Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ert þú haldin/n þessari fælni? Þá skaltu lesa lengra

$
0
0

Ég bjó í Noregi í nokkur ár þar sem ég vandist þeim góða sið að setja smápening í rauf á innkaupakerru sem ég fékk svo til baka þegar ég skilaði henni að verslunarferð lokinni. Kerrurnar voru læstar hver við aðra og því var smápeningurinn sem lykill.

Ákaflega einfalt kerfi til að sporna við fælni þeirri sem virðist hafa lagst á meirihluta Íslendinga.

Þessi fælni lýsir sér þannig að fólki er fyrirmunað að ganga frá kerrunni sinni þegar vörurnar eru komnar í poka og skilja hana þess í stað eftir beint fyrir framan afgreiðslukassann þar sem hún rennur ljúflega saman við hinar tuttugu sem þar eru fyrir.

Þetta leiðir af sér óþarfa vandræði fyrir þá sem eru á eftir í röðinni, sem þurfa að byrja á því að ganga frá eftir eiginhagsmunasegginn með fælnina sem var á undan.Stundum þarf næsti maður að byrja á því að ganga frá 3-4 kerrum til þess eins að koma sinni frá kassanum, að því gefnu að hann sé fyrirmyndarborgari sem gengur frá eftir sig.

En með fimm fulla innkaupapoka og leikskólabarn getur það verið mjög aftarlega á óskalista viðkomandi. Ég tala nú ekki um ef hann þarf svo að ganga frá 4 kerrum til viðbótar sem hafa lokað barnakerru viðkomandi inni, sem þó stendur afsíðis á stað sem ætlaður er barnakerrum.

Væri ekki ráð að leiða hugann að þessu næst þegar farið er út í búð? Nú eru flestar stórar verslunarkeðjur með starfsfólk í vinnu við að ganga frá eftir fólkið með fælnina sem leiðir af sér hærra vöruverð þó að atvinnusköpun sé vissulega af hinu góða. En þessari fælni fylgir annar vinkill sem eru óhöppin sem geta og hafa orðið vegna þessara ferlíkja sem oftar en ekki hafa endað framan og aftan á bílnum viðskiptavina, því ekki skila kerrurnar sér allar á sérstakan stað sem þeim er ætlaður og má finna víðs vegar á bílastæðum fyrir utan verslanir.

Ég hvet til átaks á þessari ómerkilegu athöfn sem heitir að ganga frá eftir sig, og spái því að innkaupaferðin verði skemmtilegri, hún gengur hraðar fyrir sig og við fáum meira að segja smá krútt í hjartað, þó ekki sé nema bara í eiginhagsmunahjartað.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283