Starfsmenn Þjóðleikhússins komu aftur til starfa í dag 17.8. 2015 eftir sumarfrí og af því tilefni flutti Ari Matthíasson ávarp þar sem hann kynnti leikárið 2015–2016 sem og listamenn þá er bætast nú í hóp þeirra sem fyrir eru í leikhúsinu. Kvennablaðið fékk leyfi til að birta ávarp Ara og yfirlit yfir þær spennandi sýningar sem á boðstólum verða í Þjóðleikhúsinu í vetur:
„Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar segir í 3. gr. leiklistarlaga.
Þegar þessi þjóð taldi 70.000 manns kviknaði draumurinn um þjóðleikhús, þegar bygging þess hófst vorum við 100.000 og nú kemur sá fjöldi árlega í leikhúsið okkar. En hver er þessi þjóð sem varð að eiga leikhús til að geta talist þjóð á meðal þjóða og verið sjálfstæð? Við höfum verið sagnaþjóð og skáldaþjóð frá upphafi og allt okkar innra líf hefur íklæðst formi skáldskapar á íslensku, okkar tungu.
Það sem öðru fremur myndar þjóð er samheyrileikakennd einstaklinga á tilteknu landsvæði; tilfinning þess að vera partur af einni heild, limir á einum líkama þrátt fyrir ýmiss konar aðstöðumun einstaklinga sín á milli. Í þessum samheyrileik er sú tilfinning ríkur þáttur að landið, þetta sérstaka land, heyri oss öllum til að nokkru leyti – já, engu að síður þeim sem ekki eiga þumlung lands. Okkur finnst við vera hjartabundin landinu í heild, og ýmsum stöðum þess sérstaklega, og þá er ekki spurt um landgæði né hitt hver sé þinglýstur eigandi þessara tilteknu staða. Þá þjóð sem ekki er hjartbundin landi sínu fyrir söguna, hana skortir einna helsta eiginleik þjóða, og slík þjóð er dauf og lítilfjörleg.
Það samfélag sem heitir Þjóðleikhúsið hefur miklum skyldum að gegna gagnvart íslensku þjóðinni við að efla samheyrileikakennd í þeirri fullvissu að slíkt sé grundvallarforsenda fyrir tilvist þjóðarinnar.
Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þeirrar staðreyndar að við eru ekki síður andlegar verur en líkamlegar. Við öðlumst ekki lífsfyllingu við líf frá degi til dags. Við þurfum samkennd, merkingu og skilning. Við þurfum samhengi í líf okkar. Við þörfnumst vonar og þess að eiga okkur framtíð.
Og til þess verðum við að eiga í virku samtali við hvert annað og þjóðina og bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá sem höfðar til allra. Þannig er dagskrá vetrarins 2015–16 glæsileg í alla staði. Hér er hugað að börnum í þriðjungi leiksýninga. Helmingur sýninga vetrarins er íslensk verk. Við frumsýnum bæði ný íslensk verk sem sérstaklega eru samin fyrir Þjóðleikhúsið og ný erlend verk sem hafa unnið stóra sigra á undanförnum árum. Við erum með klassísk verk sem teljast til fremstu verka heimsbókmenntanna.
Meirihluti listrænna stjórnenda eru konur. Aftur!
Ég hef lýst yfir áhuga mínum á því að Þjóðleikhúsið geri meira af því að sinna landsbyggðinni. Þess vegna munum við fara í leikferð um allt land.
Ég hef líka áhuga á því að við fáum fremstu leikhúslistamenn í Evrópu til samstarfs við Þjóðleikhúsið og hef sáð fræjum slíks samstarfs sem vonandi bera ávöxt á næstu árum.
Á þessu leikári koma til starfa að nýju margir frábærir listamenn. Mig langar að nefna Sigurð Sigurjónsson, Þröst Leó Gunnarsson, Björn Hlyn Haraldsson, Nínu Dögg Filippusdóttur, Kjartan Guðjónsson, Ingvar E. Sigurðsson, Karl Ágúst Úlfsson, Örn Árnason og fyrrum sambýlismann minn, Baltasar Kormák.
Og hingað koma einnig til starfa glæsilegir leikarar sem hér hafa ekki starfað áður: Guðjón Davíð Karlsson, Sigurður Þór Óskarsson, Árni Pétur Guðjónsson, Baltasar Breki Samper, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir.
Við höfum líka ráðið í fast starf leikstjóra, Unu Þorleifsdóttur, og sýningadramatúrg, Símon Birgisson, og að auki nýjan verkefnastjóra, Tinnu Lind Gunnarsdóttur.
Og hingað koma einnig til starfa aðrir leikhúslistamenn í fyrsta sinn: Salka Sól Eyfeld, Ken Billington, Einar Scheving og Halla Gunnarsdóttir.
Allir þessir einstaklingar styrkja Þjóðleikhúsið og samfélag okkar sem hér störfum.
Þó hér séu taldir upp margir sem munu standa í sóknarlínu okkar þá er ekki þar með sagt að ég gleymi öllum hinum hátt í 300 starfsmönnunum í Þjóðleikhúsinu. Hér er fólk sem leggur metnað sinn í að taka vel á móti fólki á öllum aldri. Hér er fólk sem kann að smíða og hanna og sauma og lýsa og flytja bæði hljóð og óhljóð betur en annað fólk sem ég þekki. Fólk sem ég treysti í hvívetna og ber mikla virðingu fyrir.
En hvað á svo að sýna?
Fyrsta frumsýning vetrarins á stóra sviðinu er Í hjarta Hróa hattar eftir David Farr í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar og Selmu Björnsdóttur. Leikmyndina hannar Börkur Jónsson en í vor fékk Börkur kanadísku leiklistarverðlaunin og Gísli Örn var tilnefndur. Tónlistin er samin af Sölku Sól Eyfeld og hljómsveit hennar sérstaklega fyrir sýningu Þjóðleikhússins.
Í aðalhlutverkum eru Lára Jóhanna Jónsdóttir, Þórir Sæmundsson, Guðjón Davíð Karlsson og Sigurður Þór Óskarsson. Þetta er eldfjörug fjölskyldusýning, uppfull af leikhústöfrum í anda Vesturports. Hér er það hin hugrakka Maríanna sem þarf að berjast fyrir réttlætinu og takast á við hin myrku öfl. Hrói getur lært sitthvað af Maríönnu um hvað það er að vera raunveruleg hetja, því án hennar verður landinu steypt í glötun. Rómantískt, hættulegt og drungalegt. Og ekki síst … skemmtilegt!
Frumsýning á Stóra sviðinu 12. september.
Heimkoman eftir Harold Pinter í leikstjórn Atla Rafns Sigurðarsonar er næsta frumsýning á þessu sviði. Það er einvala lið sem leikur í þessu meistaraverki Nóbelsskáldsins Harold Pinter: Ingvar E. Sigurðsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Ólafur Egill Egilsson, Snorri Engilbertsson og Eggert Þorleifsson. Tónlist semur og flytur á sviðinu Einar Scheving, en Börkur Jónsson hannar leikmynd og Helga I. Stefánsdóttir búninga. Heimkoman var frumflutt árið 1965, hlaut Tonyverðlaunin sem besta leikrit ársins og er af mörgum talið magnaðasta verk Pinters. Leikrit Harolds Pinters hafa mörg hver allt að því hversdagslegt yfirbragð, en í þeim býr óvenjulegur kraftur, og undir yfirborðinu leynast heiftúðug átök, kynferðisleg spenna, kúgun og ótti. Frumsýning á Stóra sviðinu 10. október.
Í október mun Spaugstofan vera með sérstaka afmælissýningu Yfir til þín í tilefni 30 ára afmælis síns. Spaugstofumenn eru allir að upplagi þjóðleikhúsleikarar og því eðlilegt að afmælinu sé fagnað hér á heimavelli. Þetta eru auðvitað dæmdir guðlastarar, rugludallar og klámhundar sem nú ætla að vera með sprellfjöruga gleðisýningu fyrir alla fjölskylduna.
Um jólin verður sýnt eitt af meistaraverkum 20. aldarinnar, Sporvagninn Girnd, eftir Tennessee Williams í leikstjórn Stefáns Baldurssonar, eins fremsta leikstjóra þjóðarinnar en nýjasta uppsetning hans, óperan Ragnheiður, hlaut Grímuna sem besta sýning ársins á liðnu leikári. Leikmynd gerir Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir og búninga Filippía Elísdóttir. Í aðalhlutverkum eru Nína Dögg Filippusdóttir, Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson.
Þetta er frábært leikaraleikrit sem mun gefa okkar hæfileikaríku leikurum tækifæri til að sýna hvers þeir eru megnugir.
Frumsýning á Stóra sviðinu 26. desember.
Í febrúar verður frumsýnt hrollvekjandi fantasía, Hleyptu þeim rétta inn, eftir Jack Thorne sem er leikverk byggt á samnefndri skáldsögu og bíómynd sem naut mikilla vinsælda fyrir fáum árum. Leikstjóri er Selma Björnsdóttir og með aðalhlutverk fara Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Sigurður Þór Óskarsson og Þröstur Leó Gunnarsson.

Vigdís Hrefna Pálsdóttir fer með eitt að aðalhlutverkunum í Hleyptu þeim rétta inn. Ljósmynd María Kjartansdóttir
Leikmynd gerir Halla Gunnarsdóttir og búninga María Ólafsdóttir. Þetta er hrollvekjandi fantasía sem hreyfir við þér, og hefur gagntekið áhorfendur víða um heim því sýningin hefur verið sýnd í skoska þjóðleikhúsinu, á West End og Broadway við miklar vinsældir.
Síðasta frumsýning leikársins á stóra sviðinu er Djöflaeyjan, nýr söngleikur byggður á skáldsögu Einars Kárasonar sem Þjóðleikhúsið mun setja upp í samvinnu við Baltasar Kormák. Ekki þarf að diskútera það frekar hversu mikill fengur er í því fyrir okkur að fá aftur Baltasar, hinn margverðlaunaða leikhúslistamann og okkar allra stærsta kvikmyndagerðarmann. Við stefnum að því að hefja forvinnu með leikurum í október og hefja svo formlegar æfingar í febrúar og frumsýna í apríl. Tónlistina mun Memfismafían sjá um og leikmynd gerir Gretar Reynisson. Atli Rafn Sigurðarson mun vinna með Baltasar að þessari sýningu, bæði skrifum, leikstjórn og framkvæmd allri. Enn hefur ekki verið gengið frá því hverjir leika aðalhlutverkin. Djöflaeyjan gerist á miklum umbrotatímum í íslensku samfélagi og er saga um fjölskylduátök, vináttu, ástir, vonir og þrár. Þetta verður íslenskur söngleikur, byggður á íslenskum aðstæðum frumsaminn sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið og gerður af okkar fremstu leikhúslistamönnum í víðu samhengi.
Fyrsta frumsýning haustsins verður í Kassanum 5. september. Þetta er Móðurharðindin eftir Björn Hlyn Haraldsson sem hann hefur fullunnið með leikhópi Þjóðleikhússins síðan í vor. Leikmynd gerir Axel Hallkell Jóhannesson og búninga Leila Arge. Þetta er kolsvört kómedía um mjög sérkennilega fjölskyldu og því fengum við til okkar sérfræðinga í meðvirkni til að leika aðalhlutverkin, þá bræður Kjartan og Árna Pétur Guðjónssyni, en ásamt þeim leika Sigurður Sigurjónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Hallgrímur Ólafsson. Við pufukeyrðum sýninguna síðastliðið vor fyrir áhorfendur og gaf sú keyrsla okkur tilefni til bjartsýni. Það er sérstök ánægja að opna þetta leikár með frumflutningi á nýju, íslensku leikriti.
Á haustdögum munum við sýna í húsi Jóns Þorsteinssonar, í Kassanum og Kúlunni, tvö samstarfsverkefni: Psychosis sem er frumuppfærsla á Íslandi á bresku verki sem frá því það var frumsýnt árið 2000 hefur vakið gríðarlega athygli og umtal víða um heim. Það er Edda Björg Eyjólfsdóttir sem stendur ein á sviðinu, en Stefán Hallur Stefánsson leikstýrir, Stígur Steinþórsson gerir leikmynd og Filippía Elísdóttir búninga.
Hitt verkið er glænýtt íslenskt leikrit (90)210 Garðabær eftir Heiðar Sumarliðason sem einnig mun leikstýra. Kristína R. Bermann gerir leikmynd og búninga. Heiðar er spennandi höfundur og þetta verk er áhugavert og á köflum grimmt uppgjör við yfirborðsmennsku, leynd og kúgun.
Um áramótin munum við frumsýna ≈ [um það bil] eftir Jonas Hassan Khemiri, verk sem var frumsýnt á Dramaten í Stokkhólmi á liðnu hausti og hefur notið gífurlegra vinsælda í Svíþjóð. Leikstjóri er Una Þorleifsdóttir og leikmynd og búninga gerir Eva Signý Berger. Una og Eva hafa áður gert frábærar sýningar í Þjóðleikhúsinu og við búumst ekki við neinu öðru nú. Tónlist semur Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikarar eru Þröstur Leó Gunnarsson, Snorri Engilbertsson, Guðrún Gísladóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir. Þetta er í senn bráðfyndið og ágengt verk þar sem er leitast við að veita áhorfendum sem fjárfest hafa í leikhúsupplifun kvöldsins hæsta mögulega skemmtunarvirði á hvern keyptan miða.
Í mars mun verða sýnd danssýningin Kvika í Kassanum í samstarfi við Katrínu Gunnarsdóttur þar sem hún nýtir þá reynslu sem býr í líkamanum sem efnivið listsköpunarinnar. Kvika skoðar líkamlega nærveru og orkuna sem myndast á milli manneskjunnar á sviðinu og áhorfandans.
Síðasta frumsýning leikársins í Kassanum er barna- og fjölskylduleikritið Umhverfis jörðina á 80 dögum sem Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson hafa samið sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið og er það að sjálfsögðu byggt á skáldsögu Jules Verne en efnistökin eru frjálsleg og blandað inn í framvinduna þekktum einstaklingum úr mannkynssögunni og uppfyndingum og tækniframförum 19. aldar. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir og leikmynd og búninga gerir Finnur Arnar Arnarsson. Auk Karls Ágústs og Sigurðar mun Örn Árnason leika.
Þjóðleikhúsið mun sinna börnum af miklum krafti þetta leikár eins og áður sagði, því auk frumflutningsins á Umhverfis jörðina á 80 dögum, mun verða farið í leikferð um allt land með Brúðuheimum og Bernd Ogrodnik, Sögustundin verður á sínum stað, Leitin að jólunum einnig, við sýnum Einar Áskel á Brúðuloftinu og höldum áfram að sýna hina fallegu og skemmtilegu sýningu um Kugg og Leikhúsvélina sem frumsýnd var í Kúlunni síðastliðið leikár.
Þetta er fjölbreytt og metnaðarfullt, jafnt fyrir sjúkraliða, einstæða feður, slökkviliðskonur, trésmiði, sjómenn og bókmenntafræðinga, já alla Íslendinga, og vonandi geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Til þess er leikurinn gerður.
Ég er stoltur af því að vera hluti af þessu samfélagi okkar sem störfum hér í þjóðleikhúsinu og lít á það sem stærstan hluta af mínum störfum að tryggja að ekkert skorti til þess að þið getið helgað ykkur störfum ykkar, eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Ég er til þjónustu reiðubúinn og hlakka til.
Gleðilegan vetur og áfram til sigurs.“