Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fundur í velferðarnefnd Alþingis – píkur í kjarabaráttu, 4. bindi

$
0
0

“Comedy can be a cathartic way to deal with personal trauma”, er haft eftir Robin Williams. Sem gæti á íslensku útlagst sem svo að það megi fá tilfinningalega útrás í gegnum grínið.

Ég er ekki frá því að ég sé sammála því eftir að hafa fylgst með umræðu um kjaramál hjúkrunarfræðinga á fundi velferðarnefndar Alþingis í vikunni. Það er varla hægt annað en að gera smá grín að þessum mannlega harmleik sem þessi deila er komin í. Fyrir marga hjúkrunarfræðinga hefur þessi kjaradeila nefnilega rist djúpt og valdið þeim persónulegum skaða. Skaða á sjálfsmynd sem þeir hafa í nokkur ár byggt með námi sínu og síðar sérhæfingu á sínu sviði í hjúkrun. Skaðanum valda misvitrir menn sem sjá tækifæri í harmi þeirra.

Rakarastofuráðstefnuandinn sveif yfir vötnum á fundinum. Þar voru nefnilega samankomnir þingmenn og yfirmenn heilbrigðisþjónustunnar að ræða vandamál varðandi uppsagnir hjúkrunarfræðinga án aðkomu hjúkrunarfræðinga. Ég velti fyrir mér af hverju hjúkrunarforstjóri Landspítalans var ekki á fundinum. Kannski hefur hún ekkert um málið að segja, en líklegra er að skoðanir hennar og sýn séu of óþægilegar til þess að menn haldi ró sinni á annars virðulegum fundi.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir setti fundinn og sagðist vilja fá svör við því hverjar yrðu afleiðingarnar ef til uppsagna hjúkrunarfræðinga kæmi, hvað væri verið að gera til að koma í veg fyrir uppsagnir og hvaða áætlanir væru uppi ef uppsagnirnar tækju gildi þann 1. október næstkomandi.

Heilbrigðisráðherrann Kristján Þór bullaði um biðlista. Hann áttar sig ekki á að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af biðlistum ef til uppsagna hjúkrunarfræðinga kemur. Landlæknir vinnur að því að greina þessa sömu biðlista. Sannleikurinn er sá að stór hluti þeirra sem eru búnir að segja upp eru á skurðlækninga- og aðgerðarsviði LSH. Það verða því engar aðgerðir nema bráðaaðgerðir og því þurrkast biðlistar út og sennilega líka eitthvað af veiku fólki.

Kristján Þór sagði að kjarasamningurinn sem skrifað var undir hefði verið kolfelldur af hjúkrunarfræðingum. Þá talaði hann um rauðu strikin í samningum Samtaka atvinnulífsins. Honum finnst sem sagt alveg eðlilegt, ef það gengur ekki upp að setja lög á verkfall hjúkrunarfræðinga og taka þannig af þeim verkfalls- og samningsréttinn og láta síðan gerðardóm ákveða launin þeirra einhliða, – þá sé í lagi að Samtök atvinnulífsins séu búin að semja langt út fyrir sínar samningsheimildir og það geti ráðið úrslitum um launahækkanir hjúkrunarfræðinga. Undarleg pólitík það.

Eiginlega bara ruddaskapur fjármálaráðherra og Samtaka atvinnulífsins. Hjúkrunarfræðingum bauðst ekki að kjósa um kjarasamning SA, enda hefðu þeir eflaust kolfellt hann líka. Því er það mín skoðun að þeir hjá SA geti bara haldið sitt eigið partý og samið fyrir sjálfa sig og leyft hjúkrunarfræðingum að semja fyrir sig.

Landlæknir, maðurinn sem hnýtti þann ógurlega rembihnút sem deilan er komin í, sá sér ekki fært að mæta. Sennilega eini maðurinn sem hefur reynt á eigin skinni, eftir að hafa stjórnað sjúkrahúsi í Svíþjóð, að eina lausnin á skorti á hjúkrunarfræðingum er að hækka launin þeirra.

Staðgenglar hans lofuðu samt að senda ráðherra fleiri minnisblöð. Vonandi verða þau jafn afdrifarík og það sem hann sendi í maí. En hann sendi tvo fulltrúa á fundinn. Annar þeirra var skelegg kona sem benti fundarmönnum á að árið 2020 myndi vanta tvær milljónir manna í heilbrigðisgeirann í heiminum.

Árið 2020 er einmitt sama ár og utanríkis- og forsætisráðherra hafa lofað heiminum launajafnrétti.

Hinum fulltrúa landlæknis varð tíðrætt um öryggi, eftirlit og gæði og taldi að öryggi væri forgangsverkefni ef til uppsagna kæmi. Þar getum við verið sammála. En rannsóknir hafa sýnt að það bjóði hættunni heim að hjúkrunarfræðingur sjái um of marga sjúklinga. Því miður er það orðinn standard á Íslandi í dag og er sennilega við hættumörk á flestum deildum daglega.

Fulltrúi landlæknis minnti á að ef erlendir hjúkrunarfræðingar ílentust hér á landi gætu gæði vinnu þeirra orðið mjög mikil. Sennilega mun Kristján Þór gera út karladeild Sambands ungra sjálfstæðismanna í konuleit til Asíu og Austur-Evrópu til að finna fyrir þá hjúkrunarkonur sem gætu haft ástæðu til að festa rætur á Íslandi ef þær yrðu ástfangnar – en öryggið verður þá ekki tryggt fyrr en eftir ca. tvö ár, þegar þessir nýju hjúkrunarfræðingar hafa aflað sér reynslu og sjálfstæðis hér á landi, en sennilega verða þeir þá komnir í fæðingarorlof ef guð lofar að hjónaböndin lukkist.

Fulltrúi landlæknis sagði stofnun sína líka mjög reynda í að búa til viðbragðsáætlanir. Það sem hann áttar sig kannski ekki á er að reynt hefur á fæstar af þeim viðbragðsáætlunum sem embættið hefur búið til, þannig að hæfni embættisins til að búa til viðbragðsáætlanir sem ganga upp er óviss.

Fulltrúi landlæknis minntist danskra hjúkrunarfræðinga sem störfuðu á LSH í fyrndinni. Hann sagði reynsluna af þeim góða. Aftur á móti rekur þá hjúkrunarfræðinga, sem muna eftir þessum dönsku, minni til að greiddar hafi verið ferðir, uppihald og skoðunarferðir fyrir Danina. Ég neita að trúa því að það sé ódýrara að borga ferðir í Bláa lónið, hestaferðir og uppihald en verða við ýtrustu launakröfum hjúkrunarfræðinga. Getur verið að afleikurinn með „rauðu strikin“ í samningum SA spili þar stórt hlutverk?

Það stakk mig verulega að fulltrúar landlæknis tönnluðust á eftirlitshlutverki sínu. Það er aftur á móti reynsla mín að það er ekkert beint eftirlit með heilbrigðisstarfsfólki. Um leið og við erum búin að fá leyfi þá getum við gert nánast hvað sem er og ráðlagt sjúklingum okkar alls kyns vitleysu án þess að nokkur maður skipti sér af.

Hafnarvogir landsins eru nákvæmari en morfíndælur á sjúkrahúsum og meira eftirlit með fiskinum sem berst á land en lyfjunum sem sjúklingum eru gefin á sjúkrahúsum landsins. Mikið vildi ég óska að einn daginn pikkaði einhver í mig frá landlækni og spyrði mig hvaða lyf ég væri að gefa hverjum, í hvaða magni og við hverju.

Annar landlæknisfulltrúinn talaði um eftirlit með einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Stoltur sagði hann frá því að ekkert væri við þær einkareknu heilsugæslustöðvar sem reknar eru hér á landi að athuga. Aftur á móti hefði komið í ljós við athugun á fyrirtækinu Sinnum að það veitti ekki heilbrigðisþjónustu heldur félagslega þjónustu.

Ekkert kom fram um kostnað við verktöku lækna á landsbyggðinni, en dæmi er um að fyrir verktöku hafi kostnaður við fastráðinn lækni verið 16–1800 þúsund á mánuði en farið í rúmlega 4 milljónir á mánuði með verktöku. En hvað ætti landlæknir svo sem að hafa við það að athuga á meðan ekki verða marktækt fleiri mistök eða dauðsföll? Hvað ætti heilbrigðisráðherra að hafa við það að athuga á meðan hann þarf ekki að greiða orlof og veikindaleyfi? Þetta er bara vandamál fjármálaráðherra, sem var ekki á fundinum.

Forstjóri LSH telur að langt sé þangað til uppsagnirnar taka gildi og að mönnun hafi oft verið viðkvæm á LSH. Þá taldi hann 2–300 starfsmenn af 5000 starfsmönnum LSH ekki vera stóran hluta og vonaði að hægt væri að ráða annað fólk í staðinn fyrir það sem er búið að segja upp, ef ekki þá væru starfsmannaleigur kostur „til að holufylla“ og sem skammtímalausn.

Þá voru þeir kumpánar spurðir um stofnanasamninga á LSH. Þeir töldu, eins og raunin er, að þeim markmiðum sem lagt var upp með við gerð þeirra hefði ekki verið náð – það þarf nefnilega alveg sér fjármögnun í þá! Miklir snillingar að átta sig á því.

Píratinn Jón Þór Ólafsson benti á þá staðreynd að einum mánuði fyrir verkfall hjúkrunarfræðinga hefði landlæknir bent á að ekki væri lengur hægt að tryggja öryggi sjúklinga á LSH. Þá voru þessir 2–300 starfsmenn sem nú hafa sagt upp enn í vinnu. Hvernig í ósköpunum á að tryggja öryggi þegar þessir reyndu starfsmenn eru farnir? Með neyðaráætlun sem er ekki til?

Jón Þór benti jafnframt á ákveðna gæðastaðla sem jafnframt eru notaðir í löndunum í kringum okkur. Fram til þessa hefur LSH staðist þessa staðla, meira að segja fyrst eftir hrun, en ekki árið 2015. Hvernig á að vera hægt að tryggja öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar við lakari aðstæður en voru þegar þessar mælingar voru gerðar? Ennfremur spurði Jón Þór hvað þyrfti til að einhver axlaði ábyrgð á handónýtu heilbrigðiskerfi og segði af sér. Við skulum þakka fyrir að enn er fólk á Alþingi sem hefur snefil af sómakennd, en því miður fer því fækkandi.

Steinunn Þóra Árnadóttir benti heilbrigðisráðherra á að 700 milljóna aðhaldskrafa væri yfirvofandi hjá LSH í næstu fjárlögum. Kristján Þór sagðist ekki styðja hana og verður áhugavert að fylgjast með framgöngu hans í því máli á haustdögum.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, var sú eina sem lýsti áhyggjum af uppsögnum á landsbyggðinni og benti á að um 20% hjúkrunarfræðinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja væru búnir að segja upp. Ekki kom fram orð um það frá Eyjamanninum í nefndinni, sem einmitt býr á Suðurnesjum. Einnig benti Valgerður á þá firringu að ætla að leita til útlanda eftir hjúkrunarfræðingum því mönnunarvandræði væru víðast hvar í kringum okkur auk þess sem lág laun og léleg lífskjör væru hér djúpstætt vandamál. Heyr, heyr Valgerður.

Það er sem sagt á hreinu að það er engin framtíðarsýn til fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi! Það er engin áætlun til um að jafna launamun kynjanna, það er engin áætlun til sem stuðlar að stöðugri mönnum á LSH. Heilbrigðiskerfið er rekið á skammtímalausnum, já eiginlega eftir viðbragðsáætlunum dag frá degi.

Síðast en ekki síst er stærsta niðurstaða fundarins sú, að haldinn var fundur þar sem 14 manns komu saman í 1,5 klst. án þess að spurningum formanns Velferðarnefndar væri svarað eða nokkuð nýtt kæmi fram. Hversu illa er hægt að fara með almannafé?

Fyrri greinar um málið má lesa hér að neðan.

Skiptir stærðin máli – píkur í kjarabaráttu, 1. bindi
Súrt andrúmsloft – píkur í kjarabaráttu, 2. bindi
Guggan er sokkin, Kristján! – Píkur í kjarabaráttu, 3. bindi

Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283