Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Konstantínos Kavafis – Þrjú ljóð

$
0
0

Gríska skáldið Konstantínos Kavafis (1863–1933) bjó næstum alla ævi í Grikkjanýlendunni í Alexandríu. Hann var hommi og þangað komu í heimsókn til hans frægir hommar, til að mynda André Gide frá Frakklandi og E.M. Forster frá Bretlandi. Ég hreifst af skáldskap hans meira en annarra grískra skálda þegar ég fór að geta stautað mig fram úr nýgrísku.

Nokkrar þýðingar mínar á kvæðum hans birtust í bókunum Grikkland ár og síð og Grikkland alla tíð sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út. Kavafis átti til ólíka tóna: ástríðuhita og trega; napurt háð um mannlegan breyskleika og oflæti; sögulegar svipmyndir. – Hér koma þrjú ljóð sem telja má til fyrsta flokksins.

Komdu aftur

Komdu aftur – oft – og gríptu mig,
elskaða tilfinning komdu aftur og gríptu mig –
þegar líkamans minning vaknar
og gömul löngun bærist með blóðinu á ný,
þegar hörund og varir muna
og höndunum finnst þær aftur snerta.

Komdu aftur – oft – og gríptu mig á næturnar
þegar hörund og varir muna.

Raddir

Hugljúfar og elskaðar raddir
þeirra sem eru látnir eða hinna
sem okkur eru týndir eins og hinir látnu.
Stundum mæla þær í draumum okkar,
stundum nemur eyrað þær þegar hugurinn reikar.

Og með ómi þeirra berst aftur andartaksstund
ómur fyrsta skáldskapar í lífi okkar –
líkt og deyjandi tónlist í fjarska að næturlagi.

Þegar þær kvikna

Reyndu að varðveita þær, skáld,
þó þér auðnist ekki að halda nema fáum.
Sýnirnar sem ástríður þínar kveikja,
lát þær lifa, hálfvegis faldar, í ljóði þínu.
Reyndu að varðveita þær, skáld,
þegar þær kvikna í höfði þínu
á næturnar eða í logabirtu hádegis.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283