Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Eru mittisþjálfar (waist-trainers) málið?

$
0
0

Kim Kardashian og Jessica Alba eru að missa sig yfir þessum beltum sem eru í raun þröng latex korselett sem þær nota við æfingar. Jessica vill meina að beltið hafi aðstoðað hana við að koma sér í form eftir barnsburð og Kim segist vera háð notkun beltisins. Beltið á að ýta undir svita, halda við bakið meðan á æfingum stendur og minnka mittið.

kardashian-waist-training

Mittisþjálfinn hefur selst eins og heitar lummur hérlendis en í síðustu viku seldust hátt í 100 stykki á nokkrum klukkustundum á einni af tilboðssíðum landsins. Kvennablaðið hafði samband við Önnu Eiríksdóttur, þjálfara og deildastjóra hjá Hreyfingu, og spurði út í beltin vinsælu. Er þetta málið?

„Ég myndi aldrei kalla þetta belti æfingatæki enda ekki slíkt, þetta er aðhaldsbelti sem ég hvet konur til þess að kynna sér áður en þær fara að nota. Ég fann áhugaverða grein um það sem ég ákvað að deila með ykkur en þar kemur meðal annars fram að að mittisþjálfinn sé í raun enginn þjálfi nema þá helst fyrir sjálfstraustið. Sé beltið haft of þröngt geti það valdið hinum ýmsu óþægindum svo sem brjóstsviða og erfiðleikum með andardrátt.“

Anna segir aðhaldsfatnað vera jákvæðan hvað sjálfstraustið varðar en virkar hann við að endurheimta stinnleika húðarinnar?

„Mín skoðun er sú að fólk á að klæðast því sem því líður best í. Ef aðhaldsfatnaður hjálpar fólki til þess að líða betur með sig og efla sjálfstraustið þá er það hið besta mál. Ég er enginn sérfræðingur en efast um að hann geri húðina stinnari en það væri góð spurning fyrir húðsérfræðing.“

Talandi um strauma og stefnur í heilsugeiranum er spennandi að vita hvað verður það heitasta í líkamsrækt í haust?

„Barre-tímar verða mjög heitir í haust þar sem unnið er við ballettstöng  og gerðar góðar æfingar sem styrkja og tóna líkamann.  Tímar þar sem unnið er með púlsmæla verða mjög heitir enda markvissir og árangursríkir og getur fólk valið um hjólatíma eða hlaupa- og styrktartíma. Lyftingatímar verða áfram mjög vinælir sem og eftirbrunatímar sem skila frábærum árangri.  Hot Yoga, hot fitness og aðrir mjúkir tímar verða áfram sjóðheitir og ekki má gleyma öllum danstímunum sem eru alltaf funheitir.  Ég hvet fólk til þess að kynna sér úrvalið og reyna að finna tíma við sitt hæfi því það er klárt mál að þú endist miklu betur í ræktinni ef þú finnur eitthvað sem þér þykir skemmtilegt,“ segir Anna sem sjálf hefur verið viðloðandi líkamsrækt í tugi ára.

„Ég er íþróttakennari að mennt með ýmis námskeið og réttindi á bakinu tengt líkamsræktinni og hef farið á ótal ráðstefnur og fyrirlestra í gegnum tíðina. Ég byrjaði að vinna hjá Ágústu Johnson í Hreyfingu fyrir tæpum 12 árum og starfa þar í dag sem deildarstjóri og kenni sjálf námskeið og hóptíma en það er klárlega það sem mér finnst skemmtilegast að gera. Ég hef ótrúlega mikla ánægju af því að hjálpa fólki að hugsa vel um heilsu sína og koma sér í betra form.“ Anna kennir eitt vinsælasta námskeiðið á Íslandi í dag sem kallast eðalþjálfun og hefur því komið ófáum kroppum í form.

Er það enn lenskan að líkamsræktarstöðvar tæmist á sumrin?

„Það er liðin tíð að mínu mati að líkamsræktarstöðvarnar tæmist á sumrin en það minnkar klárlega í stöðvunum þegar fólk fer í sumarfrí. Mér finnst það hafa aukist mjög mikið að fólk sé búið að koma hreyfingunni inn í sinn lífsstíl og detti því ekki út á sumrin frekar en öðrum tímum árs sem er afar jákvætt.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283