Kvennablaðinu barst þessi grein frá ungri konu sem hefur upplifað eins og margir að missa heimilið sitt vegna afborgana sem hún og fjölskylda hennar réði ekki við. Greinarhöfundur vildi ekki koma fram undir nafni barnanna sinna vegna því hún vill ekki valda þeim áhyggjum. Þessi saga er því miður ekkert einsdæmi.
Að missa heimilið sitt
Ég er 31 árs, ég á börn, yngsta barnið mitt er undir eins árs. Ég keypti mér mína fyrstu íbúð þegar elsta barnið mitt var ungabarn, byrjaði að safna mér innbúi þegar ég var ólétt og hélt því áfram þegar ég var komin með lyklana að minni fyrstu eign.
Fyrsta íbúðin mín var lítil, hún var í kjallara og mikið sem þurfti að laga en hún hentaði okkur vel, við vorum sátt. Hún var allt sem ég þurfi. Á þeim tíma var hægt að fá 90% lán ég þurfti bara að eiga þessi 10%, það var hægt að semja um ýmislegt og því í raun auðvelt að eignast íbúð. Ég gat meira að segja samið við fólkið sem ég var að kaupa af um að greiða þessar 670 þúsund krónur á einu ári. Þetta var árið 2002, íbúðin kostaði 6,7 milljónir og mín útborgun var því 670 þúsund. Afborganir af þessari eign eftir að ég hafði greitt útborgunina voru mjög litlar og líklegast eru þær einn þriðji af afborgun fyrir samskonar eign í dag.
Í dag er árið 2013 og ég er búin að missa íbúðina mína sem er reyndar ekki sú sama og þessi fyrsta. Ég átti 10 milljónir í eignum en í dag á ég mun meira en 10 milljónir bara í skuldum sem ég sé ekki fram á að geta borgað. Skuldirnar mínar verða hærri og hærri, ég var ekki með góð lán og þau hækkuðu gífurlega og ég missti tök á að greiða af því sem ég hafði alltaf greitt af. Einnig komu upp framkvæmdir og þær gerðu útslagið.
Það er engin leið fyrir mig að halda þessari íbúð sem ég „á“ í dag. Ég fór til umboðsmanns skuldara og ég reyndi eins og ég gat að standa við þann samning sem ég gerði þar en því miður tókst það ekki. Ég átti að leggja einhverja x upphæð fyrir á x löngum tíma og það gat ég engan vegin gert. Í lok þessa árs þarf ég að tæma „íbúðina mína“ og finna okkur nýtt heimili.
Íbúðin mín var því seld á uppboði, hingað kom fólk sem ég þekkti ekki neitt og ein kona lamdi hamri í borðstofuborðið mitt. Ég sat inni í stofu heima hjá mér mér þegar hún talaði með hárri röddu „1, 2, 3, slegið.“ Þetta var visst sjokk fyrir mig þar sem ég hafði alltaf átt minn fasta samastað, börnin voru alltaf örugg undir þaki sem við áttum en þannig var það ekki lengur.
Síðustu vikur er ég búin að gefa mér tíma í að skoða eignir. Ég er búin að fletta í gegnum síður með leiguíbúðum og íbúðum til sölu. Þar sem við erum 5 í fjölskyldu þá þurfum við að okkar mati íbúð sem er yfir 80 fermetrar. Við viljum helst finna íbúð sem er 4 eða 5 herbergja í hverfinu þar sem börnin okkar ganga í skóla.
Það er engum manni bjóðandi hvað leigumarkaðurinn er orðin hár, við erum að skoða íbúðir á yfir 200 þúsund. Íbúðir sem eru að fara á svona á milli 200 – 250 þúsund, margar þeirra eru ekki einu sinni „fínar“. Við erum búin að skoða íbúðir þar sem við þurfum að borga 3 mánuði fyrirfram sem gera 600-750 þúsund krónur fyrsta mánuðinn.
Ef við ætlum að geta lifað sómasamlegu lífi þá getum við aðeins borgað um 130.000 í leigu og við fáum 2 herbergja íbúð fyrir það. Auk þess er setið um íbúðir á leigumarkaðnum og erfitt að fá leigða íbúð, þær fara strax þar sem það er mikið af fólki í leit að leiguíbúðum.
Það er vonlaust fyrir mig að kaupa íbúð í dag. Í fyrsta lagi af því að nafnið mitt er ónýtt, ef það væri ekki ónýtt þá þyrfti ég að hafa góðar tekjur til þess að ná greiðslumati og eiga fyrir útborgun en það er erfitt að ná góðu greiðslumati með þrjú börn á framfæri. Ef ég keypti 4 herbergja íbúð á 24 milljónir þá þyrfti ég að eiga meira en 4 milljónir til að borga út, nema ég myndi fá íbúð á yfirtöku en þær íbúðir eru ekki margar og fara fljótt.
Bankarnir eru orðnir mun strangari á lán en þeir voru hér áður, það er allt svo mikið erfiðara en það var þegar ég eignaðist mína fyrstu eign. Til að geta keypt íbúð í Búseta þarf maður að eiga pening til að borga út og biðlistinn þar er langur og Búseti er ekki með íbúðir hér í þessu hverfi og ekki nálægt því heldur.
Ég veit ekki hvað við endum á því að gera, við erum að skoða þetta allt vel og vandlega en það er svo mikið af fólki í sömu stöðu og við. Fólk sem er að missa sitt heimili, fólk sem hefur ekki efni á að kaupa sér og nær ekki greiðslumati, fólk sem á ekki fyrir útborgun eða er með ónýtt nafn. Það er svo mikið að fólki að leita að leiguíbúð í dag og eftirspurnin er miklu meiri en framboðið. Það eru nokkur hundruð manns að bíða eftir íbúð hjá félagsþjónustunni og fullt af fólki sem býr saman eða inni á öðrum bara vegna þess að það hefur ekki kost á öðru.
Ég veit að Íbúðalánasjóður á fjöldann allan af íbúðum og bankarnir líka. Ég veit að sveitafélögin hafa ráð á að kaupa fleiri eignir en samt virðist staðan bara versna. Ég veit það að svona er þetta ekki að ganga upp og fólk er farið að íhuga að fara af landi brott. Margir eru nú þegar farnir.
Það hlýtur að vera til leið til þess að rétta þetta af, það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað til að létta undir með fólki til að kaupa sér íbúð, koma fleiri íbúðum á leigumarkað og fleiri félagslegum íbúðum í umferð.
Ástandið er slæmt og það verður bara verra ef ekki meira er gert. Ég hvet þá sem málið varðar að skoða facebook-síðu sem heitir leiga, í þann hóp eru skráðir yfir 10.000 notendur.
Ég hvet ráðamenn til að bera saman tekjur og leiguverð á markaðinum í dag. Það er reikningsdæmi sem einfaldlega gengur ekki upp.