Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Paradísarfuglinn Chad

$
0
0

Ég gleymi aldrei nótt á Hverfisgötunni. Bar 46. Það var í júní árið 2012. Einn af mínum bestu vinum og samstarfsmönnum, Chad Jason, tók fast utan um mig, kyssti mig og þrýsti sér að mér. Ég var að kveðja hann í hinsta sinn, en ég vissi ekki betur en að við myndum hittast aftur um haustið eins og undanfarin haust þegar við byrjuðum vinnuna okkar í leiksýningunni Grinch.

Þar farðaði hann mig á hverjum degi og kom mér í hlutverkið, stundum oft á dag. Þá horfðumst við djúpt í augu oft á dag.

11857497_894675947252725_786916838_n

En þegar ég leit framan í hann þessa nótt voru augu hans full af tárum, hann hafði aldrei áður sýnt mér svona miklar tilfinningar, aldrei hafði hann raunverulega sýnt mér þegar hann varð dapur eða leiður. Ef eitthvað bjátaði á hló hann og brosti, gerði grín að öllu saman. Þegar hann varð reiður þá var hann snöggur að setja hlutina í annað samhengi, bregða fyrir sig kaldhæðni og fá mann til þess að hlæja og halda að allt væri í lagi.

Chad Jason lést í október 2012, einn á sjúkrahúsi í Queens í New York eftir að hafa neitað meðferð við sjúkdómi sem hrjáði hann. Þegar hann að lokum svo féll í dá og kraftinn þvarr gátu læknarnir byrjað meðferðina og gefið honum viðunandi lyfjakokteila í æð en þá var það orðið of seint.

Hann hefði ekkert þurft að deyja, hann hefði geta haldið áfram, hann hefði getað haldið áfram að lifa lífinu en hann kaus að gera það ekki.

Hvers vegna fáum við aldrei að vita fyrir víst, en hann var búinn að segja mér margt, segja mér hvað hafði á daga hans drifið.

11845942_894675943919392_1088070319_n

Hann var búinn að segja mér hvernig mamma hans lét hann éta upp úr ruslinu heima hjá sér þegar hann var lítill, hvernig systkinin þurftu að pissa í fötu úti í garði því hún snargalin tímdi ekki að borga vatnsreikninginn, að systkinin þurftu að stela sér til matar til að svelta ekki og síðar hvernig systir hans og bróðir afneituðu honum vegna samkynhneigðar hans.

Hann sagði mér líka frá því hvernig systir hans síðar gerðist sálfræðingur fyrir samkynhneigð pör og reyndi að ná sáttum við hann. Hann sagði mér frá því að hann gæti ekki elskað nokkra manneskju, hvernig hann bæri enga virðingu fyrir sjálfum sér og hvernig hann ynni helst allan sólarhringinn til þess að þurfa ekki að hlusta á hugsanir sínar – því þá heyrði hann alltaf þessar raddir fortíðarinnar sem segðu honum að hann væri ekki frjáls til að elska hvern þann sem hann vildi.

Förðunarmeistarinn er ekki bara förðunarmeistari

Góðir förðunarmeistarar verða bestu vinir manns, sálfræðingar. Þeir fyrstu sem maður hittir þegar maður mætir til vinnu í leikhúsinu og þeir sem yfirgefa leikhúsið með manni að kvöldi.

Förðunarmeistarinn les mann strax, kemur manni í stuð eða róar mann niður allt eftir því hvað við á þegar maður stígur inn í leikhúsið úr hringiðu veruleikans utan leikhússins.

Það má líkja honum við einhvers konar kærasta sem þú getur sagt allt og sem segir þér allt. Við áttum trúnað hvor annars og á þeim þúsundum klukkustunda sem við áttum saman í lokuðum búningsherbergjum um öll Bandaríkin fékk ég að heyra sögurnar hans, sögur sem ég er fyrst núna að ná að setja í samhengi. Mér finnst það ekki sanngjarnt þegar ég hugsa til baka og þeim mun meira sem ég hugsa til þess þá heyri ég hann endurtaka sömu hlutina aftur og aftur. Kannski er ég fyrst núna að hlusta á hann.

11845912_894675933919393_749976913_n

Núna skil ég af hverju og miklu betur hversu mikilvægt það er að við göngum saman, öll sem eitt og styðjum margbreytileikann.

Núna skil ég svo miklu betur hvað það þýðir þegar Páll Óskar syngur „Ég er eins og ég er” og nú skil ég hversu mikilvægt það er þegar við göngum saman í dag og hlustum hvert á annað og heyrum hvað við segjum, elskandi, hönd í hönd.

Chad var þessi kærasti, kærastinn sem ég þurfti þá og ég elska hann fyrir það sem hann vildi raunverulega vera en fékk aldrei að upplifa.

Ég elskaði hann sjálfan, þessa stórkostlega fallegu dragdrottningu sem hann vildi vera með gull og silfurfiðruðu vængina sem hófu sig til himins á lokatóni næturdrottningarinnar. Ógleymanlegur sem þjóðhetja Argentínu Evita Peron.

314797_4362681550002_1523558130_n

Á himnum standa áhorfendur á öndinni, það er ég viss um. Þeir hrópa:

„Bravó Chad, þú ert fallegur, fallegur eins og paradísarfugl.”

Chad, ég elska þig.

11830232_894675937252726_873692854_n

Hér er myndband sem Chad setti saman þar sem hann sýnir hvernig Grinch verður til:

Grinch MakeupGrinch National tour 2011

Posted by Chad Jason on Thursday, 24 November 2011


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283