Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Kvenréttindaríma eftir Helgu Sigurðardóttur frá Hofsnesi

$
0
0

Jónína Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og gæðastjóri á Reykjalundi, sendi okkur Kvenréttindarímu eftir ömmu sína, Helgu Sigurðardóttur frá Hofsnesi, og kunnum við henni bestu þakkir fyrir. Jónína birti ljóðið fyrst á Facebook og var hvött til að senda okkur það á ári 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Það er vel við hæfi enda er ljóðið eins og Jónína bendir á jafnréttisáskorun til íslenskra kvenna (og karla). Jónína skrifar hér líka stutt æviágrip ömmu sinnar.

Helga sennilega um tvítugt

Helga sennilega um tvítugt

„Helga fæddist á Hofsnesi í Öræfum þann 25. júní árið 1896 og lést 60 ára gömul, 28. ágúst 1956. Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Bjarnadóttir og Sigurður Þorsteinsson. Skólaganga Helgu var í farskóla sveitarinnar, en til að víkka sjóndeildarhringinn réð hún sig til starfa á menningarheimilinu Lundi í Vík í Mýrdal hjá Höllu Guðjónsdóttur og Sigurjóni, eiginmanni hennar.

Þar var hún tvo vetur upp úr tvítugu og taldi það hafa orðið sér til heilla. Hún varð fljótt vinsæl af heimilisfólkinu vegna þess hve skemmtilega hún sagði frá og sérstaklega löðuðust börnin að henni til að hlýða á sögurnar hennar. Helga giftist Jóni Oddssyni frá Hofi árið 1928 og eignuðust þau hjón þrjú börn. Þau bjuggu á Hofi með foreldrum Jóns í rúman áratug, en reistu síðan nýbýlið Malarás (Ás) í landi Hofsness og fluttu þangað árið 1940.

Helga var alla tíð húsfreyja á sínu heimili, sinnti hefðbundnum heimilisstörfum samkvæmt tíðarandanum og naut virðingar fyrir þau. Hún var vel þekkt í sveitinni fyrir að vera hagmælt og margir fengu frá henni erfiljóð til huggunar þegar ástvinir voru kvaddir. Einnig átti hún góðar vinkonur utan sveitar, t.d. í Vík og í Reykjavík og hélt sambandi við þær með bréfaskiptum, fylgdist með Útvarpinu, Kvennablaðinu, Nýju kvennablaði og þeim fréttablöðum sem völ var á.

Árið 1954 birti Helga grein í Félagsvininum – handskrifuðu fréttablaði Öræfinga – þar sem hún hvatti Öræfakonur til að hlusta á Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og standa með henni í kvenréttindabaráttunni. Sú grein er nú aðgengileg í bókinni Félagsvinurinn, sem var gefin út af Ungmennafélagi Öræfa árið 2003.

Af gögnum sem varðveittust eftir Helgu er ljóst að hún gerði sér vonir um að fá að birta hugrenningar sínar, bæði ljóð, sögur, leikrit og greinar. Eitt bréf hefur fundist, frá ritstjóra Dags á Akureyri, sem afþakkar vegna plássleysis, sögu og ljóð sem Helga hafði sent blaðinu í von um birtingu. Helga og Jón, eiginmaður hennar, höfðu ákaflega gaman af fjörugum samræðum við gesti og gangandi og voru bæði söngelsk og listfeng.“

HELGASIG-03B (1)

Kvenréttindaríma

Tuttugustualdar önn
á mörg tækifæri.
Nú er menntun meyja sönn,
sem mætra drengja væri.

Hjarni líkur heimurinn
heimtar krafta blíða,
svo að mæðumaðurinn
megi hrinda kvíða.

Íslendingar ættu nú
í allra krafta nafni,
meta, að jöfnu mann og frú
í manndómsstarfa safni.

Að hér nefnist allar frúr
engum bagað getur.
Hver sé sínum titli trúr,
sem tignir nokkurs metur.

Það er raunhæf réttarbót,
að reflahrundir* allar (*konur)
eignist titil af einni rót,
sem Íslands prúðir karlar.

Alþjóð varðar eigi hót,
um þær götuslóðir,
hvort ég er ekkja, ógift snót,
eða barnamóðir.

Konur sjá að mikið má
milda jarðlífs klaka.
En fá þær þá að fara á stjá
með friðsælan ljósvaka?

Góðu máli leggja lið,
ljúft mun konum vera.
Og standa saman, hlið við hlið,
hita tímans bera.

Í flest landsins embætti
eins má skipa konur.
Þær munu eiga árvekni
eins og góður sonur.

Kvenréttinda konurnar
kvennadyggðir sýna.
Hugprúðar og hagorðar,
með hjartagæzku fína.

Þær vilja rétta hjálparhönd
hollu þjóðarmáli.
Bæta hag um lög og lönd,
og lýð, með reynslustáli.

Þótt þær knerri stýri í strand
í straumum ólgusjóa,
eins brutu karlar bát við sand,
þótt bæru krafta nóga.

Augu kvenna allvel sjá,
með áhuga og snilli,
vandamál, sem vekja þrá,
von og þjóðarhylli.

Ríkisútvarp ætti ei
að þeim möttul sauma,
bjargráða svo brotni fley
á bylgjum rafmagnsstrauma.

Mínútur ég tæpar tel
tólfhundruð á ári.
Því margar konur vita vel
hvað veldur þrautafári.

Engin kona á Ísafold
ætti þjóð að svíkja,
svo hún glöð að móðurmold
megi um síðir víkja.

Aldrei skyldi auðargná
íslenzka það henda,
að hún kjósi karlmann frá
knerri í höfn að lenda.

Því alls þarf við, ef að er gáð
og einnig bezt mun duga.
Gifturíkt er góðs manns ráð
gott er að slíku huga.

En kvennaeðlið kærleiksríkt
er konuskrautið bezta.
Hjartansgullið, guði vígt,
gæfu veitir mesta.

Eins og systur ættuð þið
ykkar bræður styrkja.
Þá mun ykkar þiggja lið:
Þjóðin, land og kirkja.

Kvenréttindakonum ég
kveðjuorðin vanda.
Siglið mildan sigurveg
til sólarbjartra stranda.

Birtist fyrst í Nýju kvennablaði, 9. árgangur, 3. tbl. marz 1948, bls. 1.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283