Fyrsta október 2014 fengu Píratar fyrirspurn frá Háskóla Kaliforníu (University of California):
Góðan daginn,
ég er að aðstoða verkefnið „Understanding the Dynamics of Party Membership“ sem styrkt er af Belgian National Research Foundation. Markmið verkefnisins er að afla gagna um fjölda flokksfélaga í helstu stjórnmálaflokkum Evrópu frá 1945 til dagsins í dag og gera þau gögn aðgengileg rannsakendum á stjórnmálaflokkum og stjórnmálaþátttöku. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér: http://www.projectmapp.eu/
Mig langar því til að leita til þín varðandi upplýsingar um félagafjölda í stjórnmálaflokki Pírata. Það væri afskaplega vel þegið ef að flokkurinn gæti sent mér upplýsingar um félagafjölda á hverju ári frá stofnun flokksins.
Við útveguðum þessar upplýsingar auðvitað og gerðum betur, sýndum breytingar á fjölda eftir mánuðum. Síðan þá hafa Píratar uppfært meðlimi og aðra um fjöldastöðu þeirra sem eru skráðir í flokkinn. Það vakti til dæmis verðskuldaða athygli í mars 2015 þegar það flæddu inn skráningar, rúmlega 500 í einum mánuði. Í kjölfar þess tilkynnti ég fréttamanni að ég skoraði á hina stjórnmálaflokkana að birta svipaðar upplýsingar (fjölda nýskráninga og fjölda skráðra í hverjum mánuði), hann sagði mér seinna að engin svör hefðu borist við fyrirspurn hans þess efnis til hinna flokkanna.
Ég vil því ítreka áskorunina. Stjórnmálaflokkar á Íslandi: Hjálpið til við að opna stjórnmálin á Íslandi. Birtið bókhaldið ykkar. Birtið upplýsingar um fjölda skráðra og skráninga í flokkinn. Í gögnunum úr verkefninu sem er vísað í hér að ofan kemur fram að Vinstri Grænir, Samfylkingin, Björt Framtíð og Framsóknarflokkurinn sendu einnig upplýsingar. Það ætti því ekki að vera erfitt að verða við beiðninni.
Tölur frá Pírötum:
Síðustu tölur frá öðrum flokkum:
Vinstri grænir 2014: 5.210
Samfylkingin 2014: 15.876Framsóknarflokkurinn 2014: 12.567
Sjálfstæðisflokkurinn 2008: ~50.000 (óbreytt frá 2005 þegar talan er 40.000, 35.000 árið 2003 og svo framvegis)
Björt framtíð: 533
Píratar í júlí 2015: 1.946
Af hverju? Vegna þess að það er hollt fyrir stjórnmálin að vera opin og aðgengileg. Það er eðlilegt að þessar upplýsingar séu aðgengilegar. Það minnkar líkur á spillingu og eykur áhuga og þátttöku í stjórnmálum. Það er hagur okkar allra að sem flestir taki þátt, við erum samfélag manna – það virkar bara ef sem flestir taka þátt og vinna saman.