Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hættum bara þessu landamærarugli

$
0
0

Ég er einn af þeim sem fagna flóttafólki sem hingað kemur. Ef ég fengi einhverju ráðið myndi ég opna landið algjörlega, hleypa hverjum sem vildi hingað inn og reka alla tollverði. Þeir þyrftu bara að finna sér heiðvirða vinnu eins og aðrir.

Því gleðst ég yfir því að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að taka á móti 50 flóttamönnum frá Sýrlandi, Eritreu, Írak og Sómalíu. En að sjálfsögðu vildi ég óska þess að þeir væru frekar 5 þúsund en fimmtíu. Segjum 50 þúsund! Það er mér óskiljanlegt afhverju sumir vilja hafa einhverja stjórn á því hverjir fá að búa hérna. Það að vera einhverrar þjóðar er algjörlega verðlaust í mínum augum. Að vera Íslendingur er ekkert merkilegt, því ættu ekki að fylgja nein forréttindi og ég skal samþykkja hvern sem hingað kemur sem landa minn. Bara ef hann er ekki leiðinlegur. Ég er með ofnæmi fyrir leiðinlegu fólki.

Hópur fólks á einum stað á hnettinum á ekkert tilkall til einhvers landsvæðis útaf fyrir sig. Þegar slíkt tilkall er gert, í skjóli þess að vera einhver þjóð og öðrum er torveldað að vera þar er það ekkert annað en ofbeldi. Ef hingað vill koma einhver arabi, ríðandi á asna og vinna í áburðarverksmiðju þá er það flott. Hér er nóg pláss, landið er 103.000 km² og ef svo ólíklega vill til að hér fyllist hver krókur og kimi af fólki þá verða krónurnar mínar hugsanlega einhvers virði og ég get látið gamlan draum rætast, gerst spilahönnuður að fullu starfi þegar loks markaður hefur opnast fyrir það.

Á Íslandi búa um 330 þúsund manns. Margir alveg hundleiðinlegir. Ef við myndum hleypa hingað hverjum sem er þá er ég viss um að við fengjum hugmyndaríkt, ævintýragjarnt og frumlegt fólk. Með fleira fólki væri hægt að reka hér strætisvagnakerfi sómasamlega. Allskonar verslanir, sumar jafnvel fáránlega sérhæfðar gætu blómstrað og fólk gæti valið sér maka eftir litarhætti. Þú gætir fundið þér kærustu sem passar við sófasettið.

Ég er samt hræddastur um að jafnvel þó við opnuðum hér allt upp á gátt þá myndi landið ekkert troðfyllast á augabragði. Hingað kæmu margir í byrjun en fljótlega sæi fólk það að hin norðurlöndin standa okkur töluvert framar og vildi frekar vera þar. Við erum með vanhæfa ríkisstjórn þar sem hugmyndir pabbastráka og sveitalubba mynda einhvern eitraðan kokteil sem er langt kominn með að eyðileggja heilbrigðiskerfið, vill virkja nánast hvern einasta drullupoll og lítur greddulegum augum á hvers kyns mengandi stóriðju sem þekktir skattsvikarar sem fá ekki að eyðileggja landið heima hjá sér vilja koma með hingað.

Menntakerfið okkar er svo frábært að flestir útskrifast úr grunnskóla með 9 í öllu og því dugar það ekki til að fá að syngja sig í gegnum framhaldsskólann í Versló. Svo eru margir háskólanemar neyddir til að skuldsetja sig í botn fyrir námi sem gefur þeim réttindi til að vinna vanþakklát störf fyrir svo svívirðilega lág laun að þú þarft aukavinnu eða tvær til að geta flutt út frá pabba og mömmu.

Ástandið er að vissulega mjög mikið skárra en á stríðsvæðum víðs vegar um heim en samt verra en í nágrannalöndunum sem við berum okkur saman við.

Þjóð ætti að vera hópur fólks á sama svæði sem ætlar að vaxa og dafna saman. Ekki bara fólkið sem er búið að sofa hjá hvort öðru í fleiri hundruð ár og er satt best að segja orðið aðeins of innræktað og skoðanafatlað.

Ég er aðeins Íslendingur af því að foreldrar mínir eru það. Ef þeir væru Sýrlendingar þá væri ég samt ég. Ekkert væri öðruvísi nema hugsanlega það að hópur af einhverjum gamaldags og leiðinlegum Íslendingum væri illa við það að deila þessum 103 þúsund ferkílómetrum með mér.

Landamæri eru gamaldags og fólk er bara fólk. Því fleiri því betra.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283