Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur verið mikið í umræðunni í vikunni. Hún var í viðtali í Speglinum þar sem ljóst var að hún var ósátt við að menn héldu ekki trúnað. Ég skil ekki að það hafi komið henni á óvart, ég var búinn að segja henni að það yrði ekki gert.
Hún ýjar að því að það hafi verið starfsmenn neyðarmóttöku fyrir kynferðisbrot sem hafi ekki virt trúnað með því að veita upplýsingar um fjölda þeirra sem leituðu til þeirra vegna kynferðisbrota í Vestmannaeyjum um helgina.
Engu að síður birtir lögreglan í Vestmannaeyjum á síðu sinni fréttatilkynningu þess efnis 4. ágúst að tvö kynferðisbrot hafi komið til rannsóknar eftir helgina.
Það skiptir engu máli hvort aðrir hafi rofið trúnað á undan þér, það léttir ekkert trúnaðarskyldunni.
Það er því svo að ef einhver rauf trúnað þá gerði lögreglan það einnig með fréttatilkynningu sinni. Páley lögreglustjóri sakar því fólk um eitthvað sem hún síðan gerir sjálf.
Þó svo að lögreglan í Eyjum hafi ákveðið að taka kynferðisbrot út fyrir sviga þá afléttir það heldur ekki trúnaðarskyldu sem hið opinbera setur á sumar stéttir. Ef það er trúnaðarbrot að upplýsa um fjölda kynferðisbrota sem kom upp þá er það er því alveg eins trúnaðarbrot þegar upplýst er um að flytja þurfti mann á sjúkrahús með sjúkraflugi vegna heilablæðingar, og þegar sagt er frá því að fólk leitaði sér aðstoðar vegna sjálfsvígshugsana. Hvað þá þegar fólk verður fyrir líkamsárásum því kynferðisbrot er ekkert annað en árás á líkama þinn, sama hvaða skilgreiningar lögfræðistéttin notar hverju sinni.
Hvað er þetta „vel fram“?
Í yfirlýsingu lögreglunnar eftir hátíðina segir að „miðað við fyrri hátíðir“ hafi þjóðhátíðin í ár farið vel fram.
70 fíkniefnamál, töluverður erill vegna ölvunarútkalla, fangageymslur fullar, kona skölluð, gæslumaður skallaður, sjálfsvígshugsanir gesta sem áfallateymi aðstoðaði við, og þrjár konur sem leita á neyðarmótttöku vegna kynferðisbrota er því skilgreint sem „fara vel fram“.
Á Neistaflugi komu engin fíkniefnamál upp og engar líkamsárásir. Enginn gisti fangageymslu. Og það var engin nauðgun tilkynnt á Þjóðhátíð í fyrra.
Réttara væri því að segja að hátíðin hafi farið verr fram en í fyrra og töluvert mikið verr en Neistaflug.