Nú er stærsta ferðahelgi ársins að hefjast og annar hver landsmaður byrjaður að græja tjald, svefnpoka, prímus og jafnvel áfengi. Fólk leggur leið sína víðs vegar um landið, sumir elta veðrið, á meðan aðrir fylgja straumnum og má áætla að á fjölmennustu útihátíð landsins verði um 12 þúsund manns.
Flest eigum við það sameiginlegt, óháð aldri og hvert við ætlum að fara, að við viljum skemmta okkur vel og koma heim með góðar minningar.
Því miður hefur það loðað við stórar ferðahelgar að þangað mæti fólk sem ætlar sér að skilja eftir önnur spor. Þessi pistill er til þessa fólks.
Ef þú ert að spá í að fara á útihátíð um helgina til þess að nauðga, vertu þá frekar heima hjá þér.
Ef þú hyggst hafa samræði við einstakling, fáðu þá já og vertu með kollinn í lagi.
Ég ætla mér ekki að skrifa pistil í fjölmiðlum eftir helgi og hampa því að einungis ein nauðgun hafi verið kærð yfir helgina heldur vil ég skrifa pistil um áfallalausa verslunarmannahelgi þar sem allir komust heilir heim. Andlega sem og líkamlega. Þá fyrst erum við búin að skora.