Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Að gefnu tilefni: Um afglæpavæðingu kynlífsvinnu

$
0
0

Aukin mannréttindi og öryggi fyrir kynlífsverkafólk

Amnesty International heldur allsherjarfund í Dublin 7–11 ágúst nk. þar sem á stefnuskránni er auk fjölda annarra mála að komast að niðurstöðu um hvort samtökin mæli með því að kynlífsvinna verði afglæpavædd (e. decriminalised).  Þessi stefna sem byggir á tveggja ára rannsóknarvinnu miðar að því að vernda mannréttindi þeirra sem vinna við kynlífsvinnu, sem Amnesty segir að sé fólk sem er hvað jaðarsettast í nútímasamfélögum.  Með því að gera atvinnu þeirra að glæp er hætta á því, að dómi samtakanna, að hún færist enn neðar í undirheima þar sem erfitt er að vernda fólk fyrir ofbeldi, áreitni og heilsufarslegum vandamálum.

Eins og við mátti búast hafa risið upp heiftarlegar deilur á milli þeirra sem vilja kynlífsvinnu á brott og þeirra sem vilja sjá hana afglæpavædda.  Einna mest fór fyrir bréfi sem undirritað var af ýmsum samtökum og nokkrum kvikmyndastjörnum í Hollywood þar sem Amnesty var beðin að hverfa frá því að samþykkja áðurnefnda tillögu. Kynlífsverkafólk, eins og gefur að skilja, tók illa í þessa afskiptasemi ríkra forréttinda kvenna og setti spurningarmerki við þekkingu þeirra á málaflokknum. 

Ég hef skrifað nokkrar greinar um kynlífsvinnu fyrir Kvennablaðið og hef litlu við þær að bæta nema nokkrum orðum varðandi bréf sjö kvennasamtaka sem sent var Íslandsdeild Amnesty International til að hvetja deildina til að kjósa gegn tillögunni. Þar stendur meðal annars:

Að okkar mati er vændi ekki atvinnugrein. Vændi er ofbeldi og frjáls sala á fólki samræmist ekki okkar skilgreiningu á mannréttindum. Þar að auki er nær ógjörningur að skilja á milli vændis og mansals. Kaupendur hafa ekki hugmynd um hvort þær konur sem þeir kaupa eru að selja sig af fúsum og frjálsum vilja eða þær eru gerðar út af manseljendum. Ef Amnesty vill uppræta mansal er mikilvægt að samtökin geri sér grein fyrir að það verður ekki gert nema með því að minnka eftirspurn eftir vændi. Samhliða því þarf að bjóða upp á félagsleg úrræði fyrir þau sem stunda vændi og leiðir út.“

Við þetta vil ég gera eftirfarandi athugasemdir:

Á hverju byggist það mat að vændi sé ekki atvinnugrein?  Hvað þarf vinna að hafa til að bera til að teljast atvinnugrein og hverra er skilgreiningarvaldið? Staðreyndin er sú að margt fólk hefur atvinnu af kynlífsþjónustu um allan heim. Kynlífsþjónusta er unnin af fólki sem hefur jafn margar ástæður fyrir starfsvali og það er fjölbreytt.  Kynlífsþjónusta hefur að miklu leyti verið bundin við fólk sem lifir á jaðrinum og Amnesty og önnur samtök benda réttilega á að glæpavæðing verði einungis til þess að jaðarsetja fólk enn frekar.  Glæpavæðing gerir það ennfremur að verkum að það er erfiðara að fyrir fólk að hætta í kynlífsþjónustu og finna sér aðra atvinnu þar sem færslur á sakaskrá koma í veg fyrir það. 

Það eru ekki bara konur sem vinna við kynlífsþjónustu.  Þetta virðist eitthvað flækjast fyrir kvennasamtökunum á Íslandi sem vilja gera kynlífsþjónustu eingöngu að vandamáli þar sem  karlar níðast á konum. Staðreyndin er sú að karlar og konur,  samkynhneigt, hinsegin (e. queer) / og svona (e. cis and straight) fólk vinnur í þessum geira. Að neita fjölbreytninni innan geirans er að þagga niður í þessum hópum og þeirra þörfum og reynslu þegar kemur að kynlífsvinnu.

Einnig virðist þurfa að brýna fyrir fólki hvað eftir annað að kynlífsvinna og mansal eru ekki sami hluturinn. Mansal er erfitt að þekkja og uppræta eins og konurnar benda réttilega á. Mansal og þrælahald er vaxandi vandamál í ótal atvinnugreinum eins og tækniiðnaði, byggingariðnaði, matvælaiðnaði og heimilishjálp. Þetta hefur þó ekki leitt til glæpavæðingar þessara greina. Kaupendur að tæknivörum og matvælum geta ekki vitað að einhversstaðar í framleiðsluferlinu hafi vinnan verið innt af hendi af fólki sem selt hefur verið mansali. Amnesty hefur ávallt barist gegn þrælahaldi og mansali  og hefur ítrekað afstöðu sína síðastliðna daga vegna þess að fólk sem nennir ekki að lesa sér til heldur því fram að samtökin ætli nú að berjast fyrir mansali og þrælahaldi. 

Andstæðingar kynlífsvinnu benda ítrekað á að sænska leiðin þar sem kaupandi fremur glæp en seljandi ekki hafi reynst afbragðsvel og draga upp úr hattinum tölur af handahófi sem eiga að styðja þær fullyrðingar. Reynslan sýnir að mikil óvissa ríkir um virkni sænsku leiðarinnar, en víst er talið að hún hafi haft í för með sér meiri hættur fyrir kynlífsverkafólk sem reynir nú að hafa meiri leynd yfir vinnu sinni til að vernda kaupendur og sjálft sig í leiðinni.  Glæpavæðing kynlífsvinnu hefur einnig leitt til þess að lögregluáreiti og ofbeldi gagnvart þessum hóp hefur aukist Sérstaklega hefur lögregluofbeldi gagnvart trans-konum af öðrum litarhætti verið nefnt til sögunnar sem neikvæð áhrif glæpavæðingar kynlífsvinnu. Reglulega eru gerðar lögregluinnrásir í skilgreind vændishús sem leiðir til niðurlægingar fyrir þau sem þar vinna (þessar innrásir hafa stundum verið myndaðar) og heimilisleysis í kjölfarið þar sem leigusalar henda út fólki sem vinnur kynlífsvinnu heima hjá sér. Vegna hins síðarnefnda er kynlífssölufólk mjög tregt til að kæra árásir og áreiti af því að það vill ekki gefa upp eigið nafn og heimilisfang. 

Mannréttindi og öryggi kynlífsverkafólks þarf að setja á oddinn og það hefur Amnesty International gert með vel unninni tillögu sem virðir rök kynlífssölufólks, en það er sjaldgæft þegar þeirra málefni eru rædd. 

Ég vil hérmeð hvetja Íslandsdeild Amnesty að styðja stefnuna að afglæpavæða kynlífsvinnu á allsherjarfundinum í Dublin 7–11 Ágúst nk. 

Að lokum vil ég benda þeim á sem vilja styðja tillögu Amnesty á undirskriftasöfnun á netinu.

Önnur undirskriftasöfnun fyrir afglæpavæðingu á kynlífsvinnu til að auka öryggi þeirra sem þar starfa má finna hér.

Nokkrar heimildir í viðbót:

Brunovskis, A. og Skilbrei, M.L. The evaluation of the Sex Purchase Act brings us no closer to the truth. Fafo, 2014. http://fafo.no/prostitution/140816-ABR-oped.html

Dodillet, S. and Östergren, P. (2011) The Swedish Sex Purchase Act: Claimed Success and Documented Effects. http://gup.ub.gu.se/records/fulltext/140671.pdf

International Committee on the Rights of Sex Workers in Europe (2014) A very „uncertain“ evaluation that disregards the „weaker bargaining position and more safety concerns“ of sex workers. http://www.sexworkeurope.org/news/general-news/very-uncertain-evaluation-disregards-weaker-bargaining-position-and-more-safety

Levy, J. (2011) Impacts of the Swedish Criminalisation of the Purchase of Sex on Sex Workers.  http://cybersolidaires.typepad.com/files/jaylevy-impacts-of-swedish-criminalisation-on-sexworkers.pdf

National Board of Health and Welfare (2008), Prostitution in Sweden 2007.

http://www.socialstyrelsen.se/Lists/Artikelkatalog/Attachments/8806/2008-126-65_200812665.pdf

Petra Östergren,  Sexworkers Critique of Swedish Prostitution Policy.  http://www.petraostergren.com/pages.aspx?r_id=40716

PION, 2104, Evaluering av den norske sexkjopsloven. http://www.pion-norge.no/pion/nyheter_ind.php?id=1180_0_42_0_C

Rasmussen, I. et al. 2014. Evaluering av forbudet mot kjop av seksuelle tjenester. Vista Analyse.  http://www.regjeringen.no/pages/38780386/Evaluering_sexkjoepsloven_2014.pdf

Skilbrei, M.L. og Brunovskis, A.  Manglende vilje til kunnskap om prostitusjon? Aftenposten, 10. Janúar 2014. http://www.aftenposten.no/meninger/debatt/Manglende-vilje-til-kunnskap-om-prostitusjon-7300896.html


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283