Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ísland aldrei verið vinsælla hjá skiptinemum

$
0
0

Þann 21. ágúst nk. er von á 37 erlendum nemum til tíu mánaða dvalar á Íslandi á vegum fræðslusamtaka AFS. Ungmennin eru á aldrinum 15 til 19 ára og koma frá um 20 löndum víðs vegar að úr heiminum. Nemarnir búa hjá íslenskum fjölskyldum, ganga hér í skóla með jafnöldrum sínum, kynnast menningunni, læra tungumálið og aðlagast íslensku samfélagi.

Þessa dagana er AFS á lokasprettinum í að finna nemunum heimili um land allt. Að sögn Sólveigar Ásu B. Tryggvadóttur, deildarstjóra erlendra nema hjá AFS, bárust samtökunum mun fleiri umsóknir í ár en unnt var að samþykkja.

AFS_Solveig_ZP7A4384web

Sólveig Ása

„Já, það er ákaflega leitt að þurfa að hafna ungu fólki sem brennur í skinninu að eyða tæpu ári á Íslandi. Við ákváðum því að samþykkja aðeins fleiri umsóknir í ár en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir,“ segir Sólveig Ása. „Þrjátíu ársnemar er kannski hæfileg tala fyrir svo fámenna þjóð, en við ákváðum að bæta aðeins við þar sem eftirspurnin er mjög mikil.“

Aðspurð hvernig gengur að finna heimili fyrir ungmennin segir hún að Íslendingar hafi ávallt verið duglegir að opna heimili sín fyrir ungmennum, en bætir við að samtökin eigi þó aðeins í land með að ljúka þessu krefjandi verkefni, enda fleiri nemar nú en sl. ár. „Því er mikilvægt að allir sem vilja kynna sér málið nálgist upplýsingar hjá okkur, því þetta er ekki eins flókið og margur heldur. Fjölskyldulíf fólks á alls ekki að fara úr skorðum þótt það taki nema inn á heimilið, það er neminn sem aðlagar sig að menningu okkar en ekki öfugt,“ segir Sólveig Ása.

Mörg ungmennanna koma langt að s.s. frá Suður-Ameríku, Indónesíu, Hong Kong, Tyrklandi og Kína en einnig er töluvert um Evrópubúa og tveir nemar koma frá Bandaríkjunum. „Það er ótrúlegt hvað ungt fólk hefur mikla aðlögunarhæfni,“ segir Sólveig. „Sumir sem eru langt að komnir eru kannski pínu skelkaðir í fyrstu en það rjátlast fljótt af þeim. Mörg hver eru orðin verulega góð í íslensku eftir áramótin, þ.e. 5 mánuðum eftir að þau koma til landsins enda ganga þau í skóla með jafnöldrum sínum, eignast eigin vini og eru orðnir hálfgerðir Íslendingar í lok dvalarinnar sem er í júní á næsta ári. Fyrsti frasinn sem við kennum erlendu nemunum er; Þetta reddast. Þetta orðatiltæki á ákaflega vel við núna í fjölskylduleitinni. Viljum við ekki síst biðla til landsbyggðarinnar og jafnvel bændafólks, því það getur verið mjög gefandi fyrir ungt fólk sem býr í stórborgum að kynnast lífinu á landsbyggðinni,“ segir Sólveig Ása, starfsmaður AFS að lokum og bætir við með bros á vör: „Þetta reddast allt ef við spýtum aðeins í lófana.“

Kíktu á myndböndin hér að neðan sem sýnir erlendu nemana sem eru nýfarin til síns heima og íslenskar fósturfjölskyldur þeirra.

AFS2012_saman_Alfur_Yuki

„Það er frábært að vera skiptinemi og ekki síðra að eignast svo japanskan bróður, Yuki, hér heima segir Álfur Birkir sem var skiptinemi í Argentínu. Yuki dvaldi hjá fjölskyldu Álfs Birkis í 10 mánuði. Á myndinni halda þeir bræður á myndum frá skiptinemadvöl sinni. Álfur í dragi í Argentínu og Yuki að flippa út þegar norðurljósin birtust honum í fyrsta sinn.

Sólveig Ása B. Tryggvadóttir, deildarstjóri erlendra nema hjá AFS samtökunum, segir Íslendinga ávallt duglega að opna heimili sín fyrir erlendum nemum. Nú þurfi hins vegar að spýta aðeins í lófana því Ísland er orðið mjög vinsælt sem áfangastaður erlendra skiptinema og fleiri nemar að koma í ár en sl. ár.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283