúar minni eyja fylgdu á eftir. Hollendingar gerðu örvæntingarfullar tilraunir til að ná aftur tökum á „Indíum“ sínum því auðævin sem þeir höfðu flutt þaðan til Vesturlanda um 350 ára skeið voru undirstaða efnahagsveldis þeirrar evrópsku smáþjóðar. En Holland var nýskriðið undan hæl Þriðja ríkisins og hafði náttúrlega ekkert bolmagn til að standa í hernaði hinum megin á hnettinum. Indónesar öðluðust því í reynd sjálfstæði árið 1945 og frelsishetjan Sukarno varð fyrsti forseti hins nýja ríkis sem hlaut þó ekki fulla viðurkenningu alþjóðasamfélagsins fyrr en 1949.
Næsta spurning lesandans hlýtur að vera hvað geti hnýtt svona sundurleitan hóp fólks á ótal eyjum á fimm þúsund kílómetra löngu svæði áfram í eitt ríki eftir að þeim áfanga var náð að brjótast undan evrópsku nýlenduoki. Ég held að það sé fyrst og fremst tvennt sem bindur indónesísku þjóðina saman, tungumálið og herinn. Tvö ólík bindiefni en hafa þó dugað í sjötíu ár.
„Hægan nú,“ hlýtur einhver að hugsa. Var maðurinn ekki að enda við að segja að töluð væru 700 mismunandi tungumál í Indónesíu? Jú, það er líka rétt en hins vegar er til sameiginleg tunga sem nefnist „bahasa Indonesia“ sem allir læra í skólum þótt annað tungumál sé talað á heimilinu og í nærsamfélaginu. Bahasa er oft nefnt „indónesíska“ enda er það hið opinbera samskiptamál Indónesíu. Dagblöð og bækur eru yfirleitt á indónesísku. Sömuleiðis útvarp og sjónvarp.
Á hitt bindiefnið, herinn, hefur reynt allmikið í sjö áratuga sögu Indónesíu. Líkt og hjá mörgum þjóðum sem öðluðust frelsi frá evrópskum nýlenduherrum eftir heimsstyrjöldina síðari var herinn „ríki í ríkinu“ og þrátt fyrir lýðræðisskipulag, forseta- og þingkosningar o.s.frv. hefur löngum gengið erfiðlega að stjórna Indónesíu í ósátt við ráðandi öfl í hernum.
Með tímanum varð Sukarno sífellt einráðari og undir lok valdaferils síns tók hann að halla sér að vinstri öfgamönnum sem hvorki féll í kramið hjá íhaldsöflum innan indónesíska hersins né Bandaríkjamönnum og Bretum, enda var þetta á tímum kalda stríðsins og mögnuð spenna milli austur og vesturs. Árið 1965 gerðu vinstri menn í Indónesíuher misheppnaða byltingartilraun og í kjölfar hennar hóf herinn miklar „hreinsanir“. Til þess var einkum beitt sveitum „sjálfboðaliða“, óþokka sem fengu það verkefni að draga eyrnamerkta kommúnista út af heimilum sínum og taka þá af lífi án dóms og laga. Talið er að meira en hálf milljón manna hafi orðið þessum böðlum að bráð.
Næstu tvö ár réð Suharto yfirhershöfðingi öllu í Indónesíu þótt Sukarno væri í orði kveðnu enn forseti. Suharto tók svo formlega við og ríkti með harðri hendi næstu þrjátíu árin með dyggum stuðningi Bandaríkjanna.
Síðan Suharto lét af völdum árið 1998 hefur talsvert þokað í lýðræðisátt. Fyrir tæpu ári var í fyrsta sinn kjörinn forseti úr alþýðustétt, Joko Widowo, ævinlega kallaður „Jokowi“, sem miklar vonir eru bundnar við. En það er margt sem tefur og hindrar framfarir í þessu fjölmenna landi þar sem almenningur býr við afar kröpp kjör. Rótgróin spilling og erfiður aðgangur alþýðu að æðri menntun eru ef til vill stærstu þröskuldarnir.
Indónesía er stærsta hagkerfi Suðaustur Asíu og er hún ein af G-20 ríkjunum. Hagvöxtur er þó nokkur en efnahagur almennings tekur litlum breytingum til hins betra. Hins vegar hafa Indónesar betri möguleika á að bæta lífskjör sín en margar aðrar þjóðir því náttúruauðlindir eru þar gríðarlegar og mikill hluti þeirra ónýttur, t.d. olía, jarðgas, dýrir málmar og ekki síst fádæma gjöful fiskimið.
Ég spái því að Indónesía muni áður en langt um líður taka mikinn framfarakipp og skipa hærri sess í goggunarröð þjóða en hún gerir í dag. Hún er auk þess að mínum dómi með allra ánægjulegustu löndum sem hægt er að ferðast til.