Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hvað er til skemmtunar fyrir ungt fólk?

$
0
0

Hvað er til skemmtunar fyrir unglinga landsins í dag? 
Það eru engir ballstaðir, engar félagsmiðstöðvar opnar yfir sumarið. Engir samkomustaðir óháðir skólahaldi og hvergi komumst við sem eru undir 18 ára aldri inn á skemmtistaði. Sums staðar er aldurstakmarkið 20 ár.

Þegar það er ekkert fyrir unga fólkið, hvar búist þið við að þau haldi sér? 
Hangi heima? Ég held ekki. Það þýðir voða lítið að skammast í unga fólkinu fyrir að hópast saman hér og þar, fyrir að halda unglingapartí þegar það er ekkert í boði fyrir þau. Auðvitað finna þau sér eitthvað að gera.

Ég er allavega frekar hissa á þessu. Hvað til dæmis með þá sem eru ekki í skóla og tengjast ekki félagsmiðstöðvum og vilja fara út á lífið með fólki nær þeim í aldri? Hvert geta þeir farið?

Það væri mikið öruggara fyrir 15–20 ára unglinga að geta farið á staði fyrir þeirra aldurshóp í stað þess að vera að stelast á staði fyrir fullorðna og þá jafnvel með töluvert eldra fólki.

Ég vil sjá breytingu og meira líf á Íslandi, ég vil sjá fleira fólk úti og líflegra samfélag.

Við lifum í kúlu þar sem ekkert má og börn mega ekki fá skrámu því þá eru þau eru send í sjúkrabíl heim til þess að fá plástur og koss á kinn. Hvað varð um að læra af reynslunni? Að standa upp og halda áfram ef maður dettur.

Eins með tjaldsvæðin, áður fyrr voru unglingar mikið að tjalda og njóta lífsins. Í dag má ég hvergi tjalda vegna þess að ég er ekki 20 eða 25 í sumum tilfellum.

Ef ég ætlaði mér að tjalda með vinum mínum þyrfti ég að fara út fyrir tjaldsvæðin og tjalda ólöglega – er það virkilega betra?
Er það útaf unglingadrykkju? Fullorðna fólkið er nú oft ekkert skárra þegar kemur að drykkjuskap á tjaldstæðum.

Þegar mamma mín var 24 ára, með okkur þrjú börnin, hefði hún ekki mátt tjalda hvar sem er vegna þess að hún var ekki orðin 25 ára – sem er aldurstakmarkið á mörgum tjaldsvæðum.

Við þyrftum helst að skipta tjaldstæðum niður í svæði frekar en að banna allt því eins og er er enginn staður fyrir unga fólkið, því miður.

10151704_602963199790912_1038683000_n

Þegar foreldrar mínir voru ungir vorum við mikið framar í þessum málum, þar voru sveitaböll haldin og miðað við að hleypa krökkum inn eftir fermingu sem og á þorrablótum. Þá voru ungmennin að umgangast eldra fólk og að læra af þeim og þroskast.
Ég tel það mikilvægt og það mætti vera meira að slíku.

Auðvitað er eitthvað í boði, t.d. Hitt húsið og Húsið – en það hentar ekki öllum og það vantar miklu fleira inn í samfélagið svo við getum leyft öllum að njóta sín.

Ég vil tjalda, fara á böll og lifa lífinu á meðan ég er ung – en það er erfitt miðað við hvar Ísland stendur í dag í þeim málum.

Ég sé unga fólkið svipað og hvolpa, án afþreyingar fara hvolparnir að leita sér að einhverju að gera og oft endar það í slitnum skóm og öðrum skemmdarverkum.

Ég man þegar hjartagarðurinn í miðbæ Reykjavíkur var tekinn niður, ég þekkti nokkra sem áttu það til að hanga þar allan daginn og jafnvel nóttina. Krakkarnir höfðu brotist inn og komið sér fyrir inni í húsinu, þau voru búin að dunda sér við að ganga frá og mynduðu sér sína eigin litlu, ólöglegu félagsmiðstöð sem alltaf var verið að loka og byrgja fyrir aftur og aftur.

Ég skil það vegna þess hve mikið var um unglingadrykkju og fleira sem átti ekki að eiga sér stað þarna, en það var enginn sem reyndi að leiðbeina þeim, enginn sem reyndi að passa upp á þau eða hjálpa – aðeins var tekið af þeim það sem þau höfðu dundað sér við að byggja upp.

Ég fór þangað inn í örfá skipti og sá alltaf mun. Síðast þegar ég leit þar inn, þá voru þau búin að koma fyrir gömlu sjónvarpi, einhverjum snúrum og sófum ásamt sófaborði. Næst þegar svona „vandamál“ kemur upp vona ég að yfirvöldin hjálpi frekar til við að heimagera staðinn og haldi eftirliti í stað þess að rífa bara niður og eyðileggja. Því auðvitað stoppa krakkarnir ekkert þrátt fyrir það.

Ég er allavega á þeirri skoðun að það vanti afþreyingu og aðstöðu fyrir unga fólkið í dag þar sem það getur hist og haft það gott saman. Því miður er samfélagið ekki nógu duglegt að sinna unga fólkinu – auðvitað ættum við að gera það vegna þess að þau eru í þann mund að taka við af eldra fólkinu sem situr við stjórn eins og er.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283