Kristjana Sveinsdóttir:
Ofbeldi.
Lítið orð eða hugtak en merkingin inniheldur gríðarlega stórt eyðandi afl fyrir þann sem verður fyrir því og fyrir þann sem beitir því.
Ofbeldi er algjör andstæða við það sem við köllum kærleika. Ofbeldi á sér stað alls staðar, á öllum tímum sólarhringsins. Stundum meira, stundum minna. Ofbeldi getur verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt.
Fólk sem beitir ofbeldi er veikt fólk, oft þolendur ofbeldis sjálft sem gefur því samt ekki rétt til að beita annað fólk ofbeldi. Kynbundið ofbeldi gegn konum er tegund ofbeldis sem mikið er rætt í kringum okkar svokölluðu Verslunarmannahelgi.
Persónulega er ég mjög fegin þegar þessi helgi er liðin því þótt ofbeldisverknaðir gagnvart, börnum, konum og mönnum séu framdir alla daga vikunnar, allt árið um kring og á öllum tímum sólarhringsins, þá er fjöldi tilkynntra nauðgunartilfella um þessa tilteknu helgi í hámarki á Íslandi.
Tilhugsunin um það gerir mig ótrúlega sorgmædda, bæði hvað varðar þolendur en líka hvað gerendur varðar af því þeir eru auðvitað mjög veikir einstaklingar.
Sjálf hef ég orðið fyrir miklu ofbeldi af hálfu hins kynsins og veit hvað það þýðir að vinna úr slíkum atburðum. Sem betur fer er ég það lánsöm að þekkja marga og eiga marga heilbrigða og góðhjartaða karlmenn að í mínu lífi sem gefa von og traust um að minnihluti karlkyns beiti ofbeldi og að meirihluti karlmanna geri það ekki.
Engu að síður er ofbeldi almennt séð allt of algengt í okkar samfélagi. Það þarf að taka á þeim vanda með því að ráðast á rótina og aðstoða fjölskyldur jafnt sem einstaklinga í vanda og þar ætti kerfið okkar að koma miklu sterkar inn.
Nýliðin herferð sem gaf þolendum hugrekki til að stíga fram gerði kraftaverk að mínu mati og nú þarf sú vinna að halda áfram. Félags- og heilbrigðiskerfið þarf að hafa burði til að styðja almennilega undir þolendur sem leita sér aðstoðar. Eins þarf að mínu mati að herða refsingar gegn gerendum alls staðar í samfélaginu, líka í skólum og á vinnustöðum.
Það er t.d. ekki í lagi að flytja þolendur eineltis á milli skóla á meðan gerendurnir fá í mesta lagi tiltal. Hvað er það? Skilaboðin eiga að vera skýr. Það er ALDREI í lagi að beita ofbeldi.
Reynslan í ákveðnum löndum sýnir að það er því miður nauðsynlegt að beita hörðum refsingum við ofbeldisverknuðum til að fækka þeim. Það þarf að horfa á stóru heildarmyndina svo mögulegt sé að uppræta þetta hörmulega samfélagsmein.
Mín heitasta ósk er sú að Íslendingum beri gæfa til að setja metnað í að skapa hér gott fjölskyldu- og velferðarsamfélag þar sem fólk upplifir sig öruggt að nóttu sem degi.
Með kærleikskveðju og njótið frídagsins!